Rannsóknir í þágu atvinnuveganna

Fimmtudaginn 15. apríl 2004, kl. 14:54:12 (6411)

2004-04-15 14:54:12# 130. lþ. 97.1 fundur 878. mál: #A rannsóknir í þágu atvinnuveganna# (Landbúnaðarháskóli Íslands) frv. 79/2004, 879. mál: #A búnaðarfræðsla# (Landbúnaðarháskóli Íslands) frv. 71/2004, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 130. lþ.

[14:54]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Mér þótti það skipta máli að hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson er á nákvæmlega sömu línu og ég varðandi frelsi rannsóknastofnana. Það skiptir verulegu máli að íslenskir vísindamenn hafi frelsi til að rannsaka með þeim aðferðum sem þeir vilja. Hv. þm. tók sérstaklega dæmi af Hafrannsóknastofnun. Ég er alveg sammála hv. þm. um þetta. Ég tel varðandi þá stofnun að þar hafi menn búið til ákveðna opinbera rannsóknastefnu og gert hana að pólitískri kreddu.

Það er einfaldlega orðið þannig að ekki einu sinni þingmenn geta aflað sér upplýsinga frá starfsmönnum þeirrar stofnunar nema fara allra náðarsamlegast í gegnum forstjóra stofnunarinnar. Það er af sem áður var þegar alþingismenn og aðrir gátu tekið upp símann og fengið allar þær upplýsingar vafninga- og umbúðalaust sem þeir vildu.

Ég sagði í ræðu minni fyrr í dag að ég teldi að það ætti að skoða mjög vel hvort ekki ætti að flytja flestar rannsóknastofnanir sem í dag eru tengdar atvinnuvegunum undir skyldar háskóladeildir. Ég tel að það skipti verulegu máli. Ég vil hins vegar að það komi fram að ég tel að meginstefnan í því eigi að vera sú að skilið sé á milli, annars vegar vöktunar og eftirlits með auðlindum og hins vegar ákvörðunar um nýtingu þeirra. Það skiptir öllu máli. Ég held að það sé það sem vakir í huga hv. þm. varðandi Hafrannsóknastofnun. En mér finnst gleðiefni að við erum sammála um þetta. Ef farið yrði að þessum skoðunum okkar hv. þm. þá mundi það efla verulega þróttinn í íslenskum rannsóknastofnunum og háskólum.