Rannsóknir í þágu atvinnuveganna

Fimmtudaginn 15. apríl 2004, kl. 14:22:48 (6398)

2004-04-15 14:22:48# 130. lþ. 97.1 fundur 878. mál: #A rannsóknir í þágu atvinnuveganna# (Landbúnaðarháskóli Íslands) frv. 79/2004, 879. mál: #A búnaðarfræðsla# (Landbúnaðarháskóli Íslands) frv. 71/2004, MÞH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 130. lþ.

[14:22]

Magnús Þór Hafsteinsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson kallaði áðan eftir rökstuðningi mínum um að Landbúnaðarháskóli Íslands ætti að vera áfram undir landbrn. Ég var ekki mikið að fara út í þá sálma í ræðu minni vegna þess að ég tel að það sé önnur umræða og eigi hreinlega ekki við þegar við ræðum þetta mál. Við erum að ræða um að stofna Landbúnaðarháskóla Íslands og það er í sjálfu sér nógu flókið mál því að undir þá umræðu heyra nánast allar stofnanir landbúnaðarins eins og klárlega hefur komið fram í umræðum í dag.

Það er aftur á móti annar handleggur hvort menntun innan landbúnaðargeirans eigi að heyra undir menntmrn. eða landbrn. Ég er mjög efins í því máli. Það hefur verið farsælt fram að þessu að menntunin innan landbúnaðargeirans sé undir landbrn. og ég held að ef við ætlum að færa hana undir menntmrn. ættum við að íhuga það mjög vandlega og ég vil leyfa mér að taka mér svolítið meiri umþóttunartíma í því máli. Eins og ég sagði áðan tel ég að það sé fyrir utan ramma þeirrar umræðu sem við erum að einbeita okkur að núna.

Í sambandi við Veiðimálastofnun er það einu sinni þannig að ein öflugasta deild Veiðimálastofnunar er á Hólum og það er mikið samstarf á milli Hólaskóla og Veiðimálastofnunar í dag þannig að ég átta mig ekki alveg á því af hverju það þarf endilega að færa Veiðimálastofnun norður. Ég held að það væri miklu farsælla ef Veiðimálastofnun hefði aðalstöðvar sínar á Hvanneyri í tengslum við nýja landbúnaðarháskólann. Ef við ætlum að búa til landbúnaðarháskóla á Hvanneyri þurfum við að gera það almennilega, búa til sterkan og öflugan háskóla sem hefur náin tengsl t.d. við háskólaumhverfið á Stór-Reykjavíkursvæðinu, t.d. við líftækniiðnaðinn á Stór-Reykjavíkursvæðinu varðandi plönturannsóknir, fiskirannsóknir, dýrarannsóknir, erfðafræðirannsóknir og annað þar fram eftir götunum. Ég segi því já við öflugum landbúnaðarháskóla á Hvanneyri og við eigum að vanda virkilega til verka í því máli.