Sveitarstjórnarlög

Fimmtudaginn 15. apríl 2004, kl. 17:06:23 (6440)

2004-04-15 17:06:23# 130. lþ. 97.10 fundur 856. mál: #A sveitarstjórnarlög# (sameining sveitarfélaga, nefndir, ábyrgðir o.fl.) frv. 69/2004, BjörgvS
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 130. lþ.

[17:06]

Björgvin G. Sigurðsson:

Frú forseti. Hér er til umræðu athyglisvert frv. sem felur í sér margar ágætar breytingar en ég ætla ekki að fara út í þær í smáatriðum. Breytingarnar munu sjálfsagt margar hverjar auðvelda sameiningu sveitarfélaganna og sérstaklega umrætt ákvæði um síðari kosninguna í ljósi þeirra úrslita sem liggja fyrir, hafi tillaga sameiningarnefndar verið felld, og ýmislegt annað má til bóta nefna.

Ég vil koma sérstaklega inn á það sem fram kemur í athugasemdum við lagafrumvarpið í II. kafla, átak til eflingar sveitarstjórnarstiginu, sem er náttúrlega meginmálið sem liggur að baki frv. Hér segir, með leyfi forseta:

,,Í ágúst 2003 ákvað ríkisstjórnin að hefja í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga átak til að efla sveitarstjórnarstigið hér á landi. Átakið felur einkum í sér þrennt: að færa verkefni frá ríki til sveitarfélaga, að fækka fámennum sveitarfélögum með sameiningu sveitarfélaga og að laga tekjustofna sveitarfélaga að breyttum verkefnum og breyttri sveitarfélagaskipan.``

Ég vil fá fram viðhorf hæstv. ráðherra við því hvernig hann sér verkefnaskipan á milli ríkis og sveitarfélaga í bráð og lengd í framtíðinni þegar breytingar hafa gengið yfir og nauðsynlegar sameiningar hafa átt sér stað, af því að ýmislegt þarf að liggja vel heppnuðum sameiningum til grundvallar þannig að þær séu í takt við vilja íbúanna og á þeirra forsendum.

Í því ljósi rakst ég á nokkuð athyglisverða skýrslu fyrr í dag sem var unnin af SASS, Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga, fyrir umrædda nefnd þar sem kallað var eftir því að sveitarfélögin og samtök sveitarfélaga legðu fram tillögur að sameiningu til að fá fram viðhorf sveitarfélaganna og þeirra samtaka sem þau hafa með sér um hvernig sveitarfélagasameiningu heimamenn sjá fyrir sér. Í skýrslu SASS segir í inngangi að þau hafi ákveðið að leggja ekki til einhverja eina eða tvær tillögur heldur stikla á stóru yfir helstu staðreyndir, lýðfræðilegar, stjórnsýslulegar o.s.frv. og telja að lokum upp helstu tillögur.

Rauðu þræðirnir, virðulegi forseti, eru nokkrir, ef svo má að orði komast. Í fyrsta lagi ber að nefna samgöngumálin. Það hafa verið gerðar nokkrar atlögur að því að sameina minni sveitarfélögin á Suðurlandi, uppsveitir Árnessýslu, Árborgarsvæðið o.fl., en slíkar tillögur hafa ætíð verið felldar fram að þessu og hefur gengið miklu hægar á sumum hlutum svæðanna, eins og í uppsveitunum, en margir hefðu viljað. Meginástæðurnar fyrir því eru þær að samgöngubæturnar sem liggja verða til grundvallar hafa ekki náð fram að ganga, sérstaklega brú yfir Hvítá og tengivegir ýmiss konar, þar sem: ,,Tengivegir á þessu svæði ná yfir 700 km``, eins og segir í skýrslunni, með leyfi forseta.

Ljóst er að sá hraði sem nú er á úrbótum á tengivegum er alls ófullnægjandi en það mun taka um 75 ár að byggja þá upp með bundnu slitlagi með sama hraða. Þessi hægagangur á nauðsynlegum grundvallarsamgöngubótum í nútímasamfélagi er slík hindrun í sameiningarferli á þessu svæði að það verður aldrei um farsæla eða eiginlega sameiningu þessara litlu sveitarfélaga á því svæði að ræða nema samgöngubæturnar séu í sjónmáli. Þess utan eru nefndar ýmsar aðrar ástæður og sérstaklega er fjallað um stöðu Vestmannaeyja.

