Tónlistarsjóður

Fimmtudaginn 15. apríl 2004, kl. 18:35:59 (6455)

2004-04-15 18:35:59# 130. lþ. 97.9 fundur 910. mál: #A tónlistarsjóður# frv. 76/2004, HHj
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 130. lþ.

[18:35]

Helgi Hjörvar:

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir frv. sem hér er fram lagt og byrja á því að taka undir ábendingar hv. þm. Björgvins G. Sigurðssonar, fyrst og fremst þá sem lýtur að skipan stjórnarinnar í þessu tilviki. Ég held að tillagan sem hann viðraði í því efni og lýtur að því að ráðherra eigi einn fulltrúa en fulltrúar tónlistarmannanna sjálfra fái þriðja fulltrúann í nefndinni samræmist betur þeim hugmyndum sem við gerum okkur í nútímanum um hlutverk stjórnmálamannanna annars vegar og fagmannanna hins vegar. Við eigum að miða að því að draga úr beinum pólitískum ákvörðunum í menningarlífinu almennt og hafa metnað til þess. Sömuleiðis tek ég undir að full ástæða er til að skoða það að taka útflutninginn sérstaklega fyrir í tónlistarsjóðnum. Ég tel að hv. þm. hafi fært málefnaleg rök fyrir því að það gæti verið farsælt fyrir það góða verkefni sem hér er á ferðinni.

Hér er þó í sjálfu sér fyrst og fremst um að ræða ramma utan um fjárveitingar til tónlistarinnar. Það er kannski erfitt að dæma mikið um þennan ramma nema maður viti hvaða mynd eigi síðan að strengja inn í hann. Hæstv. menntmrh. nefndi að núverandi framlög sem gætu fallið inn í þennan ramma næmu 20--30 millj. kr. og síðan yrði leitað eftir því að það yrði aukið. Ég held að það sé alveg nauðsynlegt að það komi skýrt fram nú við 1. umr. að 20--30 milljónir eru auðvitað bara engar fjárhæðir í því efni sem við erum hér að ræða og munu hvorki skila mönnum lönd né strönd. Ég held að það sé mjög mikilvægt að kalla eftir því að við 1. umr. reifi hæstv. menntmrh. þær hugmyndir sem hún hefur um fjárhagslegt umfang tónlistarsjóðsins til lengri og skemmri tíma. Mér er fullkomlega ljóst að hæstv. ráðherra þarf að sækja þær fjárheimildir hingað til Alþingis og að fjárln. þingsins og þingið sjálft muni hafa síðasta orðið í því efni. En ég held að mikilvægt sé að það komi fram hvaða hugmyndir hæstv. ráðherra hefur um að hún muni sækja hingað til þingsins í þennan sjóð því augljóslega þarf umtalsvert hærri fjárhæðir en þessar 20--30 milljónir og spurning er hvaða fjárhæðir ráðherrann hefur séð í því efni.

Ég ætla í tengslum við þetta að inna hæstv. ráðherra eftir þeirri umræðu sem á stundum hefur farið fram um tónlistina og framlögin til hennar. Nú er það auðvitað svo eins og fram kom í ræðu Björgvins G. Sigurðssonar að tónlistin er að skila okkur gríðarlega miklu, ekki bara í mannlífinu, í menningu okkar og í uppeldi barna og ungmenna heldur líka í landkynningu og í markaðssetningu á Íslandi sem áfangastað og hún hefur verið gríðarlega mikilvægur þáttur í að efla hér ferðaþjónustu og draga hingað að fólk og skapa hér umsvif í kringum það, atvinnu og tekjur. Við höfum í tengslum við kvikmyndirnar haft uppi þau sjónarmið að opinber gjöld sem á kvikmyndaiðnaðinn eru lögð renni í raun aftur til iðnaðarins sjálfs í gegnum Kvikmyndasjóð. Þegar til þess er litið að sá virðisaukaskattur sem tónlistin í landinu er að skila --- hann losar trúlega um hálfan milljarð króna --- þá vil ég, virðulegur forseti, inna hæstv. menntmrh. eftir því hvort hún sjái það fyrir sér að til lengri tíma litið yrði að því stefnt að tónlistin nyti að þessu leyti sambærilegrar fyrirgreiðslu og kvikmyndaiðnaðurinn í gegnum Kvikmyndasjóð og að við til lengri tíma miðuðum að því að þau opinberu gjöld sem á iðnaðinn eru lögð rynnu aftur til hans í gegnum þennan tónlistarsjóð.

Síðan vil ég að lokum, virðulegur forseti, fá að þakka aftur hæstv. ráðherra fyrir að leggja fram þennan ramma sem mér sýnist hafa verið vandað vel til og haft gott samráð um við þá sem máli skipta. Í tengslum við umræðuna sem hér fór fram í gær um tónlistar- og ráðstefnuhús og þær eindregnu yfirlýsingar sem hæstv. ráðherra hefur gefið um stuðning sinn við það mikilvæga verkefni fyrir tónlistarlífið í landinu er ánægjulegt að finna hvað nýr ráðherra leggur mikla áherslu á menningarþáttinn í starfsemi ráðuneytisins og eflingu tónlistarinnar sem, eins og hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson fór svo ágætlega yfir hér áðan, skiptir okkur svo miklu máli í svo mörgu tilliti í samfélagi okkar.