Áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára

Fimmtudaginn 15. apríl 2004, kl. 19:00:57 (6463)

2004-04-15 19:00:57# 130. lþ. 97.11 fundur 873. mál: #A áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára# þál. 29/130, félmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 130. lþ.

[19:00]

Félagsmálaráðherra (Árni Magnússon):

Hæstv. forseti. Samkvæmt 9. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, er kveðið á um að félagsmálaráðherra leggi fram, eigi síðar en ári eftir alþingiskosningar, tillögu til þingsályktunar um áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára í senn. Samkvæmt sömu grein jafnréttislaganna skal ráðherra samhliða framlagningu till. til þál. um áætlun í jafnréttismálum, leggja fram á Alþingi skýrslu um stöðu og þróun jafnréttismála. Þeirri skýrslu hefur verið dreift til hv. alþingismanna.

Ákvæðið um sérstaka framkvæmdaáætlun í jafnréttisáætlun var fyrst tekið upp í lög nr. 65/1985. Þáverandi félmrh., Alexander Stefánsson, lagði fyrstur fram slíka áætlun fyrir ríkisstjórn sem síðan var lögð fyrir Alþingi til umræðu. Segja má að síðari áætlanir hafi í öllum höfuðatriðum verið settar upp með líkum hætti og þessi fyrsta áætlun sem Alexander Stefánsson kynnti fyrir Alþingi árið 1986. Segja má að þó reynslan hafi verið nokkuð góð af gerð jafnréttisáætlana hafi ákvæði um gerð þeirra og form verið breytt. Þetta var gert með lögum nr. 28/1991.

Með nýju ákvæði í 17. gr. laganna var forminu breytt þannig að í stað þess að Alþingi skyldi kynnt jafnréttisáætlun ríkisstjórnarinnar var tekið fram að félmrh. legði áætlunina fyrir Alþingi í formi till. til þál. Með breytingunni er bæði skerpt á formi og ábyrgð ríkisstjórnar og ráðherra aukin á framkvæmdinni. Það var einnig tekið fram að áætlunin skuli byggð á tillögum einstakra ráðuneyta og Jafnréttisráðs og að í henni skuli koma fram sundurliðuð framkvæmdaáform og áætlaðar fjárveitingar til einstakra verkefna sem tengjast jafnréttismálum.

Þrátt fyrir ný jafnréttislög 1991 og 2000 hefur uppbygging jafnréttisáætlana haldist í öllum höfuðatriðum. Mér hefur því, hæstv. forseti, fundist tímabært að hyggja að breytingum. Í þeirri þáltill. um aðgerðir til að jafna stöðu kvenna og karla sem nú hefur verið lögð fyrir Alþingi eru verkefnin afmarkaðri, kveðið á um hvaða ráðuneyti eru ábyrg fyrir framkvæmd hvers verkefnis og hvaða aðilar komi þar að. Ýmis þeirra verkefna sem um ræðir eru vissulega kunnugleg frá fyrri áætlunum þó mörgum hafi verið lokið á liðnu framkvæmdatímabili. Fjöldi þeirra verkefna frá fyrri áætlunum sem ekki reyndist unnt að ljúka leiddi þó m.a. til þess að sú ákvörðun var tekin að fækka nú verkefnum. Með því verður áætlunin raunhæfari og vonandi um leið markvissari.

Í fyrri framkvæmdaáætlun var stefnt að því að samþætta jafnréttis- og kynjasjónarmið inn í daglegt starf allra ráðuneyta. Enn er nauðsynlegt að hafa þetta markmið að leiðarljósi þar sem árangurinn hefur ekki verið sem skyldi. Hér er þó rétt að benda á, hæstv. forseti, að samþætting er ekki markmið í sjálfu sér heldur er jafnrétti kynjanna markmiðið. Það næst m.a. með því að gera samþættingu að viðteknum vinnubrögðum í stjórnsýslunni. Samþætting er aðferðin eða verkfærið sem getur gert það kleift að markmiðinu að jafnrétti verði náð.

