Lax- og silungsveiði

Fimmtudaginn 15. apríl 2004, kl. 16:12:25 (6426)

2004-04-15 16:12:25# 130. lþ. 97.3 fundur 850. mál: #A lax- og silungsveiði# (Fiskræktarsjóður) frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 130. lþ.

[16:12]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér fannst hæstv. ráðherra ekki gera neina tilraun til þess að útskýra þá skattstefnu sem hann er að tala fyrir. Það að innheimta 2% skatt af bændum sem njóta í engu umrædds sjóðs þarf að fara yfir og skoða betur. Það er líka umhugsunarefni hvort innheimta skatts af fyrirtækjum sem framleiða orku án þess að það hafi nein áhrif á fiskrækt eða fiskgengd af neinu tagi standist grunnhugsunina í skattheimtu yfirleitt. Ég óska eftir því að hæstv. ráðherra útskýri betur hvernig hann getur varið þetta og hvort farið hafi verið yfir tillögurnar um skatta með það í huga hvort þetta standist.

Síðan vil ég vekja athygli á því að það að fela skattstjóra innheimtu á gjaldinu eins og þarna er gert hlýtur að þýða að fara eigi með skattinn á venjulegan máta. Hann þyrfti þá að renna í ríkissjóð og vera úthlutað þaðan aftur. Ég óska eftir því að hæstv. ráðherra útskýri betur hvort hann er sáttur við þá skattheimtu sem hann hefur talað fyrir og hvað það er sem fær hann til þess að vera sáttan við það að menn borgi skatta sem njóta einskis af hlutverki sjóðsins sem um er að tefla.