2004-04-16 10:51:20# 130. lþ. 98.95 fundur 477#B álit kærunefndar jafnréttismála um skipan hæstaréttardómara og viðbrögð dómsmálaráðherra# (umræður utan dagskrár), HBl
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur, 130. lþ.

[10:51]

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson er barn síns tíma. Skipan Ólafs Barkar Þorvaldssonar í stöðu dómara við Hæstarétt var rétt og eðlileg. Við skipan hæstaréttardómara verður jafnan að hafa í huga hverjir sitja fyrir í réttinum, hvort rétt sé að styrkja sérstaklega eitthvert tiltekið svið lögfræðinnar sem mikið reynir á einmitt nú á þeirri stundu og í fyrirsjáanlegri framtíð. Eins og á stendur er ég sammála hæstv. dómsmrh. um að það var heppilegast að inn í Hæstarétt kæmi maður með meistarapróf í Evrópurétti og í samkeppnisrétti eins og Ólafur Börkur Þorvaldsson hefur. Það þarf ekki að fletta þingtíðindum eða dagblöðum lengi til þess að sækja rökstuðninginn. Ég minni á mál olíufélaganna og hringamyndanir á smásölumarkaði og harma með hvílíkri léttúð hv. þingmenn Jóhanna Sigurðardóttir og Birkir J. Jónsson hafa tekið á þeim þætti málsins.

Það er óheppilegt, herra forseti, að hæstaréttardómarar séu allir úr sama aldursflokknum og að rétturinn eldist um of, eða eins og vinur minn sagði við mig: ,,Hæstiréttur má undir engum kringumstæðum verða klúbbur fólks á svipuðum aldri.`` Nú er meðalaldur hæstaréttardómara 59 ár en þeir mega hverfa úr starfi 65 ára á fullum launum. Með skipan Hjördísar Hákonardóttur í réttinn hefði meðalaldurinn enn hækkað en á hinn bóginn er Ólafur Börkur Þorvaldsson fulltrúi nýrrar kynslóðar, aðeins 42 ára gamall.

Ég er sammála hæstv. dómsmrh. um að endurnýjun þurfi að eiga sér stað í Hæstarétti og þar sé veruleg aldursdreifing. Virðing réttarins og traust réttarins byggir á því að í honum sitji ekki einsleitur hópur. Það er mikilsvert að hafa í huga, herra forseti.