Lögreglulög

Föstudaginn 16. apríl 2004, kl. 11:14:11 (6507)

2004-04-16 11:14:11# 130. lþ. 98.15 fundur 870. mál: #A lögreglulög# (tæknirannsóknir o.fl.) frv. 56/2004, dómsmrh.
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur, 130. lþ.

[11:14]

Dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég verð að viðurkenna að ég er á þessu stigi ekki undirbúinn undir að svara því sem fyrirspyrjandi var að fjalla um svo tæmandi sé. Ég tel hins vegar að í þessu tilliti fari lögreglan alfarið eftir persónuverndarlögunum eins og henni ber að gera og það sé ekki gert neitt í þessum málaflokki sem er ekki þess eðlis að unnt sé að færa fyrir því lögmætar heimildir og þess vegna eigi í sjálfu sér allt að vera uppi á borðinu varðandi það hvernig farið er með þessi gögn.

Ég tek undir með hv. ræðumanni að viðfangsefnið er brýnna núna en oftast áður vegna þess hve auðvelt er að safna gögnum og vegna þess hve ríkar kröfur er farið að gera til þess að menn leggi fram upplýsingar og gögn varðandi persónulega hagi sína. Ég tek þetta sérstaklega fram t.d. vegna umræðna um breytingar á vegabréfum þegar farið er að tala um að það þurfi svokölluð lífkenni í vegabréf þegar menn eiga annaðhvort að gefa fingraför sín, augngreiningu eða annað slíkt í vegabréf sín, hvernig með slíkar upplýsingar verður farið, t.d. hjá þjóð eins og okkur Íslendingum sem ferðumst mikið og flestir eiga sín vegabréf. Það kemur inn gífurlega mikið magn af upplýsingum sem verða geymdar í gagnagrunni sem á að nota af þeim sem meðhöndla vegabréfin. Hvað um aðgang annarra að slíkum gögnum? Þetta er allt mál sem þarf að ræða og tímabært að gera það og horfa til framtíðar þegar við hugum að þessum hlutum. Ef við tökum ekki þátt í að safna slíkum gögnum eða að skylda borgara okkar til þess að hlíta þeim sjónarmiðum sem ráða þar getum við þrengt að okkur og takmarkað ferðafrelsi okkar. Við stöndum því í þeim sporum að við þurfum að fjalla um þetta á málefnalegan hátt og gera okkur grein fyrir þessu og mér finnst alveg sjálfsagt að þingnefndir geri það. Ég hef lagt fram minnisblað í ríkisstjórninni er varðar gagnasöfnunina út af vegabréfunum og við sjáum líka að í öðrum löndum eru miklar umræður um þetta. Í Bandaríkjunum fara m.a. fram miklar umræður og yfirheyrslur í þinginu um hvernig stofnanir í Bandaríkjunum hafa farið með gögn og menn eru að leiða að því líkur að ef gagnastraumurinn hefði verið greiðari þar hefðu menn kannski getað séð fyrir meira varðandi hryðjuverk o.s.frv. Þetta eru því allt mikil álitamál og ég þakka þingmanni fyrir að reifa þetta. Og þó ég sé ekki tilbúinn til að fara í nákvæmar umræður um þetta að óathuguðu máli held ég að þetta sé brýnt mál sem við þurfum að fjalla um og velta fyrir okkur á Alþingi eins og annars staðar þegar við skoðum þær aðstæður sem við búum við í heiminum á þessum tímum.