Áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára

Fimmtudaginn 15. apríl 2004, kl. 19:41:03 (6476)

2004-04-15 19:41:03# 130. lþ. 97.11 fundur 873. mál: #A áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára# þál. 29/130, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 130. lþ.

[19:41]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er full ástæða til þess að halda að hæstv. ráðherra sem er að leggja hér fram sína fyrstu jafnréttisáætlun, ætli sér og sé staðfastur í því að fylgja vel eftir þeirri framkvæmdaáætlun og því ber að fagna. Hæstv. ráðherra lýsir hér sínum skoðunum á því hvernig hann vilji gera það með því að árangursmæla. Ég skil hæstv. ráðherra þannig að hann muni skilgreina verkefnið betur og árangursmæla þannig að ábyrgðin verði betur skilgreind en verið hefur og ástæða er til að fagna því sérstaklega.

En við skulum nú spyrja að leikslokum. Ég held að það væri mjög gott ef hæstv. ráðherra gerði þinginu grein fyrir því, þó ekki væri nema félmn., þegar framkvæmdaáætlun er hálfnuð hvernig fram hefur miðað. Þá á að gera þessa úttekt. Ég held að það væri góð regla hjá hæstv. ráðherra ef hann mundi gera þetta, þ.e. að kynna a.m.k. félmn. ef ekki þinginu með skýrslu hvernig miðaði á kjörtímabilinu. Ég held að það sé gott og til eftirbreytni og til aðhalds sem ég held að veiti nú ekki af í ráðuneytunum.

Mikið er lagt upp úr því að komið verði á fræðslu embættismanna og undirmanna í stofnunum. Ég held því líka að hæstv. ráðherra ætti að skoða það að beita sér nú fyrir því að allir, hver einn og einasti ráðherra í hverju einasta ráðuneyti, verði settir á fræðslunámskeið alveg eins og undirmennirnir. Ekki veitir af því að það sé gert. Hann ætti að beita sér fyrir því með sama hætti og var gert í Svíþjóð með mjög góðum árangri. Þar voru allir ráðherrar settir á skólabekk til að kenna þeim jafnréttislögin svo að þeir læsu þau ekki á hvolfi eins og sumir ráðherrar virðast gera.