Rannsóknir í þágu atvinnuveganna

Fimmtudaginn 15. apríl 2004, kl. 13:45:07 (6393)

2004-04-15 13:45:07# 130. lþ. 97.1 fundur 878. mál: #A rannsóknir í þágu atvinnuveganna# (Landbúnaðarháskóli Íslands) frv. 79/2004, 879. mál: #A búnaðarfræðsla# (Landbúnaðarháskóli Íslands) frv. 71/2004, JÁ
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 130. lþ.

[13:45]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Hæstv. landbrh. hefur gert grein fyrir tveimur málum sem hafa verið til umræðu í morgun. Um þau hefur að mörgu leyti farið fram ágæt umræða. Ég get byrjað á að taka undir gagnrýni sem komið hefur fram og ætla ekki að endurtaka hana, svo sem um að málin séu seint fram komin og hefðu betur komið fyrr. Ég tek fullkomlega mark á því sem hæstv. ráðherra segir, að hann hafi áhuga á að þessi mál verði afgreidd á þessu þingi.

Ég vil í upphafi segja að mér finnst ástæða til að láta það koma fram að þeir sem ég hef rætt við um þessi málefni í Samf. hafa verið sammála um að hér sé stigið rétt skref, þ.e. með því að sameina þessar stofnanir. Hins vegar hefur komið skýrt fram í umræðunni að mönnum líkar ekki ýmislegt í framsetningu þess sem er á þessum blöðum frá hæstv. ráðherra. Mér virðist ljóst að margt sé hægt að græða á því að sameina þær stofnanir sem hér er verið að tala um, þ.e. Rannsóknastofnun landbúnaðarins og Búnaðarháskólann á Hvanneyri. Þessar stofnanir hafa verið í góðu samstarfi undanfarin ár. Þær hafa mótað sameiginlega stefnu og sett sér langtímamarkmið sem hafa verið skilgreind í samkomulagi milli stofnananna. Það er ástæða til að minna á það samstarf og það að þeir sem vinna á þessum stofnunum hafa unnið náið saman og starfað á víxl í báðum þessum stofnunum í góðu samkomulagi.

Á Hvanneyri er það yfirgnæfandi skoðun hjá öllum sem ég hef haft spurnir af að sameina eigi þessar stofnanir. Hins vegar er ekki jafnmikill samhljómur í afstöðu þeirra sem vinna á Keldnaholtinu. Það er kannski ósköp eðlilegt. Sú umræða hefur farið fram á þessum stöðum. Mönnum hafa verið kynntar þessar hugmyndir. Ég er á þeirri skoðun að sú kynning hafi sýnt að það sé a.m.k. ekki meiri andstaða við þessar breytingar en búast mátti við af þeim sem vinna á Keldnaholti.

Ég vil láta koma fram þá skoðun mína að horfa eigi til þess að fleiri stofnanir landbúnaðarins heyri undir Landbúnaðarháskóla Íslands en hér er lagt er til. Mér finnst að menn þurfi að vanda sig býsna vel við framhald málsins vegna annarra stofnana sem talað hefur verið um að sameina og fara ekki af stað með breytingar sem yrðu kannski skammtímabreytingar vegna þess að tiltekin starfsemi ætti betur heima undir Landbúnaðarháskóla Íslands en í samstarfi annarra stofnana. Það hefur t.d. verið nefnt að flytja starfsemi frá Mógilsá og suður á bóginn. Það er ástæða til að vanda sig í þessu, annars geta menn raskað því sem er vel er gert og komið í veg fyrir að sú hámarkshagræðing náist sem hægt er að ná í þessum málefnum.

Það hafa verið átök um þetta mál. Það þýðir ekkert fyrir menn að fela það með neinum hætti. Það hefur verið ósamstaða um þetta á undanförnum árum. Málin hafa verið til umræðu hvað eftir annað. Hæstv. ráðherra hefur komið fram með þetta frv. og þó að það sé gallað að einhverju leyti tel ég mikilvægt að menn stígi þessi skref til að hefja endurskipulagningu á stofnunum landbúnaðarins. Það hefur skort á að af stað kæmist ferli sem gæti leitt til betra skipulags. Menn hafa áhyggjur af þeim stofnunum öðrum sem hér hafa verið til umræðu, t.d. Háskólanum á Hólum og Garðyrkjuskóla ríkisins. Ég get tekið undir þær áhyggjur og það er eðlilegt að menn séu pínulítið kvíðnir að því leyti að þessari stofnun sé gert hærra undir höfði en þeim. Það vantar skýr svör. Mér finnst að hæstv. ráðherra gæti kannski skýrt málin dálítið betur með því að lýsa yfir stefnu sinni gagnvart þessum stofnunum og árétta hvaða hlutverk hann telur að þær eigi að hafa.

