Áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára

Fimmtudaginn 15. apríl 2004, kl. 19:20:21 (6468)

2004-04-15 19:20:21# 130. lþ. 97.11 fundur 873. mál: #A áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára# þál. 29/130, KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 130. lþ.

[19:20]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þá jafnréttisáætlun sem hér liggur fyrir. Í henni er að finna fögur orð, fögur fyrirheit og fögur markmið sem hæstv. ráðherra veit auðvitað að getur verið flóknara að efna en að fylgja úr hlaði úr ræðustóli. Eins og hann auðvitað getur um í ræðu sinni hefur okkur miðað harla lítið miðað við væntingar og miðað við þær áætlanir sem við höfum keyrt á hingað til.

Mig langar til að inna hæstv. ráðherra eftir einu ákveðnu atriði. Ég sé að hann hefur sett á verkefnalista dómsmrn. fyrst og fremst mansalsmál og sömuleiðis vernd vitna og þolenda afbrota. Ég fagna því að þessi atriði skuli vera tekin inn í áætlunina því að mér finnst þau sannarlega heyra til þessum málaflokki. Af því að hæstv. ráðherra brýtur kannski blað í sögunni, þar sem hann segir í ræðu sinni að hann hafi tekið ákveðið mið af þáltill. hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur sem hann gat um, vil ég benda hæstv. ráðherra á að fleiri þáltill. liggja fyrir þinginu sem vert væri að kíkja á í þessu sambandi og þá er ég að tala um þáltill. um fórnarlamba- og vitnavernd sem ég hef lagt fram og málið sem fjallar um vændi, þ.e. það að gera kaupendur vændis ábyrga fyrir því að vændi viðgangist en ekki þá einstaklinga sem leiðast út í vændi. Ég vil fá að heyra hæstv. ráðherra segja okkur það hér hvort álit hans á mansalsmálum geti ekki samrýmst þeim sjónarmiðum sem koma fram í nefndri þáltill., nefnilega því að vændi sé fylgifiskur mansals og að stjórnvöldum beri að reyna að hafa áhrif á eftirspurnina til þess að draga úr mansalinu sjálfu.