Rannsóknir í þágu atvinnuveganna

Fimmtudaginn 15. apríl 2004, kl. 14:59:26 (6414)

2004-04-15 14:59:26# 130. lþ. 97.1 fundur 878. mál: #A rannsóknir í þágu atvinnuveganna# (Landbúnaðarháskóli Íslands) frv. 79/2004, 879. mál: #A búnaðarfræðsla# (Landbúnaðarháskóli Íslands) frv. 71/2004, EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 130. lþ.

[14:59]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg skýrt í mínum huga að ef við eflum Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri, eins og ég tel að við gerum mjög rækilega með frumvörpunum sem hér eru til umræðu, þá getur það ekki haft önnur áhrif en góð á háskólastofnanirnar að Hólum og Reykjum í Ölfusi. Allt sem við gerum til að efla Hvanneyri getur ekki orðið til annars en efla þær stofnanir.

Það hefur verið unnið mjög vel að því að mínum dómi á undanförnum árum að efla þær. Sérstaklega held ég að það hafi komið mönnum á óvart hve mikill ferskleiki, vinna og samstaða er um Hólaskóla, sem ég þekki betur til heldur en að Reykjum í Ölfusi. Mér er þó sagt að þar sé mjög vel staðið að hlutum. Hins vegar mega menn ekki gleyma því, eins og ég fór yfir áðan í ræðu minni, að fjallað hefur verið um þetta í nokkuð mörgum nefndum. Það eru nokkuð skiptar skoðanir og dálítið breytilegir hagsmunir. Menn hafa skoðað mál frá ýmsum sjónarhornum í aðskiljanlegum skýrslum á undanförnum árum. Það er allt skiljanlegt en aðalatriðið er stóra skrefið, fyrsta skrefið, að sameina RALA og skólann á Hvanneyri. Það er stigið með þessum frumvörpum og ég fagna því sérstaklega.

Hins vegar mætti segja að við hefðum átt að geta gengið lengra og gert þetta öðruvísi. Við skulum fjalla um það, fara yfir það af mikilli nákvæmni og leggja í það vinnu í landbn. En stóra skrefið var þetta, að sameina þessar stofnanir og efla þannig háskólann til framtíðar.