Rannsóknir í þágu atvinnuveganna

Fimmtudaginn 15. apríl 2004, kl. 14:17:09 (6395)

2004-04-15 14:17:09# 130. lþ. 97.1 fundur 878. mál: #A rannsóknir í þágu atvinnuveganna# (Landbúnaðarháskóli Íslands) frv. 79/2004, 879. mál: #A búnaðarfræðsla# (Landbúnaðarháskóli Íslands) frv. 71/2004, landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 130. lþ.

[14:17]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er einhvern veginn svo að þegar hv. þm. Össur Skarphéðinsson losar sig við stjórnmálamanninn úr skrokki sínum og fer að tala sem vísindamaður þá líður manni vel. Hér flutti hann yfirgripsmikla, góða og sterka ræðu á þekkingarsviði sínu og þakka ég honum fyrir það. Mér finnst alltaf varið í þennan vísindamann og gott að heyra sýn hans á ýmsu í frumvörpunum og þeim áformum sem eru uppi í dag.

Hvað varðar Hólaskóla og Veiðimálastofnun er það alveg rétt sem hv. þm. segir að Hólaskóli er vísindalega í fremstu röð í kringum bleikjuna og raunar á fiskeldissviðinu. Sú sýn sem hv. þm. hefur með Veiðimálastofnun og fram hefur komið í umræðunni hjá öðrum fer mjög vel saman við að styrkja Hólaskóla enn þá meira á sviðum hans. Hann hefur hestinn og rannsóknir á honum. Hann hefur fiskeldið og rannsóknir á fiskeldinu og núna í vaxandi mæli sjávarfiska einnig þannig að hann gerir mjög út á þetta og ferðaþjónustuna að auki. Ég get því tekið undir og deilt hugsunum með hv. þm. Það er auðvitað verkefni sem vert er að skoða hvort það megi styrkja vísindin enn meir og skólastofnunina með því að Veiðimálastofnun og Hólaskóli yrðu eitt í framtíðinni.

Ég hef ekki tíma til að koma inn á fleiri atriði en mun tala aftur síðar.