Lax- og silungsveiði

Fimmtudaginn 15. apríl 2004, kl. 16:06:37 (6425)

2004-04-15 16:06:37# 130. lþ. 97.3 fundur 850. mál: #A lax- og silungsveiði# (Fiskræktarsjóður) frv., landbrh.
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 130. lþ.

[16:06]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Ég þakka þá umræðu sem hefur farið fram. Hér hafa komið fram ýmsar spurningar af hálfu þingmanna, eðlilega.

Það kemur skýrt fram í lokagrein frv. hverjir hafa verið undanþegnir:

,,Núverandi greiðendur í sjóðinn eru veiðifélög og jarðeigendur sem selja veiðileyfi. Þeirra framlag í sjóðinn nam 16,6 millj. kr. árið 2002. Einnig greiða í sjóðinn vinnslufyrirtæki sem selja raforku framleidda með vatnsorku til almenningsveitna og nýrra stórnotenda eftir árið 1998.``

Allir stórnotendur, Straumsvík, Grundartangi o.fl. hafa haft algjöra undanþágu frá því að greiða í sjóðinn eins og aðrir og í frv. er sólarlagsákvæði um að þeir komi inn þegar samningarnir renna út en þeir munu renna út á næstu 8--10 árum. Ég er ekki með það fyrir framan mig hvaða ár hver samningur rennur út en þetta á að skila sjóðnum í staðinn fyrir 8 millj. kr. í dag af stórnotendum 11--12 millj. kr. til viðbótar. Síðan koma nýir stórnotendur inn eins og Kárahnjúkar o.s.frv. þannig að hér er um þessa breytingu að ræða. Fyrirtækin sem hafa greitt hafa verið Landsvirkjun, Orkuveita Reykjavíkur, Orkubú Vestfjarða og Rarik og eins og ég sagði hafa það verið 8 millj. kr.

Fiskræktarsjóður hefur verið mest notaður í vísindin í kringum fiskinn til vísindamanna og ekki síst í Veiðimálastofnun um rannsóknir í ám og að fylgjast með. Svo hefur sjóðurinn komið að styrkjum í laxastigagerð og bættum samgöngum í ánum að einhverju leyti og í einhverjum tilfellum keypt upp netalagnir.

Eins og fram hefur komið í ræðum hv. þingmanna er mikilvægt að halda vel utan um þessa auðlind, hún er mjög dýrmæt og hefur, eins og hér hefur komið fram, skilað minni tekjum eða alla vega færri fiskum en áður og menn hafa töluverðar áhyggjur af því. Veiðimenn eru meira farnir að sleppa laxi aftur og þess vegna er mikilvægt að fá meira fjármagn í rannsóknirnar og því á frv. sannarlega að skila, að vísu á dálítið löngum tíma en einhverju strax.

Hv. þm. Össur Skarphéðinsson fór yfir tekjuþróunina á veiðiréttareigendum sem hafa ekki hækkað nema um 3 millj. kr. á tíu árum. Hér er verið að tala um að skýra enn betur stjórnsýsluna í kringum innheimtuna og gera hana skilvirkari en ég kann ekki að skýra það betur. Þetta er staðan eins og hún hefur verið og frv. og lögin nýju eiga að skila því að þarna verði staðið enn betur að málum.

Það er mikilvægt að hafa jafnræði á milli þeirra sem njóta verka vísindanna og rannsóknanna og sækja í sjóðinn þekkingu, hvort sem þeir eru við Þingvallavatn eða annars staðar, að þeir greiði til sjóðsins eins og aðrir. Jafnræði á milli allra sem framleiða og nota rafmagn er atriði frv. og jafnræði á milli allra sem hafa vötnin og árnar sem tekjulind sína. Það er meginhugsun frv.

Ég tel frv. mikilvægt til þess að halda betur utan um þá dýrmætu auðlind sem við eigum í ám og vötnum og tel mjög mikilvægt að þessi hluti endurskoðunar laganna verði að lögum þegar í vor og síðan mun starfið halda áfram hjá nefndinni sem dr. Gaukur Jörundsson hefur stýrt og vonandi liggur heildarendurskoðunin fyrir í haust.