Lögreglulög

Föstudaginn 16. apríl 2004, kl. 11:08:25 (6505)

2004-04-16 11:08:25# 130. lþ. 98.15 fundur 870. mál: #A lögreglulög# (tæknirannsóknir o.fl.) frv. 56/2004, BH
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur, 130. lþ.

[11:08]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Hæstv. forseti. Í sjálfu sér er ekki mikið um frv. hæstv. dómsmrh. að segja við 1. umr. Mér sýnist við fyrstu yfirferð að hér sé um gott mál að ræða sem sé þarft og þarna sé verið að samræma ákveðna vinnu sem er til staðar og gera þau gögn sem lögreglan notar í starfi sínu aðgengilegri. Í umsögn fjárlagaskrifstofu fjmrn. er gert ráð fyrir að færðar verði til fjárveitingar vegna þessara hluta frá ríkislögreglustjóra til lögreglunnar í Reykjavík. Þar kemur reyndar líka fram að samruni á verkefnum embættanna á þessu sviði verði til hagræðingar og geti stuðlað að því að útgjöldin lækki nokkuð.

Ég held líka að eðlilegt sé að taka þessi mál til skoðunar, samræma og hagræða eftir atvikum þannig að ég ætla ekki að gera fleiri athugasemdir við frv. Mér sýnist vera gott mál á ferð og geri ekki ráð fyrir öðru en það verði stutt en auðvitað munum við skoða það í hv. allshn. og fara vel yfir það þar, en í fljótu bragði sýnist mér vera um hið ágætasta mál að ræða.