Sveitarstjórnarlög

Fimmtudaginn 15. apríl 2004, kl. 17:30:39 (6444)

2004-04-15 17:30:39# 130. lþ. 97.10 fundur 856. mál: #A sveitarstjórnarlög# (sameining sveitarfélaga, nefndir, ábyrgðir o.fl.) frv. 69/2004, BjörgvS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 130. lþ.

[17:30]

Björgvin G. Sigurðsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Við getum svo sem þrefað um það fram eftir kvöldi hvort sveitarstjórnarmenn hafi almennt verið á þeirri skoðun að nægilegt fjármagn hafi fylgt eða ekki. En það er nú einu sinni staðreynd sem mörg sveitarfélög stóðu frammi fyrir að þörf var á mikilli uppbyggingu í málefnum grunnskólanna þannig að þeir stæðu undir nafni, stæðu undir kröfum íbúa sveitarfélaganna og þeim væntingum sem menn gerðu til þessa verkefnaflutnings. Sveitarstjórnarmenn hafa margir hverjir ítrekað óskað eftir því, formaður Sambands sveitarfélaga hefur komið inn á það líka, að fram fari leiðrétting á tekjustofnum milli ríkis og sveitarfélaga. Því verður ekki á móti mælt.

Menn geta svo togast á um það hvort sum sveitarfélög byggi meira en önnur. Auðvitað bjuggu sveitarfélögin misvel þegar þau tóku við þessu verkefni. Sum þurftu minna að byggja upp en önnur. Önnur þurftu að ráðast í stórbrotnar skólabyggingar og róttækar breytingar á öllu sínu fyrirkomulagi með grunnskólana. Önnur þurftu ekki að gera það og standa þar af leiðandi miklu betur að vígi en önnur.

Þau sveitarfélög sem fylla flokk millistórra sveitarfélaga á íslenskan mælikvarða, sem stækka ört, t.d. sveitarfélag eins og Árborg þar sem um er að ræða gríðarlega íbúafjölgun, þar sem íbúum hefur fjölgað um meira en þúsund á átta ára tímabili, standa frammi fyrir því að þurfa að byggja mjög stórt og mikið yfir grunnskólann. Sú saga á víðar við.