Rannsóknir í þágu atvinnuveganna

Fimmtudaginn 15. apríl 2004, kl. 13:35:11 (6392)

2004-04-15 13:35:11# 130. lþ. 97.1 fundur 878. mál: #A rannsóknir í þágu atvinnuveganna# (Landbúnaðarháskóli Íslands) frv. 79/2004, 879. mál: #A búnaðarfræðsla# (Landbúnaðarháskóli Íslands) frv. 71/2004, MÞH
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 130. lþ.

[13:35]

Magnús Þór Hafsteinsson:

Hæstv. forseti. Við ræðum í dag mál sem ég tel á margan hátt vera mjög þarft og mikilvægt og í upphafi máls míns vil ég byrja á að lýsa því yfir að ég styð það í aðalatriðum. En áður en ég fer nánar út í þá sálma vil ég aðeins koma að því sem mér finnst svolítið ámælisvert, að þegar lokadagar þingsins eru að renna upp virðist hæstv. landbrh. galdra fram hvert tímamótafrumvarpið á fætur öðru. Ég minni á frv. um ný ábúðarlög og ný jarðalög. Hvoru tveggja eru umfangsmikil frv. sem þurfa vandaða umfjöllun þingsins og þeirra aðila sem þau varða. Þessi tvö frumvörp ku hafa að okkur er tjáð verið í vinnslu í landbrn. um nokkurn tíma, svo hefur ríkisstjórnin legið yfir þeim og síðan þingflokkar stjórnarflokkanna. Nú fyrst fær hið háa Alþingi þau til þinglegrar meðferðar.

Það hefur komið fram í máli annarra þingmanna fyrr í dag að þeir eru svolítið ósáttir við þessi vinnubrögð og ég tek fyllilega undir það. Ég skil ekki svona vinnubrögð. Við höfum að baki heilan vetur, en nú þegar vor er í lofti og farfuglarnir farnir að tínast til landsins og það styttist óðum í þinglok skellir ríkisstjórnin stóru og mikilvægu frumvörpunum sínum á borðið og ætlast til þess að við fulltrúar þjóðarinnar á hinu háa Alþingi vinnum eins og kvörn sem tekur við öllu sem í hana er látið.

Eins og ég sagði áðan, herra forseti, erum við með enn eina tímamótalagasetningu frá hæstv. landbrh. og ég styð málið í aðalatriðum. Hér eru á ferðinni breytingar sem ég tel að hafi verið tímabærar um nokkurra ára skeið og undrast það að menn skuli ekki hafa verið búnir að koma á fót Landbúnaðarháskóla Íslands og færa undir hann rannsóknir í þágu landbúnaðarins fyrir löngu.

Í frv. til breytinga á lögum nr. 64/1965 segir í nýrri grein, 30. gr., með leyfi forseta:

,,Hlutverk rannsóknasviðs Landbúnaðarháskóla Íslands er að afla og miðla þekkingu um fjölþætt hlutverk landbúnaðar sem byggist á íslenskri náttúru og menningararfleifð. Meðal verkefna sviðsins eru rannsóknir er lúta að meðferð, ræktun og nýtingu lands, búfjár og ferskvatnsdýra til framleiðslu matvæla og annarrar atvinnu- og verðmætasköpunar, sem og rannsóknir er lúta að sjálfbærri og fjölþættri landnýtingu og umhverfismótun.``

Hér er vert að staldra aðeins við því að þessi grein er að mínu mati sjálft inntakið í þeim breytingum sem fyrirhugaðar eru því hér er verið að skilgreina rannsóknasvið hins nýja Landbúnaðarháskóla Íslands. Eins og við vitum öll byggir háskólanám á rannsóknum. Alvöruháskólar stunda rannsóknir og eiga að stunda öflugt rannsóknastarf og miða kennslu sína oft og tíðum út frá því. Ég minni á að stúdentar við háskóla stunda og leggja mjög mikið af mörkum oft og tíðum hvað varðar rannsóknastörf og rannsóknarvinnu. Lokaverkefni þeirra byggja til að mynda oft á sjálfstæðum rannsóknarverkefnum sem eru unnin innan háskólastofnana.

Ég fagna skilgreiningu 30. gr. Hún er víðtæk en hún er góð og mér finnst skilgreiningin virka mjög lofandi fyrir hina nýju stofnun, en ég sakna nánari úttektar á því í greinargerðum með frumvörpunum hvað menn vilja og hvert skal stefna og til hvers við séum að þessu. Ég hefði viljað sjá það útfært nánar. Ég efast ekki um að menn vilji vel með þessum breytingum og menn vilji vel með því að stofna Landbúnaðarháskóla Íslands og færa undir hann rannsóknir en ég hefði viljað sjá nánari og vandaðri útfærslu á því hvað menn hyggjast fyrir. Það má vel vera að það sé til í einhverjum skýrslum í landbrn., ég þekki það ekki, en ég vona að þeim hugsunum sem vonandi hafa verið settar á blað verði komið til skila til hv. landbn. þar sem ég á sæti sem áheyrnarfulltrúi þannig að við fáum að sjá nánar hvað vakir fyrir hæstv. landbrh. og því ágæta fólki sem hefur starfað með honum að þessu verkefni.