Þá kemur kannski að hinu meginmálinu sem eru stjórnsýslulegu þættirnir, en mikil samvinna sveitarfélaganna á sér stað í gegnum byggðasamlögin sem ég held að megi fullyrða að séu á vissan hátt óheppilegur vettvangur, frekar kauðskur, hægfara og flókinn strúktúr á innri starfsemi stjórnsýslu sveitarfélaganna, sérstaklega á svona víðfeðmu svæði. Hérna er birt ágætistafla yfir byggðasamlögin sem eru 18 talsins á Suðurlandi og meðalþátttaka sveitarfélaganna er um 10. Rangárþing er þátttakandi í flestum byggðasamlögum eða 11, en Vestmannaeyjar fæstum, 2, eðli málsins samkvæmt. Vegna sérstöðu sinnar eru Vestmannaeyjar einungis þátttakendur í Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga, eftir langt hlé, og Heilbrigðisstofnun Suðurlands. Ég held að það væri mikið unnið með hressilegri og myndarlegri sameiningu sveitarfélaga á þessu svæði sem og mörgum öðrum til að fækka byggðasamlögunum verulega og ná utan um samstarfið með því að þarna verði fá en öflug sveitarfélög og kem ég aðeins að því síðar.

Hér eru ýmis verkefni nefnd sem heppileg verkefni undir hatti sveitarfélaganna þar sem hafa gengið fram réttlátar og eðlilegar breytingar á tekjustofnum og því öllu, þannig að menn ná að girða fyrir hve óheppilega var að málum staðið af hálfu ríkisins þegar grunnskólinn var fluttur yfir til sveitarfélaganna, jafnmikill og góður flutningur og það var fyrir grunnskólana, því það má segja að grunnskólarnir hafi gengið í endurnýjun lífdaga eftir að sveitarfélögin fóru að reka þá því þvílíkur var krafturinn og metnaðurinn í sveitarfélögunum að segja má að grunnskólinn hafi verið færður til nútímans eftir flutninginn.

Að sama skapi hefur sá flutningur komið mörgum hinna meðalstóru sveitarfélaga og mörgum sveitarfélaganna nánast á vonarvöl og þrátt fyrir ítrekaðar óskir sveitarstjórnarmanna hefur ríkið ekki komið til móts við kröfur þeirra um réttlátar breytingar á tekjustofnum og því má segja að sum þessara öflugu sveitarfélaga og ekki síst þau sem eru af millistærð og eru í örum vexti, þar sem mikill fjöldi barna er á grunnskólaaldri, má hreinlega fullyrða að sum þessi sveitarfélög rambi á barmi gjaldþrots. Þrátt fyrir að sveitarstjórnarmenn haldi vel um tauma, beiti ýtrustu varkárni við rekstur sveitarfélaga sinna dugir það ekki til. Nánast allar tekjur fara í að standa undir lögbundnum verkefnum og í rekstur grunnskólanna því sveitarfélögin hafa tekið myndarlega á þeim málum og lagt í þetta það mikinn metnað að eftir er tekið og færir okkur heim sanninn um að við hljótum að ætla að snúa við því blaði sem uppi er núna. Samanburðurinn við Norðurlöndin lýsir því kannski best þegar kemur að skiptingunni á milli ríkis og sveitarfélaganna. Á Norðurlöndunum hafa sveitarfélögin með um 70% allra verkefna að gera á móti 30% hjá ríkinu. En hér eru 30% hjá sveitarfélögunum og 70% hjá ríkinu. Það er þveröfug spegilmynd og fullyrða má að hún sé óheppileg því að aukin og stórbrotin valddreifing frá ríki til sveitarfélaga fullyrði ég að væri mörgum málaflokkum til mikils framdráttar, því að þarna er um að ræða nærþjónustu sem er betur sinnt eftir því sem hún stendur nær borgurunum og sveitarstjórnarstigið stendur einfaldlega miklu nær fólkinu en hitt. Því held ég og hvet til þess að á næstu árum verði ráðist í mjög hressilega verkefnatilfærslu frá ríki til sveitarfélaga í kjölfar þeirra sameininga sem standa vonandi fyrir dyrum.

