Rannsóknir í þágu atvinnuveganna

Fimmtudaginn 15. apríl 2004, kl. 12:59:19 (6388)

2004-04-15 12:59:19# 130. lþ. 97.1 fundur 878. mál: #A rannsóknir í þágu atvinnuveganna# (Landbúnaðarháskóli Íslands) frv. 79/2004, 879. mál: #A búnaðarfræðsla# (Landbúnaðarháskóli Íslands) frv. 71/2004, JBjarn (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 130. lþ.

[12:59]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Í tilefni af orðum hv. þm. Björgvins G. Sigurðssonar varðandi vangaveltur um stjórnsýslulega stöðu þessara skóla, hvort þeir ættu frekar að heyra undir menntmrn. í stað þess að heyra undir landbrn. eins og í dag er og þá framtíðarsýn að koma þeim undir menntmrn., þá vil ég í fyrsta lagi vekja athygli á því, eins og kom reyndar fram í andsvörum hv. þingmanna við ráðherra áðan, að öll starfsmenntun á vegum menntmrn. á mjög undir högg að sækja. Þau tengsl sem voru áður fyrr við atvinnulífið og eru forsenda fyrir því að starfsmenntun takist vel hafa þar rofnað.

Mjög náin og sterk tengsl við atvinnulífið eru mikilvæg verkmenntaskólum og því samfélagi sem byggir á viðkomandi atvinnulífi. Það hefur ekki gengið vel hjá þessum skólum sem nú eiga undir högg að sækja og heyra undir menntmrn.

Þetta hefur aftur á móti verið styrkur búnaðarskólanna, að þeir hafa verið í nánum tengslum við atvinnulífið og nærsamfélag sitt hvað þetta varðar. Það er því ekki endilega patentlausn eða eitthvert sáluhjálparatriði að færa þessa skóla undir önnur ráðuneyti. Menn trufla bara umræðuna með því að draga þetta stöðugt inn í hana. Menn leiða hana frá því meginhlutverki þessara skóla, að vera farsælar, góðar og öflugar menntastofnanir sem þjóni markmiðum sínum og samfélagi. Það er meginmarkmiðið. Það má ekki týnast í umræðu um annað.