2004-04-16 10:46:44# 130. lþ. 98.95 fundur 477#B álit kærunefndar jafnréttismála um skipan hæstaréttardómara og viðbrögð dómsmálaráðherra# (umræður utan dagskrár), GÖrl
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur, 130. lþ.

[10:46]

Gunnar Örlygsson:

Herra forseti. Árið 1999 braut ég lög sem heyra undir fiskveiðistjórnarlög. Ég var og er enn algerlega á móti þeim lögum eða þeim hroðalega lagabálki sem fiskveiðistjórnarlögin eru. Engu að síður gerði ég mér grein fyrir því að ég væri að brjóta lög og ég viðurkenndi brotið.

Það sem vekur furðu mína í þessu máli er að hæstv. dómsmrh. sýnir ekki þann manndóm að viðurkenna afglöp sín frá síðasta ári. Ég hjó líka eftir því í fyrrakvöld hjá ágætum fyrirspyrjanda og þáttarstjórnanda Kastljóssins, Kristjáni Kristjánssyni, þegar hann spurði hæstv. dómsmrh. hvað yrði um hann ef dómur félli á hann í þessu máli. Svar hæstv. ráðherra var nokkurn veginn á þá leið að það skipti hann engu máli. Það hafi gerst í tímans rás að ríkið hafi orðið skaðabótakræft vegna mála sem það hefði tapað fyrir dómi.

Öðru máli gegnir um mig. Ég fékk á mig dóm. Ég var tæpar 100 nætur frá konu minni og barni. Ég var myndaður bak og fyrir í réttarsölum og útmálaður sem glæpamaður. Hver er réttarstaða Íslendinga? Er einhver munur á almennum borgara eða ráðherrum landsins? Hér er um prinsippmál að ræða. Ég er ekki þeirrar náttúru að það hlakki í mér yfir óförum annarra. Reyndar hef ég fram til þessa ávallt talið hæstv. dómsmrh. Björn Bjarnason vera prinsippmann. Því kemur mér afskaplega á óvart hvernig hann tekur á málinu og hann er greinilega á miklum villigötum. Við verðum að horfa á málið frá öðru sjónarhorni, ekki bara frá sjónarhorni jafnréttislaga.

Það skiptir engu máli hvað hæstv. dómsmrh. heldur um þessi lög. Það kemur ekki málinu við. Enginn er hafinn yfir lög í landinu, hvorki hæstv. dómsmrh. né sá sem hér stendur.