[17:15]

Þau verkefni sem hérna eru talin upp eru samgöngur, heilbrigðisþjónusta, málefni fatlaðra, málefni aldraðra, framhaldsskólinn og löggæslan. Af þeim virðast málefni fatlaðra og málefni aldraðra falla best að núverandi verkefnum sveitarfélaganna, segir í skýrslu frá Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga sem send var út fyrr í dag.

Einnig þykir mér það mjög spennandi kostur, hæstv. forseti, að framhaldsskólinn verði sem allra fyrst færður á forræði sveitarfélaganna. Einnig má sjá það fyrir sér að um leið verði framhaldsskólarnir sértækari og svæðisbundnari í áherslum sínum á námsframboði og yrði örugglega sama lyftistöngin fyrir framhaldsskólastigið og það var fyrir grunnskólastigið að taka hann af forræði ríkisins og fá hann sveitarfélögunum til reksturs. Metnaðurinn er hjá sveitarfélögunum gagnstætt metnaðarleysinu sem gildir í allt of mörgum málaflokkum sem ríkið hefur með að gera og á það við um þá allt of marga.

En til gamans og til að varpa ljósi á þá umræðu sem fram undan er, af því að ég hef skýrsluna frá Sambandi sunnlenskra sveitarfélaga undir höndum, var óskað eftir því af umræddri nefnd að Samtök sveitarfélaga legðu fram sameiningarkosti. Það er nú ekki beinlínis gert hér í skýrslunni en hins vegar er dregin upp ágætismynd af þeim kostum sem sérstaklega hafa verið til umræðu og eru þeir kostir sem menn hljóta að einblína á. Þar eru kannski stærstu og veigamestu hugmyndirnar eins og segir í k-lið þar sem sveitarfélögin yrðu eftir sameiningu sveitarfélagið Árborg, Gaulverjabæjarhreppur, Hraungerðishreppur, Villingaholtshreppur, Hveragerði og sveitarfélagið Ölfus, Bláskógabyggð, Grímsnes og Grafningshreppur, Hrunamannahreppur og Skeiða- og Gnúpverjahreppur, eða Árnessýslan öll í eitt sveitarfélag. Svo er bent á þá hugmynd í l-lið að allt Suðurland yrði sameinað utan Vestmannaeyja.

Sjálfur er ég til lengri tíma litið býsna hrifinn af hugmyndum um stórar sameiningar þó að menn taki minni skref á næstu árum í átt að slíkum sameiningum. Á þessu svæði mundu menn kannski horfa á það að eftir áratug eða svo yrði þarna um að ræða þrjú til fjögur sveitarfélög, Árnessýslan öll, Rangárvallasýslan öll, Vestmannaeyjar áfram o.s.frv. Þarna eru lagðar upp margar spennandi hugmyndir og verður gaman og fróðlegt að heyra viðhorf hæstv. félmrh. sem er á ferðinni í þessu verkefni núna. Á þessu svæði eru 21.500 íbúar og ef þar yrðu tvö til fjögur sveitarfélög yrði um að ræða mjög öflug og kraftmikil sveitarfélög sem gætu auðveldlega sinnt þeim verkefnum sem ég taldi upp áðan af því að í smæðinni felst að sveitarfélögin valda ekki þeim verkefnaflutningi sem ég held að sé mjög mikilvægt að fari fram á næstu árum. Til að það gangi eftir þarf að tryggja að þau hafi fjárhagslega burði og að infrastrúktúr þeirra sé nægjanlega öflugur með tilliti til samgangna og fleiri þátta til að flutningurinn gangi sem allra best fyrir sig.

