2004-04-16 10:58:07# 130. lþ. 98.95 fundur 477#B álit kærunefndar jafnréttismála um skipan hæstaréttardómara og viðbrögð dómsmálaráðherra# (umræður utan dagskrár), BH
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur, 130. lþ.

[10:58]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Hæstv. forseti. Ummæli hæstv. dómsmrh. Björns Bjarnasonar um jafnréttislögin hafa valdið miklu fjaðrafoki í samfélaginu og skal engan undra. Hæstv. ráðherra reynir að slá ryki í augu okkar hinna með því að benda á annað böl, aðra fyrrverandi ráðherra sem ekki hafi virt jafnréttislögin, umsögn Hæstaréttar í umræddu máli, og hann hefur vakið athygli okkar á því að það sé lítt merkilegt þótt ráðherra brjóti lög og ríkið sé dæmt til að greiða skaðabætur þess vegna. Það sé alltaf að gerast. Hann megi hafa þær skoðanir á jafnréttislögunum sem honum sýnist, hann megi alveg segja að hann vilji breyta þeim lögum sem honum þóknast illa að fara eftir, hann eigi sinn rétt til að skipa þann hæstaréttardómara sem honum sýnist.

Sú afstaða til jafnréttislaganna sem hefur birst í ummælum hæstv. ráðherra er með öllu óþolandi. Lögin séu barn síns tíma, kominn sé tími til að huga að endurskoðun þeirra, þau bindi hendur hæstv. dómsmrh. og annarra veitingarvaldshafa, þau standi í vegi fyrir því að þeir fái notað vald sitt óheft og óskorað. En ekki hvað? Afstaða hæstv. dómsmrh. til laga og til meðferðar valdhafa á valdi sínu lýsir sjónarmiðum sem eiga ekkert erindi inn í 21. öldina. Valdhöfum hafa nefnilega verið settar ýmsar eðlilegar og sanngjarnar skorður á síðari öldum og það er kominn tími til fyrir hæstv. dómsmrh. að átta sig á því. Valdið sem sólkonungurinn taldi frá guði komið er nefnilega komið frá fólkinu og þeir sem fara með það vald þurfa að gera það innan ákveðinna marka.

Eitt af því sem fulltrúasamkoma þjóðarinnar hefur sett sem umferðarreglur í flóknum frumskógi valdsins eru jafnréttislög og ákvæði um kærunefnd jafnréttismála og hlutverk hennar. Hæstv. dómsmrh. á að fara eftir þeim leikreglum, til þess ber honum skylda, bæði lagaleg og siðferðileg. Og ég er sammála hv. þm. Halldóri Blöndal um það að Hæstiréttur á ekki að vera klúbbur einsleitra einstaklinga og kannski að kominn sé tími til að skipa þar sérfræðing í jafnréttislögum inn í réttinn.