Áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára

Fimmtudaginn 15. apríl 2004, kl. 19:15:24 (6464)

2004-04-15 19:15:24# 130. lþ. 97.11 fundur 873. mál: #A áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára# þál. 29/130, HHj (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 130. lþ.

[19:15]

Helgi Hjörvar (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. félmrh. fyrir að reifa þessa áætlun hér ágætlega en hlýt að kalla eftir því hvort skilja beri orð hæstv. ráðherra jafnréttismála með þeim hætti að hann fagni umræðu um jafnréttislögin og sé í því sambandi að vísa til yfirlýsinga hæstv. dóms- og kirkjumrh., Björns Bjarnasonar, og hæstv. forsrh., Davíðs Oddssonar. Ég vona sannarlega, virðulegur forseti, að svo sé ekki því að þótt hafa megi ákveðna samúð með stöðu hæstv. félmrh. og hafa á því ákveðinn skilning að hann sem nýr ráðherra hafi ekki mikla stöðu til að setja mjög harkalega ofan í við sjálfan forsrh. landsins í þessu efni trúi ég því ekki fyrr en ég tek á að hér hafi hæstv. ráðherra jafnréttismála verið að fagna sérstaklega þeirri ómerkilegu og lágkúrulegu umræðu sem hæstv. forsrh. Davíð Oddsson og hæstv. dómsmrh. Björn Bjarnason hafa haft uppi hér á síðustu dögum og fagna því sérstaklega hvernig þeir hafa vegið að grundvallarþáttum í jafnréttislöggjöfinni og alið á fordómum og rangtúlkunum á hlutverki hennar. Eitt helsta misréttið sem við eigum enn við að stríða í samfélagi okkar er misrétti kynjanna, launamisrétti kynjanna á vinnumarkaði. Frumkvæðisskylda stjórnvalda og þó fyrst og síðast hæstv. félmrh. er verulega á því sviði. Ég hlýt þess vegna að kalla eftir því að hæstv. félmrh. svari því hvort hann hafi hér með orðum sínum verið að fagna sérstaklega þeirri umræðu sem Björn Bjarnason og hæstv. forsrh. Davíð Oddsson hafa staðið fyrir undanfarna daga.