Lögreglulög

Föstudaginn 16. apríl 2004, kl. 11:09:57 (6506)

2004-04-16 11:09:57# 130. lþ. 98.15 fundur 870. mál: #A lögreglulög# (tæknirannsóknir o.fl.) frv. 56/2004, SJS
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur, 130. lþ.

[11:09]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég get tekið undir það að í fljótu bragði verður ekki séð annað en frv. sé eðlilegt og að sjálfsögðu þarf að vera fast skipulag á því hvernig farið er með gögn á vegum lögregluembætta og hvernig rannsóknum er háttað. Hér er annars vegar um að ræða rekstur miðlægs gagnagrunns lögreglunnar á sviði tæknirannsókna sem verður hjá ríkislögreglustjóraembættinu og hins vegar tæknideild við embætti lögreglustjórans í Reykjavík sem þjónusti allt landið. Undir hið fyrra fellur einnig sú nefnd sem annast skráningu á horfnu fólki sem er að sjálfsögðu mikilvægt að vandað sé til og haft í föstum skorðum.

Hins vegar gefur frv. út af fyrir sig tilefni til að spyrja hæstv. dómsmrh. um meðferð gagnagrunna á vegum lögreglunnar að öðru leyti. Nú er alveg ljóst að verið er að stórauka upplýsingasöfnun með ýmsum hætti í samfélaginu. Sumt er beint á vegum lögreglunnar, annað á vegum annarra aðila. Fram hefur komið t.d. að teknar eru myndir af öllum sem koma til landsins í Keflavík og væntanlega er það á vegum sýslumannsembættisins þar sem með það er farið. Auðvitað vakna líka spurningar í tengslum við slík mál um meðferð upplýsinganna almennt, hvernig persónuvernd sé tryggð og henni fyrirkomið.

Ég get ekki neitað því, herra forseti, að mér hefur lengi leikið nokkur hugur á að verða fróðari um það hvernig almennt er staðið að málum varðandi meðferð gagna hjá lögreglunni. Þá á ég ekki við tæknirannsóknir og miðlæg gögn af því tagi heldur meira persónutengdar upplýsingar sem eðli málsins samkvæmt hljóta að vera í talsverðum mæli hjá lögregluembættunum og ríkislögreglustjóra. Getur hæstv. dómsmrh. upplýst okkur aðeins betur við umræðuna um hvernig almennt er farið með þessi mál, hvernig samskiptum er háttað við persónuvernd þegar um er að ræða persónugreinanlegar upplýsingar og hvort endurskipulagning á þessum málum sé einhvers staðar á ferðinni í kerfinu hjá ríkislögreglustjóraembættinu sem hefur vaxið nokkuð að umfangi á undanförnum árum eins og menn þekkja.

Af og til hafa komið fram getgátur eða orðrómur um að um væri að ræða ákveðna kerfisbundna söfnun á persónulegum upplýsingum sem dult færu væntanlega hjá ríkislögreglustjóraembættinu eða í skjóli dómsmrn. Einstaklingar þykjast stundum verða varir við að aðild þeirra að félagasamtökum í landinu virðist skipta máli við tilteknar aðstæður án þess að geta fengið á því neinar skýringar eða um það nein svör. Ég vil gjarnan að hæstv. dómsmrh. upplýsi hvernig almennt er farið með þessi mál hjá lögreglunni af þessu tilefni eða beri fyrir sig ef um of viðkvæmar upplýsingar er að ræða til að koma þeim á framfæri í heyranda hljóði, hvers vegna það sé og hvort t.d. sé hægt að tryggja að hv. þingnefnd fái nákvæmari upplýsingar um það hvernig með þessa hluti er farið. Ég geri ráð fyrir að dómsmrh. sem þekkir vel til þessara hluta sé ekkert að vanbúnaði að svara spurningunni þó hún sé ekki undirbúin öðruvísi en sem hluti af umræðunni.