Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins

Fimmtudaginn 15. apríl 2004, kl. 16:39:56 (6435)

2004-04-15 16:39:56# 130. lþ. 97.6 fundur 881. mál: #A Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins# (Stofnsjóður, framtakssjóðir) frv. 92/2004, JÁ
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 130. lþ.

[16:39]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Það hefði verið ástæða til að hæstv. ráðherra færi meira yfir vegferð sjóðsins en hann gerði frá því að hann tók til starfa, því að hér eru á ferðinni æðimiklir fjármunir og mér er ekki grunlaust um að æðimargir alþingismenn hafi ekki mjög yfirgripsmikla þekkingu á því hvað hefur orðið um þá fjármuni á þeim tíma sem liðinn er. Þó eru til um þetta skýrslur. En búið er að ráðstafa miklu fé frá því að sjóðirnir urðu til sem hér er um ræðir.

Það er líka rétt að minna á þau átök sem urðu um sjóðina þegar þeir voru stofnaðir og hvernig til þeirra var stofnað. Mér finnst ástæða til að minna á að það voru ekki allir sáttir við að fjármunir sem greiddir höfðu verið t.d. með iðnlánasjóðsgjaldi og öðrum gjöldum til sjóðanna skyldu vera gerðir upptækir af ríkinu og ráðstafað án þess að þeir sem greitt höfðu í þá hefðu nokkuð um það að segja. Það er saga málsins.

Síðan er dapurlegt að fjárfestingar sjóðsins skuli ekki hafa tekist betur en raun ber vitni og mér verður á að spyrja hæstv. ráðherra hvort ljóst sé að stjórn sjóðsins hafi farið eftir þeim reglum sem fram koma í lögunum um Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins, þar sem t.d. segir í 9. gr., með leyfi forseta:

,,Til verkefna sjóðsins skv. 2. gr. má ekki verja hærri upphæð en svo að afskriftir vegna verkefnanna rúmist innan ramma rekstraráætlunar. Rekstraráætlun sjóðsins skal miðast við að ekki sé gengið á eigið fé hans.``

Þetta stendur í lögunum en mér finnst nokkuð augljóst að það sem hér er verið að fara fram á er gert til þess að reyna að rétta af stöðu sjóðsins vegna þess að það hefur gengið verulega á eigið fé hans.

Ég er ekki að halda því fram að það sé ekki nauðsynlegt að taka á þessu máli, síður en svo. Ég hvet þá sem taka á málinu í hv. nefnd til að fara yfir stöðu sjóðsins og fá um það skýrslu hvernig að þeirri starfsemi hefur verið staðið og hvernig til standi að standa að henni í framhaldinu.

Það er eitt sem ég átta mig ekki alveg á og langar að spyrja hæstv. ráðherra um. Í umsögn um frv. frá fjmrn. stendur eftirfarandi, með leyfi forseta:

,,Með frumvarpinu er annars vegar lagt til að eiginfjárstaða Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins verði bætt með því að eignir ríkisins í svokölluðum framtakssjóðum renni í Stofnsjóð Nýsköpunarsjóðs þegar þær verða leystar upp í stað þess að renna í ríkissjóð eins og kveðið er á um í gildandi lögum.``

Annars staðar í umsögninni stendur, með leyfi hæstv. forseta:

,,Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs.``

Þá verður mér á að spyrja: Hafa einhverjar eignir ríkissjóðs verið afskrifaðar vegna þessara hluta áður, eða hvernig ber að skilja það að fjármunir sem áttu að renna í ríkissjóð og ekki koma í hann sjái ekki stað í eigum ríkissjóðs? Hvar eru þær eignir sem hafa tapast í þessum sjóðum afskrifaðar?

Ég leit þannig á að þar sem til stæði að eignir sjóðanna gengju til ríkissjóðs hlyti að þurfa að afskrifa eignirnar ef þær gerðu það ekki og töpuðust. Og spyr: Litu menn ekki þannig á að eignir Nýsköpunarsjóðs væru í raun eign ríkissjóðs úr því að meiningin var að fjármunirnir rynnu að lokum til ríkissjóðs? Mig langar að átta mig á því hvað þetta hefur allt saman þýtt.

Ég geri ráð fyrir að farið verði vandlega yfir þessi mál í nefndinni og ekki lítil ástæða til þess að til sé sjóður sem er tilbúinn að taka áhættu í atvinnulífinu. Menn mega ekki taka orð mín svo að ég sé að leggjast gegn því þó að ég hafi talað um þessa hluti með þeim hætti sem ég hef hér gert. Það er mikil spurning hvernig með svona sjóði skuli fara og ýmsum hefur fundist að fjármunirnir úr sjóðunum hafi ekki nýst með þeim hætti sem menn héldu að þeir mundu nýtast, t.d. út á landsbyggðinni þar sem ýmsir bundu vonir við að þessir sjóðir mundu verða til þess að ýta undir atvinnulíf en þeir hafa ekki gert það. Þó að ég ætli ekki að taka upp þá umræðu hér, hefði kannski verið rétt í þessu samhengi að fara yfir það með hvaða hætti þeim fjármunum var varið sem síðast fóru úr sjóðunum vegna nýsköpunarverkefna og um urðu miklar deilur hvar lentu á landinu. En það er önnur umræða og ég ætla ekki að taka hana hér.

Ég vona sannarlega að sjóðurinn verði nýtanlegur til framtíðar. Það er ástæða til að menn fari yfir það hvernig starfsemin á að vera í framtíðinni, að það séu not fyrir sjóðinn þannig að hann lokist ekki öðru hvoru alveg og fjármagnið þorni upp eins og við höfum séð fram á núna, og svo sé hægt að nota fjármuni á öðrum tímum kannski ótæpilega og að það verði jafnvel, eins og hæstv. ráðherra lýsti áðan, offramboð af fjármunum til nýsköpunarverkefna á einhverjum tíma sem virðist greinilega hafa orðið til þess að menn hafa tekið vitlausar ákvarðanir í fjárfestingum.

Það er því ástæða til að menn noti tækifærið og skoði framtíð sjóðsins úr því að um hann á að fjalla í nefnd.