Sveitarstjórnarlög

Fimmtudaginn 15. apríl 2004, kl. 17:34:53 (6446)

2004-04-15 17:34:53# 130. lþ. 97.10 fundur 856. mál: #A sveitarstjórnarlög# (sameining sveitarfélaga, nefndir, ábyrgðir o.fl.) frv. 69/2004, BjörgvS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 130. lþ.

[17:34]

Björgvin G. Sigurðsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil nota tækifærið og taka undir með hv. þm. Arnbjörgu Sveinsdóttur um að reynslan frá Hornafirði færir okkur heim sanninn um að sveitarfélögin eru mjög vel í stakk búin til að taka við auknum verkefnum frá hinu opinbera. Í því ljósi eigum að fara í það af fullum krafti að færa stóra og öfluga málaflokka frá ríki til sveitarfélaga. Það er fagnaðarefni að hæstv. félmrh. skyldi taka mjög eindregið undir það í andsvari áðan, að hann væri sammála því, að sem fyrrverandi bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins í Hveragerði hefði hann þá reynslu að sveitarfélögin væru til þess bær að valda mörgum og öflugri verkefnum en þau sinna nú þegar.

Að sjálfsögðu er þörfin fyrir slíkar breytingar undirliggjandi í allri þessari umræðu. Því er ágætt að þau viðhorf komi frá þingmönnum stjórnarflokkanna sem og stjórnarandstöðuflokkanna að þetta sé sú þróun sem menn vilja sjá, að fram fari aukin og myndarleg valddreifing frá ríki til sveitarfélaga sem miði að koma á svipuðu ástandi og er annars staðar á Norðurlöndunum í þeim málaflokkum. Þar er hlutdeild sveitarfélaganna 70% á móti 30% hjá ríkinu, þveröfugt við það sem hér er, þar sem hlutdeild sveitarfélaga er 30% á móti 70% hjá ríkinu. Þetta sýnir okkur að þessi mál hafa staðið í stað allt of lengi og löngu tímabært að slá hressilega í klárinn og ná upp hinu mikla forskoti Norðurlandanna á næstu árum um leið og við sameinum sveitarfélögin og gerum þau færri og miklu öflugri en nú er. Það er algjört grundvallaratriði.