Sveitarstjórnarlög

Fimmtudaginn 15. apríl 2004, kl. 17:46:27 (6448)

2004-04-15 17:46:27# 130. lþ. 97.10 fundur 856. mál: #A sveitarstjórnarlög# (sameining sveitarfélaga, nefndir, ábyrgðir o.fl.) frv. 69/2004, JÁ
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 130. lþ.

[17:46]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Ég fagna þeim tillögum sem fram eru komnar. Þó að þær séu heldur seint á ferðinni finnst mér þær í öllum tilvikum jákvæðar enda þótt mér finnist að vísu að í þær vanti ákveðinn botn sem ég ætla að koma að á eftir.

Það er auðvitað nauðsynlegt að menn nái þeim árangri að frv. verði að lögum því að engan tíma má missa ef það á að ganga upp sem hér er til stofnað, að kosningar geti farið fram í sveitarfélögum sem hafa sameinast í næstu sveitarstjórnarkosningum. Ég held að full ástæða sé til að gera allt sem mögulegt er til að sú tilraun takist. Og þá kem ég að því sem hæstv. ráðherra undirstrikaði í ræðu sinni og ég var ekki ánægður með og það var að hann hafði orð á því og taldi ástæðu til að orða það sérstaklega að í tillögunum væri á engan hátt um lögþvingun til sameiningar sveitarfélaga að ræða. Ég er gersamlega ósammála þeirri afstöðu sem kemur fram í þessu. Það er ekki um það að ræða að Alþingi Íslendinga eða alþingismenn geti skotið sér undan því að bera ábyrgð á lögþvingun til sameiningar sveitarfélaga því í lögunum er lögþvingunarákvæði um að ekkert sveitarfélag megi hafa færri en 50 íbúa í þrjú ár öðruvísi en að vera sameinað með lögþvingun. Þar með hafa menn sem ekki vilja breyta þessu ákvæði til hækkunar tekið þá afstöðu að vilja hafa ákvæðið óbreytt og standa að því með lögþvingun ef um er að ræða íbúafjölda undir 50 manns. Og vitaskuld er sú tala, 50 íbúar, algjörlega barn síns tíma eins og menn taka gjarnan til orða þessa dagana og vísa þá reyndar til æðimikið yngri laga en þeirra sem fjalla um að íbúar skuli vera 50 og ekki færri.

Mér finnst þess vegna, vægt til orða tekið, frekar vesældarleg afstaða að vilja ekki taka afstöðu til þess að hækka það lágmark. Ég tel að það sé mjög mikilvægt atriði vegna þess að ef menn ætla að flytja verkefni til sveitarfélaganna, sem ég svo sannarlega tel fulla ástæðu til að gera, mun það ekki verða hægt með einsleitum hætti nema sveitarfélögin verði helst öll það stór að þau geti tekið við hinum nýju verkefnum. Það þýðir sem sagt það að fáein smá sveitarfélög í landinu munu geta hamlað þeirri þróun sem við ætlum að stefna að með því lagafrv. sem hér er fram sett og komið í veg fyrir að verkefni verði flutt til sveitarfélaganna. Ég tel að það sé svo alvarlegt mál að ástæða sé til að eyða í það fáeinum orðum.

