Rannsóknir í þágu atvinnuveganna

Fimmtudaginn 15. apríl 2004, kl. 14:28:26 (6401)

2004-04-15 14:28:26# 130. lþ. 97.1 fundur 878. mál: #A rannsóknir í þágu atvinnuveganna# (Landbúnaðarháskóli Íslands) frv. 79/2004, 879. mál: #A búnaðarfræðsla# (Landbúnaðarháskóli Íslands) frv. 71/2004, KÓ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 130. lþ.

[14:28]

Kjartan Ólafsson (andsvar):

Herra forseti. Ég er ekki sammála túlkun hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar á röksemdum mínum fyrr í umræðunni um að ég vilji að menntastofnanir landbúnaðarins fari skilyrðislaust undir menntmrn. Ég vildi hins vegar fá það inn í umræðuna og fannst það sjálfsagt. Það hefur verið gert og mér finnst það mjög jákvætt.

Það sem meginmáli skiptir er það fjármagn sem fer til atvinnugreinarinnar hvað varðar menntun, rannsóknir og leiðbeiningar. Það verður að segjast eins og er að Garðyrkjuskóli ríkisins að Reykjum hafði forustu um að tengja saman menntunina, rannsóknirnar og leiðbeiningarnar. Í þeim skóla hefur verið stunduð kennsla á margháttuðum sviðum innan garðyrkjunnar. Þar hafa verið rannsóknir á mörgum sviðum innan þess fags og svo hafa ráðunautar sem störfuðu hjá Bændasamtökum Íslands flust að Reykjum. Þessar þrjár greinar hafa því verið stundaðar þar um nokkurt skeið, sem er nýmæli. Það er kannski það sem verið er að gera með lagabreytingunni núna. Það er verið að færa rannsóknirnar í hinum hefðbundnu búgreinum að skólanum og það er til bóta.