Mér finnst nefnilega á margan hátt að það sé kominn tími til að fara yfir stofnanir landbúnaðarins, skoða hlutverk þeirra og íhuga hvort við getum ekki einmitt hagrætt svolítið í þessum geira, jafnvel sameinað stofnanir. Í gær var forvitnileg umræða um hugsanlega sameiningu Landgræðslu ríkisins og Skógræktar ríkisins. Það mætti skoða þá hluti betur og jafnvel spyrja sig hvort ekki væri ástæða til að flytja þá starfsemi að einhverju leyti undir hatt Landbúnaðarháskóla Íslands í framtíðinni því það er alveg ljóst að þessar tvær stofnanir, Landgræðslan og Skógræktin, stunda mikilvæg og oft á tíðum merkileg rannsóknastörf. Miðstöð rannsóknastarfanna yrði þá að verulegu leyti færð á Hvanneyri þó rannsóknir og önnur starfsemi yrði að sjálfsögðu áfram vítt og breitt á ýmsum starfsstöðvum víða um land sem þurfa þykir á hverjum tíma. Hér erum við að tala um hluti sem talað er um í 30. gr., ræktun og nýtingu lands.

Annað sem ég vil líta á varðar ferskvatnsdýr til framleiðslu matvæla og annarrar atvinnu- og verðmætasköpunar. Í því sambandi vil ég minnast á Veiðimálastofnun. Ég bendi á að aðalstöðvar Veiðimálastofnunar eru í hálfgerðum kumbalda uppi á Höfða á iðnaðarsvæði þar, í umhverfi sem mér finnst gersamlega óásættanlegt fyrir jafnvirðulega og ágæta stofnun. Hvers vegna má ekki íhuga að færa aðalstöðvar Veiðimálastofnunar t.d. upp á Hvanneyri og færa jafnvel Veiðimálastofnun undir Landbúnaðarháskóla Íslands og gera hana að deild þar og koma síðan á fót kennslutilboði t.d. í vatnalíffræði, fiskifræði ferskvatnsfiska og öðru þess háttar, auðlindanýtingu, t.d. nýtingu veiðivatna og stangveiðiáa, og njóta sérfræðiþekkingar sérfræðinga Veiðimálastofnunar, bæði við rannsóknir og kennslu?

Veiðimálastofnun er í dag með aðalstöðvar sínar í Reykjavík. Hún er með útibú á Hólum í Hjaltadal, sem er að sjálfsögðu mjög gott og ég tel að eigi að vera áfram þar, og hún er með útibú í Borgarnesi og á Selfossi. Það væri kannski ekki svo vitlaust að leggja af útibúið í Borgarnesi og færa aðalstöðvarnar til Hvanneyrar og halda áfram að vera með útibú á Selfossi, þ.e. á Suðurlandi og á Hólum í Hjaltadal, þ.e. á Norðurlandi.

Ég ætla ekki að hafa mál mitt langt. Margt af því sem ég hefði viljað sagt hafa hefur verið sagt í dag þannig að ég ætla ekki að fara að endurtaka það. Ég vil aðeins að lokum taka undir þetta með skipun háskólaráðs. Ég tel að það eigi fyllilega rétt á sér eins og ágætir þingmenn hafa verið að tala um að nemendur eigi fulltrúa í háskólaráði. Í alvöruháskólum eru engir krakkar eða unglingar heldur fullorðið fólk sem veit sínu viti og það á að sjálfsögðu fullt erindi í háskólaráð sem ég vona að verði bæði mikið og öflugt í framtíðinni. Ég rek til að mynda augun í það að tveir fulltrúar eiga að vera tilnefndir af Bændasamtökum Íslands. Væri ekki góð hugmynd að skipta öðrum þeirra út og taka frekar inn einn fulltrúa nemenda í staðinn? (Gripið fram í: Einn sjálfstæðismann og einn framsóknarmann.)

Þetta er það helsta sem ég hef að segja í þessari umferð. Ég vænti þess að málið fari til landbn. og fái þar vandaða umfjöllun. Við þurfum að vanda til verka. Þetta er mikilvægt skref sem við erum að taka og þarft að mínu mati. Enn og aftur segi ég að ég styð frumvörpin í aðalatriðum en ég hef ákveðnar athugasemdir og ég sakna þess að menn skuli ekki skilgreina betur hvert þeir vilja fara, hvað þeir eru að hugsa með þessu, að við fáum að sjá almennilegar greinargerðir og jafnvel stefnumótun í þessum málum, þ.e. hvað við ætlum að gera við stofnanir landbúnaðarins í framtíðinni, hvernig við ætlum að breyta í þessum geira. Ég tel alveg fulla ástæðu til að fara yfir það með jákvæðum og opnum huga.