Ég hef nefnilega heyrt á ýmsum þingmönnum á göngum Alþingis og rætt um það málefni sem hér er á ferðinni og flestir þeirra sem ég ræði við eru á þeirri skoðun að verði eftirlegukindur eftir átakið sem ætlunin er að fara í, muni verða sett lög á Alþingi til að sjá til þess að þau sveitarfélög sem ekki koma með í þessa sameiningu taki þátt í sameiningu í framhaldinu. Hvað mundi það þýða í ferlinu? Að mínu viti þýddi það tveggja til þriggja ára viðbótarfrest þangað til sameining sveitarfélaga hefði gengið fram eins og hér er stofnað til því vissulega væri ekki mögulegt af hálfu Alþingis, að mínu viti, að setja menn frammi fyrir lög sem tækju svo fljótt gildi að menn hefðu ekki lengra svigrúm til að aðlaga sig að þeim en tvö til þrjú ár. Mér finnst þriggja ára aðlögun að slíkum breytingum eðlileg. Vegna þess að í þeim lögum er verið að segja við þá sem eru í litlu sveitarfélögunum: Þið þurfið ekki að taka þátt í sameiningu. Alþingi hefur tekið þá afstöðu að ekki eigi að hafa lögþvingunina fyrir ofan 50 manns. Og þá er það bara svo að þeim sem búa í sveitarfélögum sem eru smá en telja hag sínum betur borgið í þeim litlu sveitarfélögum en að taka þátt í samstarfi með öðrum íbúum í nágrenni sínu, er fullkomlega frjálst að taka þá afstöðu. Menn geta þá ekki komið bara sisvona strax á eftir inn á hv. Alþingi og sagt: Heyrðu, við meintum ekkert með þessu. Úr því að þið eruð ekki með setjum við bara lög á ykkur. Það verður ekki þannig. Auðvitað verður veitt veruleg aðlögun að þeirri breytingu sem menn koma með á eftir þessari.

Mér finnst þess vegna heldur vesældarlegt af hálfu þingsins að ganga ekki þessa leið til enda og standa frammi fyrir því að lágmarkstalan í sveitarfélögum, eins og hún hefur staðið um langa hríð, er auðvitað allt of lág og hefur verið það mjög lengi en af einhverjum ástæðum, sem allir þingmenn vita auðvitað hverjar eru, hafa menn ekki treyst sér til að taka á því máli í sölum Alþingis.

Ég held að það sé engum til góðs að víkja sér undan þeirri skyldu sem mér finnst það vera að svara þeirri spurningu hvert lágmarkið eigi að vera. Ég trúi því ekki að einlægt svar manna sé 50 eins og lögin segja í dag.

Ég er sannfærður um að það átak sem hér er verið að efna til mun skila árangri, ég efast ekki um það vegna þess að umræða undanfarinna ára hefur leitt til þess að orðið hefur afstöðubreyting hjá fólki um allt land til stækkunar sveitarfélaganna. Menn eru farnir að átta sig á hvað það er mikilvægt. Úti á landsbyggðinni hefur orðið gjörbreyting á afstöðu manna til stækkunar sveitarfélaga vegna þess að menn sjá að það getur líka orðið til þess að styrkja byggð. Ef vel tekst til og fljótlega verður hægt að flytja verkefni frá hinu opinbera, ríkinu, til sveitarfélaganna, er fólginn í því verulegur styrkur til sveitarfélaga úti á landi, störf munu skapast af þeim sökum hjá sveitarfélögunum og þau verða öflugri til þess að takast á við ný verkefni.

Að mínu viti er það kannski raunhæfasta byggðaverkefnið núna sem getur gengið fram með tiltölulega skömmum fyrirvara ef vel verður að málum staðið. Þar finnst mér vanta lítið á, nema það sem ég hef verið að lýsa hér. En það er líka mjög mikilvægt atriði sem þar er á ferðinni því það hefur orðið til þess fram að þessu að mjög fámenn sveitarfélög, og vel að merkja sveitarfélög sem sum hafa orðið vel efnuð af þeirri einu ástæðu að ríkið hefur tekið ákvörðun um að veita vissum framkvæmdum forgang í viðkomandi sveitarfélagi, þau hafa sem sagt efnast á því, hefur orðið til þess að þeir sem í þeim sveitarfélögum búa eru ekki tilbúnir til að deila auðnum með öðrum íbúum svæðisins þó að innan sama atvinnusvæðis sé.

