Sveitarstjórnarlög

Fimmtudaginn 15. apríl 2004, kl. 16:59:47 (6439)

2004-04-15 16:59:47# 130. lþ. 97.10 fundur 856. mál: #A sveitarstjórnarlög# (sameining sveitarfélaga, nefndir, ábyrgðir o.fl.) frv. 69/2004, félmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 130. lþ.

[16:59]

Félagsmálaráðherra (Árni Magnússon):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um um breytingu á sveitarstjórnarlögum. Hlutverk þess er einkum tvíþætt. Annars vegar miðar frv. að því að kveða á um atkvæðagreiðslur um sameiningu sveitarfélaga sem fram munu fara vorið 2005 á grundvelli tillagna sameiningarnefndar sem sá er hér stendur skipaði sl. haust. Hins vegar hefur frv. að geyma ýmis ákvæði sem ætlað er að sníða vankanta af gildandi sveitarstjórnarlögum.

Í frv. er gert ráð fyrir að við sveitarstjórnarlögin bætist fjögur ný ákvæði til bráðabirgða er fjalla um gerð tillagna sameiningarnefndar og hvernig greidd verði atkvæði um þær.

Nefnd þessi tók til starfa í desember 2003 og í janúar á þessu ári sendi hún bréf til allra landshlutasamtaka sveitarfélaga þar sem hún óskaði m.a. eftir hugmyndum og tillögum frá samtökum um hvaða möguleikar væru til sameiningar sveitarfélaga í hverjum landshluta og ábendingum um atriði sem hafa þarf í huga varðandi sameiningu sveitarfélaga á svæðinu. Afrit þessa bréfs var sent öllum sveitarfélögum. Til að tryggja sem best samráð við sveitarstjórnarmenn hefur nefndin haldið fundi með þeim víða um land og fleiri slíkir fundir eru fyrirhugaðir á næstunni.

Að auki hefur verkefnisstjórn sem hefur yfirumsjón með átaki ríkisstjórnarinnar og Sambands íslenskra sveitarfélaga um eflingu sveitarstjórnarstigsins haldið fundi í öllum landshlutum til að kynna átakið sem m.a. felur í sér umtalsverðan verkefnaflutning frá ríki til sveitarfélaga.

Hæstv. forseti. Stefnt er að því að tillögur sameiningarnefndar verði tilbúnar fyrir lok maí á þessu ári og er gert ráð fyrir því að þær muni að verulegu leyti grundvallast á hugmyndum sveitarfélaga og samtaka þeirra auk þess sem nefndin mun njóta aðstoðar Byggðastofnunar við gerð tillagnanna. Sveitarfélögum, samtökum þeirra og almenningi verður síðan gefinn hæfilegur frestur til að gera athugasemdir og óska eftir breytingum á tillögunum og munu endanlegar tillögur nefndarinnar því ekki liggja fyrir fyrr en nk. haust.

Komandi vetur verður nýttur til að kynna tillögur nefndarinnar fyrir íbúum og vinna að undirbúningi sameiningar sveitarfélaga víða um land. Miðað er við að hlutaðeigandi sveitarstjórnir tilnefni hver tvo fulltrúa í samstarfsnefnd sem annast undirbúning og atkvæðagreiðslu og kynningu á tillögum sameiningarnefndar. Er þetta sama fyrirkomulag og við sameiningu á grundvelli 90. gr. laganna og hefur það reynst gefa góða raun. Í frv. er síðan gert ráð fyrir því, hæstv. forseti, að atkvæði verði greidd um tillögurnar 23. apríl 2005.

Í frv. er lagt til að í meginatriðum gildi sama fyrirkomulag og nú er í lögum um niðurstöðu atkvæðagreiðslu, þ.e. að sveitarfélög verði ekki sameinuð nema íbúar beggja eða allra sveitarfélaganna séu því fylgjandi. Það nýmæli er þó að finna í frv. að við ákveðnar aðstæður getur verið skylt að endurtaka atkvæðagreiðslu innan sex vikna í sveitarfélögum þar sem tillaga sameiningarnefndar var felld. Þetta á við ef meiri hluti íbúa á viðkomandi svæði sem afstöðu taka til tillögu sameiningarnefndar lýsir sig fylgjandi sameiningu þeirra sveitarfélaga sem tillagan varðar og meiri hluti íbúa í a.m.k. tveimur þessara sveitarfélaga samþykkir tillöguna.

Þessi breyting, hæstv. forseti, felur það í sér að íbúar sem í upphafi eru mótfallnir sameiningu eiga þess kost að endurskoða þá afstöðu sína í ljósi breyttra aðstæðna svo sem ef útlit er fyrir að nágrannasveitarfélög muni sameinast eða fylgi við sameiningu reynist meira en búist var við. Að lokinni síðari atkvæðagreiðslu geta sveitarstjórnir þeirra sveitarfélaga þar sem sameiningartillagan var samþykkt ákveðið sameiningu þessara sveitarfélaga. Þetta verður þó ekki gert nema að uppfylltum ákveðnum skilyrðum.

Í frv. er gert ráð fyrir að sameiningarnefnd verði heimilt að leggja fram tillögu um sameiningu sveitarfélaga ef tillaga nefndarinnar er felld og að atkvæðagreiðsla um þá tillögu fari fram á tímabilinu október 2005 til janúar 2006. Nefndin mun væntanlega helst beita þessari heimild ef vilji sveitarstjórna og úrslit í atkvæðagreiðslu um fyrri tillögu benda til þess að grundvöllur sé fyrir minni sameiningu en gert var ráð fyrir í upphafi.

Ég vil að það komi skýrt fram, hæstv. forseti, að frv. þetta felur á engan hátt í sér að unnt verði að þvinga sveitarfélög til sameiningar. Þvert á móti miðar það að því að tryggja lýðræðislegan rétt íbúanna til að ráða sjálfir málefnum síns sveitarfélags. Ég bind hins vegar miklar vonir við það að sú vinna sem nú stendur yfir til að efla sveitarstjórnarstigið, einkum með því að færa til sveitarfélaganna aukin verkefni frá ríkinu, muni leiða til þess að sveitarfélögin og íbúar þeirra sjái hagsmunum sínum betur borgið í fjölmennari sveitarfélögum en nú eru víða hér á landi.

Víða hafa sveitarfélög þegar hafið viðræður um sameiningu. Þar nægir að nefna sveitarfélögin í Borgarfirði, á Héraði og í Austur-Húnavatnssýslu svo fáein dæmi séu nefnd. Það er skýrt tekið fram í 8. gr. frv. að þessar viðræður geti haldið áfram óhindraðar ef vilji er til, en ef viðræður dragast fram á næsta ár getur sameiningarnefnd þó lagt til að fleiri sveitarfélög bætist í hóp þeirra sem þegar eru í viðræðum og atkvæðagreiðsla fari þá fram á sama tíma og gildir um aðrar tillögur nefndarinnar. Í flestum tilvikum á hins vegar ekkert að vera því til fyrirstöðu að sameiningarviðræðum ljúki fyrr og munu ákvæði frv. þá engin áhrif hafa á niðurstöðu atkvæðagreiðslu ef frá er talið ákvæði 6. gr. frv.

Hvað varðar þær breytingar sem lagðar eru til í 1.--6. gr. frv. vísast að mestu til athugasemda við þær greinar. Fyrst og fremst er um það að ræða að verið er að sníða ýmsa agnúa af gildandi lögum en þar er almennt ekki um miklar breytingar að ræða.

Hæstv. forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. félmn.