Árétta má að framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum er eitt af mikilvægustu verkfærum sem ríkisstjórnin hefur yfir að ráða til að hafa áhrif á þróun jafnréttismála í samfélaginu. Hún var að þessu sinni undirbúin fyrir félmrn. af starfsfólki Jafnréttisstofu sem hafði nána samvinnu við jafnréttisfulltrúa ráðuneytanna. Áætlunin er einnig byggð á tillögum Jafnréttisráðs sem lögum samkvæmt er stjórnvöldum til ráðgjafar um jafnréttismál í vinnumarkaðsmálum.

Af þessu sést, hæstv. forseti, að margir aðilar hafa komið að undirbúningi að samningu áætlunarinnar og fjölmargar tillögur komu fram. Eins og áður sagði var ákveðið að hafa að þessu sinni færri en jafnframt markvissari og vonandi raunhæfari verkefni en áður. Því reyndist nauðsynlegt að velja og hafna. Þar af leiðandi hafa ekki öll verkefni sem stungið var upp á verið tekin með í þá áætlun sem hér er lögð fyrir Alþingi. En ég fullyrði að áætlunin tekur á þeim atriðum sem mestu skipta um framvindu mála á þessu sviði.

Ég vil vekja á því athygli að þess var freistað að hverri verkefnislýsingu fylgdi áætlun um kostnað sem því fylgir að hrinda verkefninu í framkvæmd. Í lögum nr. 28/1991 var kveðið á um að framkvæmdaáformum skyldi fylgja áætlun um fjárveitingar til einstakra verkefna. Í þeirri framkvæmdaáætlun sem hér er til umræðu koma í fyrsta skipti fram upplýsingar um áætlaðan kostnað við að hrinda í framkvæmd flestum þeim verkefnum sem talin eru upp í framkvæmdaáætluninni, þó ekki öllum. Þetta er í fyrsta sinn sem þetta er gert enda þótt ákvæði um slíkt hafi verið í jafnréttislögunum í rúman áratug.

Jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði er eitt af forgangsviðfangsefnum í fyrirliggjandi framkvæmdaáætlun. Á þessum vettvangi er verkefnið einkum tvíþætt, tryggja að kynin hafi jöfn tækifæri til starfa og starfsframa sem og annarra hlunninda á vinnustaðnum. Í annan stað að vinna að framgangi þess sjálfsagða markmiðs að greidd séu sömu laun fyrir jafnverðmæt störf óháð kyni. Því miður leiða kannanir í ljós að í þessum efnum er verulegur misbrestur. Þær staðfesta að enn er því svo farið að karlar umfram komur njóta yfirborgana og ýmiss konar launahlunninda. Þetta gildir jafnt um almenna vinnumarkaðinn og hinn opinbera.

Samanburður sýnir að verulega hallar á konur sem gegna störfum sem krefjast sérmenntunar þegar þau eru borin saman við hefðbundin karlastörf sem krefjast hliðstæðrar sérmenntunar. Launakerfi sem byggir á stöðuheitum sem ekki gefa rétta mynd af ábyrgð eða umfangi, sporslum af ýmsu tagi sem m.a. felast í fastri óunninni yfirvinnu og bílahlunnindum umfram það sem eðlilegt má teljast, býður upp á mismunun. Ríkisstjórnin og samtök aðila vinnumarkaðarins hafa verið að feta sig frá slíku launakerfi. Hér er enn verk að vinna.

Eitt af verkefnum félmrn. verður skipun nefndar til að meta aðferðir til að mæla kynbundinn launamun. Einnig er gert ráð fyrir því að ráðuneytið endurtaki umfangsmikla könnun sem gerð var árið 1995 um þætti sem hafa áhrif á laun og starfsframa kvenna og karla. Enn fremur verður sérstaklega kannað hvaða og hvort ný fæðingar- og foreldraorlofslög hafa haft hér áhrif.

Hæstv. forseti. Í þessu sambandi vil ég minna á að hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir hefur lagt fram till. til þál. um aðgerðir varðandi launajafnrétti kynjanna. Þótt vinna við þá ályktun sem ég hér mæli fyrir hafi verið langt komin þegar sú ályktun kom fram er það engin launung að tekið hefur verið mið af nokkrum þeirra atriða sem fram koma í tillögu hv. þm. Er það í samræmi við yfirlýsingu mína við fyrri umræðu um þá ályktun hér á Alþingi hinn 16. október sl.