Ríkið á því í raun og veru bæði kvölina og völina og sökina á því að svona hagar til á sumum landsvæðum í landinu og enn er verið að bæta í. Nú standa menn í miklum framkvæmdum á Austfjörðum. Ég veit auðvitað ekki hvernig menn eru stefndir gagnvart sameiningu þar, og vona satt að segja að menn geti hafið sig yfir þá afstöðu sem orðið hefur til sums staðar annars staðar þar sem lítil sveitarfélög sem hafa notið góðs af tekjum af stórframkvæmdum á vegum ríkisins hafa tekið þá afstöðu að vilja ekki deila þeim auði með öðrum íbúum.

Það er mitt tillegg inn í umræðuna að ég óska eindregið eftir því að þegar farið verður yfir þessa tillögu í starfi nefndarinnar að þar taki menn það til gaumgæfilegrar athugunar hvort ekki eigi að bæta inn í frv. tillögu um hækkun á lágmarksíbúafjölda í sveitarfélögum. Reyndar liggur fyrir Alþingi frv. sem ég er 1. flm. að og er hjá nefndinni. Ég skora á nefndarmenn að skoða það mjög alvarlega hvort ekki sé rétt að hækka íbúamarkið. Ég er ekki að halda því fram að það eigi endilega að vera þúsund manns eins og lagt er til í frv. okkar, heldur að það verði hækkað og þannig verði eðlilegt svigrúm fyrir þá sem búa í litlum sveitarfélögum að taka afstöðu til og vera með í breytingum, að þeir horfist í augu við það að þeir hafi einungis tiltekinn tíma, þrjú ár eða svo, til að verða aðilar að sveitarfélagi sem hefur að íbúalágmarki, hvað sem það verður 300 eða 500 manns, þannig að þeir geti í því ljósi tekið afstöðu til þess að ganga til samstarfs við önnur sveitarfélög. Að ekki verði bætt hala aftan við málið sem verði fólginn í því að lögþvinga fáein sveitarfélög til sameiningar eftir að sú hrina er gengin yfir sem hér er efnt til.

Að öðru leyti tek ég undir það sem ræðumenn hafa talað um og tel að ekki sé mikill ágreiningur um það sem í frv. stendur, síður en svo. Mér finnst það vera prýðilega fram sett og ágætar tillögur um breytingar á sveitarstjórnarlögum sem hér eru settar fram. Ég get að vísu ekki neitað mér um að nefna 2. gr. frv. þar sem stendur, með leyfi forseta:

,,Starfsmenn fyrirtækja og stofnana sveitarfélags eru ekki kjörgengir í nefndir, ráð og stjórnir þeirra fyrirtækja eða stofnana er þeir starfa hjá.``

Það er enn einu sinni ástæða til að vekja athygli alþingismanna á því að í gildi eru lög, að mínu viti eðlileg, um sveitarstjórnir og sveitarstjórnarmál sem taka með allt öðrum hætti á möguleikum þeirra sem eru aðilar að sveitarstjórnum eða taka þátt í starfsemi sveitarfélagsins og eru á einhvern hátt háðir fyrirtækjum eða stofnunum sem heyra undir sveitarfélagið. Þarna er á ferðinni allt önnur afstaða en menn hafa til þess ef alþingismenn eiga hlut að máli. Ég verð að segja alveg eins og er að ég hef ekki alveg skilið þá umræðu. Mér finnst að menn ættu að velta því vandlega fyrir sér á hv. Alþingi hvort vanhæfi geti ekki átt við þá með sama hætti og sveitarstjórnarmenn og aðra sem taka að sér einhvers konar trúnaðarstörf fyrir sveitarfélag. Mér finnst það vera dálítill tvískinnungsháttur að gengið skuli vera svo langt sem raun ber vitni gagnvart vanhæfi ef um er að ræða sveitarstjórnir en síðan skuli fara fram umræða, eins og við höfum oft hlustað á í sölum Alþingis, þar sem menn halda því blákalt fram að alþingismenn geti aldrei orðið vanhæfir.