Mín skoðun er sú að það eigi að skoða vandlega hvort sú starfsemi sem fram fer undir Garðyrkjuskóla ríkisins ætti ekki einnig að heyra, að einhverju leyti eða jafnvel öllu, undir háskólann sem verið er að stofna með þeim lagafrv. sem hér liggja fyrir. Sú skoðun á ekki við um skólann að Hólum að mínu viti. Mér finnst að menn þurfi að segja hug sinn í þessu. Ég tel ástæðu til að menn horfi til framtíðarinnar og að ekki verði farið í annars konar endurskipulagningu sem væri fólgin í að búa til einhvers konar stofnanasamruna á Suðurlandi í kringum Garðyrkjuskóla ríkisins, við aðrar stofnanir með verkefni sem í raun ættu að eiga heima undir landbúnaðarháskóla. Það væri að mínu viti slys ef það gerðist. Þarna þurfa menn að vanda sig. Ég hvet til þess.

Það hefur komið til umræðu hvar þessar stofnanir eigi heima í Stjórnarráðinu. Ég get svo sem endurtekið þá skoðun mína, sem ég hef sett fram áður, að skólastarfsemi eins og þessi eigi auðvitað að heyra undir menntmrn. Það þýðir ekki að láta þar við sitja vegna þess að ef þessar stofnanir yrðu teknar undan landbrn. væri búið að sníða svo stóran hluta af starfsemi ráðuneytisins að því mundi fylgja umræðan um hvort ráðuneytið eigi að vera sjálfstætt ráðuneyti.

Ég tel að það eigi að stofna atvinnuvegaráðuneyti og landbrn. eigi að falla inn í það. Það væri hluti af endurskipulagningu Stjórnarráðsins. Sú umræða hlýtur að tilheyra þeim málum. Ég hef hvatt til að sú endurskipulagning fari fram og mér finnst ekki vansalaust að núverandi ríkisstjórn virðist ekki ætla að taka neitt á þeim málum. Reynslan segir að í gegnum tíðina hefur það ekki talist rétti tíminn til að endurskipuleggja Stjórnarráðið þegar kosningar hafa farið fram og þarf að stofna nýja ríkisstjórn. Það einfaldlega gerist ekki. Þess vegna þarf endurskipulagning Stjórnarráðsins að fara fram eða hugmyndir um slíka endurskipulagningu að liggja fyrir þegar kosið hefur verið. Mér finnst að menn þurfi að hysja svolítið upp um sig í þessu máli og láta fara fram virkilega skoðun á Stjórnarráðinu, á því hvernig málum væri þar best fyrir komið. Ég tel að við mundum staðnæmast við það sem ég sagði áðan, að það yrði til atvinnuvegaráðuneyti og landbrn. félli undir það.

Þó að þetta mál sé seint fram komið og á því megi finna galla sem menn hafa farið yfir, ég ætla ekki að endurtaka það til að lengja ekki þessa umræðu, þá hvet ég nefndarmenn í landbn. og öðrum nefndum sem hugsanlega fá þetta málefni til umfjöllunar til að reyna að klára málið á þessu vori. Ég sé ekki betur en að þessi endurskipulagning sem hér er að hefjast með þessum frumvarpsflutningi hæstv. ráðherra eigi að geta orðið til góðs og skilað landbúnaðinum í landinu betri framtíð. Sannarlega veitir ekki af. Menn mega ekki láta það dragast að styrkja með öllum ráðum landbúnað á Íslandi. Margt hefur gerst sem er og mun verða landbúnaðinum erfitt. Ef stofnanir landbúnaðarins eru ekki eins vel í stakk búnar og kostur er til að mennta fólk og standa við bakið á landbúnaðinum sem heild þá mun honum auðvitað ekki farnast eins vel og ella.

Ég skora enn og aftur á þá sem um þetta mál fjalla að taka á því með jákvæðu hugarfari og sérstaklega á hæstv. ráðherra að vera tilbúinn til að gera málamiðlanir svo að þetta mál komist áfram. Það gæti vel verið að hann þyrfti að brjóta odd af oflæti sínu að einhverju leyti hvað varðar það sem í þessum frumvörpum stendur. (Landbrh.: Það er ekki stóra málið.) Það er ekki stóra málið fyrir hæstv. ráðherra. Ég fagna þeirri yfirlýsingu.