2004-04-16 10:33:16# 130. lþ. 98.95 fundur 477#B álit kærunefndar jafnréttismála um skipan hæstaréttardómara og viðbrögð dómsmálaráðherra# (umræður utan dagskrár), Flm. JóhS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur, 130. lþ.

[10:33]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Hæstv. forseti. Hæstv. dómsmrh. getur ekki boðið þingheimi upp á þá fráleitu túlkun á jafnréttislögunum að á grundvelli tölfræði um fjölda fólks í ákveðnum stöðum sé verið að binda veitingarvaldshafa af því að skipa konu í embætti. Vitaskuld er það hæfni umsækjenda sem á að ráða stöðuveitingum og ef taka á konu fram yfir karl verður hún að vera a.m.k. jafnhæf eða hæfari en karlinn. Það mat lagði kærunefndin til grundvallar og á því mati hafa dómstólar byggt þegar þeir hafa a.m.k. fjórum sinnum á undanförnum árum fallist á niðurstöður kærunefndar vegna stöðuveitingar. Það ætti líka hæstv. forsrh. að muna þegar hann segir að kærunefndin eigi að vinna í anda dómsúrskurða sem fallið hafa en ekki blekkja þjóðina með öðru í viðleitni sinni til að verja embættisafglöp hæstv. dómsmrh. sem gagnrýna ber harðlega.

Það er áfall fyrir réttarkerfið og stjórnsýslureglur að réttarvitund og viðhorf sjálfs dómsmrh. og forsrh. sé jafnhraksmánarlegt gagnvart jafnréttislögum og raun ber vitni. Þetta viðhorf æðstu ráðamanna þjóðarinnar er mikið áfall fyrir jafnréttisbaráttuna og raunar lítilsvirðing við þjóð sem kennir sig við jafnrétti og mannréttindi. Veikburða rök ráðherrans eru ámátleg þegar hann snýr öllu á hvolf í jafnréttislögunum, misskilur þau og mistúlkar sundur og saman eftir eigin geðþótta.

Hroki og vankunnátta hæstv. forsrh. og dómsmrh. á jafnréttislögum er hrópandi. Hvernig dettur hæstv. dómsmrh. í hug að halda því fram að ef hann væri skuldbundinn af því að fara að jafnréttislögum hefði það átt að koma fram í umsögn Hæstaréttar? Er hæstv. ráðherra virkilega alvara þegar hann lætur að því liggja að kærunefnd jafnréttismála sé að skipta sér af ákvörðun sem henni komi ekki við?

Hæstv. ráðherra hefur verið tíðrætt um að verið sé að binda hendur hans sem veitingarvaldshafa, en hann lifir í þeim gamla tíma að hann hafi ótakmarkað svigrúm til að velja á milli umsækjenda að eigin geðþótta. Hæstv. ráðherra lítur gersamlega fram hjá því að svigrúm hans takmarkast við ákvæði jafnréttislaga, jafnréttisákvæði stjórnarskrár og stjórnsýslulaga og þá grundvallarreglu í stjórnsýslurétti að velja þann sem hæfastur er á grundvelli málefnalegra sjónarmiða sem dómsvenjur byggja á. Margsinnis hefur líka komið fram hjá umboðsmanni Alþingis að veitingarvaldshafar hafa ekki frjálsar hendur um val á umsækjendum. Hæstv. ráðherra gerir ekkert með að hann er ekki einasta sekur um brot á jafnréttislögum heldur gengur hann á svig við jafnréttisákvæði stjórnarskrárinnar og jafnræðisreglur stjórnsýslulaga. Hann gengur gegn stjórnsýslureglum eins og rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga eins og ekkert sé. Hann brýtur gegn framkvæmdaráætlun ríkisstjórnarinnar í jafnréttismálum þar sem lögð er áhersla á að jafnréttissjónarmið séu tryggð við stöðuveitingar eins og m.a. starfsreglur í ráðuneyti ráðherrans kveða líka á um.

Hjá öðrum lýðræðisþjóðum hefði ráðherra sem brýtur svo gróflega lög og reglur verið látinn fjúka. En hér á landi er allt leyfilegt hjá ráðherrum og þeir komast upp með allt. Ef ráðherrar eru ósáttir við lög eiga lögin bara að víkja en ekki þeir að þeirra mati.

Hæstv. ráðherra hefur haldið því fram að af áliti kærunefndar verði ráðið að hann hafi líka farið á svig við jafnréttislögin ef hann hefði valið annan þeirra sem Hæstiréttur taldi heppilegastan til setu í réttinum. Hæstiréttur hafi með því verið að gefa ráðherranum vísbendingu um að brjóta lög. Hæstv. ráðherra er greinilega með afar slæma samvisku þegar hann setur fram svona útúrsnúning og hundalógík, enda er ráðherrann í vondum málum. Málið er ekki flóknara en það að vera má að kærunefnd jafnréttismála hefði komist að allt annarri niðurstöðu ef hæstv. ráðherra hefði skipað annan hvorn þeirra sem Hæstiréttur taldi heppilegastan í starfið. Ekki er einu sinni víst að konan hefði kært í því tilviki.

Það er grafalvarlegt fyrir jafnréttisbaráttuna að í stóli dómsmrh. og forsrh. skuli sitja menn með svona forneskjuleg viðhorf í jafnréttismálum. Spyrjum okkur hvaða hætta leikreglum lýðræðisþjóðfélags er búin ef dómsmrh. telur sig hafinn yfir lög um grundvallarmannréttindi eins og jafnréttislög.

Hæstv. dómsmrh. skuldar þjóðinni svör en ekki útúrsnúninga af þeim toga sem ráðherrann hefur orðið uppvís að. Því leyfi ég mér að spyrja hæstv. dómsmrh.:

Er ráðherrann reiðubúinn að semja um skaðabætur sbr. 28. gr. jafnréttislaga án þess að til þurfi að koma dómsniðurstaða Hæstaréttar?

Hver er pólitísk ábyrgð ráðherrans? Er henni fullnægt að mati ráðherra með því að brotaþola verði dæmdar skaðabætur eða á ráðherra að segja af sér?

Telur ráðherra hæstaréttardómarana sem gáfu honum umsögn um hæfi umsækjenda vera vanhæfa til að fjalla um og dæma í málinu komi það til kasta dómstólanna?

Telur ráðherra rétt að breyta fyrirkomulagi við skipan dómara og ef svo er, þá hvernig?