Hæstv. forseti. Ég tel sömuleiðis æskilegt að hv. félmn. kannaði með opnum huga hvort ganga megi lengra í að taka upp atriði sem fram koma í ályktunartillögu hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, t.d. varðandi greiningu á uppbyggingu launakerfa og kjarasamninga með tilliti til kerfislægrar mismununar.

Hið opinbera þarf að setja fordæmi fyrir almenna vinnumarkaðinn með því að skapa konum jöfn tækifæri í ráðuneytum og undirstofnunum þeirra. Þetta á bæði við um ráðningar og stöðuveitingar. Hér reynir á nýmæli í jafnréttislögunum frá árinu 2000. Í þeim er að finna ákvæði um skipun jafnréttisfulltrúa í sérhverju ráðuneyti sem fjallar um og hefur eftirlit með jafnréttisstarfi á málasviði ráðuneytisins og þeirra stofnana sem undir ráðuneytin heyra.

Á undanförnum liðlega þremur árum hefur fengist nokkur reynsla af störfum jafnréttisfulltrúanna sem bendir til að betur þurfi að skilgreina verkefni þeirra. Ákvæði um þetta efni var í síðustu áætlun, en ekki tókst fyllilega að hrinda því í framkvæmd. Þetta er því endurtekið í þeirri áætlun sem nú liggur fyrir og lögð áhersla á að þeim starfsmönnum ráðuneytanna sem sinna þessu hlutverki verði skapað aukið svigrúm til athafna. Þetta verði gert með sérstakri starfslýsingu fyrir starf jafnréttisfulltrúa og mörkuðu starfshlutfalli. Rétt er að taka fram að ólík hlutverk ráðuneytanna hljóta að ráða starfshlutfalli sem þarf ekki að vera það sama fyrir alla jafnréttisfulltrúana.

Pólitískur vilji til að jafna hlutföll kynjanna í nefndum, ráðum og stjórnum á vegum hins opinbera hefur komið fram í fyrri framkvæmdaáætlunum. En þrátt fyrir þann vilja hefur hlutfall kvenna í opinberum nefndum, ráðum og stjórnum í heildina ekki aukist á síðustu tveimur árum.

Á haustmánuðum 2003 hafði hlutfall kvenna í nefndum, ráðum og stjórnum aukist í fjórum ráðuneytum, staðið í stað í einu en lækkað í sjö þegar borið er saman við stöðuna árið 2001.

Loks er ástæða til að minnast á að hlutur kvenna í stjórnunarstöðum innan ráðuneytanna er enn rýr. Í einu ráðuneyti er engin kona í yfirstjórn og í flestum eru þær í minni hluta. Þetta er mál sem ríkisstjórnin þarf að huga betur að á næstu árum og gert er ráð fyrir því í þessari áætlun.

Þetta á þó ekki við um öll ráðuneyti, hæstv. forseti, t.d. eru konur 44% yfirstjórnar dóms- og kirkjumrn. og 50% yfirstjórnar heilbr.- og trmrn. samkvæmt tölum frá því í október 2003. Og í febrúar á þessu ári var umhvrn. fyrst til þess að hafa fleiri konur en karla í yfirstjórn.

Pólitískan vilja til breytinga þarf að sýna í verki á fleiri stöðum og því er nauðsynlegt að framgangur verkefna í þessari áætlun verði tryggður.

Hér að framan hefur verið dvalið við aðgerðir sem hið opinbera hyggst grípa til í því skyni að rétta hlut kvenna á opinberum vinnumarkaði. Því miður gefa kannanir til kynna að einnig sé full ástæða til að taka til hendinni í jafnréttismálum á almenna vinnumarkaðnum. Upplýsingar sem koma fram í nýlegri rannsókn sem unnin var af Bryndísi Ísfold Hlöðversdóttur eru sláandi. Þar kemur m.a. fram að konur eru einungis 5% stjórnarmanna í fyrirtækjum skráðum hjá Kauphöll Íslands, 12 konur á móti 330 körlum. Þetta minnir á ákvæði í 13. gr. jafnréttislaganna. Þar kemur m.a. fram sú skýra lagaskylda að atvinnurekendur og stéttarfélög skuli vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna innan fyrirtækis síns eða stofnunar og stuðla að því að störf flokkist ekki í sérstök kvenna- eða karlastörf. Í greininni er kveðið á um að fyrirtæki og stofnanir þar sem starfa fleiri en 25 starfsmenn skuli setja sér jafnréttisáætlun eða kveði sérstaklega á um jafnrétti kvenna og karla í starfsmannastefnu sinni. Ég hef fullan hug á því að efna til ráðstefnu í samvinnu við Jafnréttisráð, heildarsamtök aðila vinnumarkaðarins og Jafnréttisstofu, þar sem fjallað yrði um framkvæmd á þessu sviði. Það er ekki nóg að beina sjónum, hæstv. forseti, að opinbera vinnumarkaðnum. Almenni vinnumarkaðurinn er ekki síður mikilvægur fyrir framvindu jafnréttismála í landinu.