Í því ljósi ber sérstaklega að geta þess að þegar þetta mál er rætt við marga sveitarstjórnarmenn þá segja menn að sporin hræði, og vissulega má taka undir það, enda má segja að ríkið hafi leikið sveitarfélögin grátt þegar grunnskólinn var fluttur yfir til sveitarfélaganna. Er það dapurleg staðreynd að sú reynsla skuli hræða sveitarfélögin frá því kannski að sækja af meiri krafti að fá fjölbreyttari verkefni og fleiri málaflokka inn á sitt borð af því að þar eiga þeir vissulega heima. Þeir eiga heima nálægt fólkinu, þeir eiga heima þar sem fólkið er í sem mestum og bestum samskiptum við stjórnmálamenn sína.

En forsendurnar verða að vera til staðar, standa verður þannig að málum að þær samgöngubætur sem segja má að séu nauðsynlegar séu a.m.k. í sjónmáli þó að þær séu kannski ekki orðnar að veruleika og auk þess að ríkið gangi á undan með góðu fordæmi og leiðrétti það óréttlæti sem sveitarfélögin voru beitt við tilfærslu grunnskólanna yfir til sveitarfélaganna og geri mönnum því ljóst að þannig verið staðið að málum að réttlæti ríki í verkefnaflutningi frá ríki til sveitarfélaga. Af því að það hefur líka sýnt sig í svokölluðum reynslusveitarfélögum, eins og á Hornafirði og Akureyri þar sem fleiri málaflokkar hafa verið færðir frá ríki til sveitarfélaga til reynslu, eins og málefni fatlaðra, að þar er reynslan af því ákaflega góð. Í samtölum við sveitarstjórnarmenn á þeim svæðum, eins og ég átti nýlega við sveitarstjórnina á Hornafirði, báru menn því vel söguna og vildu eftir þá reynslu fá fleiri málaflokka undir sinn hatt ef eitthvað væri og voru mjög spenntir fyrir því að slíkur verkefnatilflutningur héldi áfram og fannst það hafa styrkt sveitarfélagið mjög og eflt það á mörgum öðrum sviðum og áhrifin af því að reka þessa málaflokka sjálft væru mjög góð og hefðu gert það að verkum að ýmis góð hliðaráhrif hefðu augljóslega fylgt á eftir. Sú reynsla hlýtur því að hvetja menn til dáða og verða hæstv. félmrh. til hvatningar að reisa sér þann minnisvarða að hraða slíkum verkefnaflutningum eins og kostur er, enda um mjög brýnt mál að ræða, og væri fróðlegt að heyra sameiningarviðhorf fleiri þingmanna frá fleiri svæðum.

En skýrslan sem ég hef verið að vitna í er mjög greinargóð, hvort heldur litið er til lýðfræðilegra þátta eða stjórnsýslulegra þátta, og gefur glögga mynd af því hvað þarf að koma til þannig að sameining sveitarfélaga gangi eftir með þeim hætti sem menn eru að leggja upp með þannig að það verði mjög róttækar sameiningar sem skila okkur fáum og öflugum sveitarfélögum án þess að koma þurfi til annarra aðgerða en þeirra að íbúarnir kjósi slíkar sameiningar og geri þær þannig að veruleika. Ávinningurinn er mikill og eins og ég sagði er staðan í dag erfið hjá mörgum sveitarfélögum. Okkur berast sí og æ fréttir af því að lögbundin verkefni eru nánast að ríða sumum sveitarfélögum að fullu og það er mjög mikilvægt að leiðrétta stöðu þeirra sveitarfélaga sem allra fyrst. Það er algjör grundvallarforsenda til þess að samstaða ríki um frekari sameiningar og þær verði farsælar og menn fari ekki í bakkgírinn og vinni gegn því að sameiningarnar gangi eftir út af því hve ríkið hefur skilið mörg sveitarfélög eftir á köldum klaka.

Það verður spennandi að fylgjast með umræðunni og vonast ég til að hæstv. ráðherra skýri sjónarmið sín enn frekar til slíkra mála. Ef hann hefur kynnt sér þessar skýrslur frá sveitarfélögunum um hve stórbrotnar sameiningar menn vilja sjá á næstu árum væri fróðlegt að heyra það.