Sveitarstjórnarlög

Fimmtudaginn 15. apríl 2004, kl. 18:01:55 (6449)

2004-04-15 18:01:55# 130. lþ. 97.10 fundur 856. mál: #A sveitarstjórnarlög# (sameining sveitarfélaga, nefndir, ábyrgðir o.fl.) frv. 69/2004, félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 130. lþ.

[18:01]

Félagsmálaráðherra (Árni Magnússon):

Hæstv. forseti. Ég þakka þá jákvæðu og málefnalegu umræðu sem hefur átt sér stað um þetta mál. Ég get tekið undir með hv. þm. Jóhanni Ársælssyni um stærð sveitarfélaganna. Ég get tekið undir þann hluta málflutnings hans sem lýtur að athugasemdum um hversu lítil sveitarfélögin geta verið samkvæmt lögum okkar. En í þeim er kveðið á um að lágmarksstærð sveitarfélags telji 50 manns. Ég hef stundum sagt, hæstv. forseti, að það sé allt að því kyndugt að horfa til þess að í Jónsbók, sem er um 800 ára gömul, er kveðið á um það nánast beinum orðum að sveitarfélag skuli ekki telja færri en 400 íbúa, 20 bændur og 20 kotunga með hverjum. En svo aftur á því herrans ári 2004 eru í gildi lög sem kveða á um að sveitarfélögin skuli ekki telja færri en 50 íbúa.

Hæstv. forseti. Mín skoðun er sú að rétt sé að nálgast verkefnið með þeim hætti sem hér er lagt upp með í þeirri von að forsvarsmenn, ekki síst minni sveitarfélaganna, sjái hag sveitarfélagsins og íbúanna í því að ganga til sameiningar við önnur sveitarfélög á svæðinu, ná þar með fram stærri, sterkari stjórnsýslueiningum, ná því fram að færa þjónustuna nær íbúunum, því á þessu öllu saman hangir, eins og við höfum margfjallað um í dag, tilfærsla verkefna frá ríki til sveitarfélaga og ég á von á því að þar komi fram metnaðarfullar hugmyndir á næstu dögum.

Ég get ekki látið hjá líða, hæstv. forseti, þegar við veltum fyrir okkur stærð sveitarfélaganna, að geta þess að ég átti samtal við kollega minn í Tékklandi í síðasta mánuði, ráðherra sveitarstjórnarmála þar, en Tékkar eru um 10 milljóna manna þjóð. Þar eru sveitarfélögin ríflega 6.000. Við erum þó með rétt rúmlega 100 hér. Hér höfum við u.þ.b. 50 sveitarfélög sem telja færri en 500 íbúa og ég tel það, eins og ég hef áður rakið, hæstv. forseti, ekki heppilegt.

En svo ég víki aftur sögunni til Tékklands eru sveitarfélögin þar 6.000. Hið smæsta telur sjö menn, en þar er engu að síður kosin fimm manna sveitarstjórn. Þá veltir maður fyrir sér, hæstv. forseti, hvort ekki væri nær að kjósa þá sem ekki eiga sæti í sveitarstjórn. En þetta var nú útúrdúr.

Ég þakka hv. þm. fyrir umræðuna, þátttöku í henni og ítreka tillögu mína um að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. félmn.