Í framkvæmdaáætlun þessari er lagt til að stefnumarkandi áherslusvið í jafnréttismálum fyrir næstu árin verði:

1. Samþætting jafnréttissjónarmiða.

2. Fræðsla um jafnréttismál.

3. Jafnrétti á vinnumarkaði.

4. Jafnréttisáætlanir ráðuneyta.

5. Skilgreining á hlutverki jafnréttisfulltrúa ráðuneyta.

6. Eftirfylgni með framkvæmdaáætlun.

Hæstv. forseti. Ein af grunnstoðum samþættingar er fræðsla. Í þeirri framkvæmdaáætlun sem hér er til umræðu koma fram ýmis verkefni sem tengjast fræðslu og upplýsingaöflun. Nauðsynlegt er að stjórnendur ráðuneyta taki þátt í fræðslu um jafnréttismál og komi því efni til skila til starfsmanna sinna. Kynbundinn launamunur er enn eitt af helstu áhersluatriðum framkvæmdaáætlunarinnar. Þróunin er vissulega í rétta átt, en upplýsingar benda til, eins og ég hef rakið, að betur má ef duga skal. Kyngreindar upplýsingar eru grunnundirstaða þess að hægt sé að fylgjast með þróun mála í þessum efnum. Með slíkum gögnum væri t.d. hægt að þróa svokallaða kynjavísitölu til að nákvæmar sundurgreindar upplýsingar um stöðu karla og kvenna í samfélaginu væru alltaf tiltækar.

Ég vil ljúka máli mínu með því að leggja á það áherslu að umræðan um jafnrétti kynjanna snýst ekki eingöngu um að bæta hag kvenna. Hún tekur einnig til þess að bæta hag alls samfélagsins. Afnám hvers kyns misréttis gagnvart konum er spurning um að konur njóti mannréttinda og jafnræðis við karlmenn.

Hæstv. forseti. Staðreyndirnar tala sínu máli. Sannarlega vildi ég óska þess að ég gæti haldið því fram að ekki væri þörf á því í dag að leggja fram og ræða á Alþingi sérstaka tillögu um ályktun þingsins í jafnréttismálum. (GAK: Spurðu dómsmálaráðherra ...) Ég vildi sömuleiðis að ég gæti haldið því fram að árangur okkar í jafnréttismálum á undanförnum árum og áratugum væri með þeim hætti að ekki væri lengur þörf á sérstökum lögum til að standa vörð um jafnan rétt kynjanna í samfélagi okkar. Ég hef hins vegar enga sannfæringu um að svo sé, þvert á móti. Það er hins vegar sjálfsagt og eðlilegt að við veltum því fyrir okkur á hverjum tíma hvort við erum að nálgast markmið okkar eftir skynsamlegum leiðum og með þeim verkfærum sem líkleg eru til árangurs.

Ég fagna slíkri umræðu, hæstv. forseti, og tel hana gagnlega. En ég tel því miður að við eigum enn langt í land við að tryggja jafnrétti kynjanna á ótal sviðum og þess vegna sé það okkur algjörlega nauðsynlegt að setja fram með reglubundnum hætti stefnumörkun ríkisstjórnar í jafnréttismálum líkt og hér er gert og af sömu ástæðum beri okkur að standa vörð um jafnréttislöggjöfina þótt ekki haldi ég því fram að hún sé fullkomin eða hana megi ekki lengi bæta. Okkur hefur sannarlega miðað fram en við eigum enn talsvert ferðalag fyrir höndum.

Hæstv. forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að þáltill. verði vísað til síðari umræðu og hv. félmn.