Meðferð opinberra mála

Föstudaginn 16. apríl 2004, kl. 11:24:43 (6510)

2004-04-16 11:24:43# 130. lþ. 98.16 fundur 871. mál: #A meðferð opinberra mála# (rannsóknargögn, símhlerun o.fl.) frv. 86/2004, BH
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur, 130. lþ.

[11:24]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Hæstv. forseti. Í því frv. sem hér er lagt fram til breytinga á lögum um meðferð opinberra mála er komið inn á nokkra þætti, eins og hæstv. dómsmrh. rakti áðan. Í upphafi vil ég taka fram að ég hef við skoðun þessa ágæta frv. reynt að átta mig svolítið á þróun þessara laga um meðferð opinberra mála á síðustu árum. Þeim hefur verið breytt óhóflega oft. Ég held að það sé kominn tími til, fyrir löngu síðan þó að þessi lög séu í grunninn ekki gömul, að taka þau til heildarendurskoðunar. (Dómsmrh.: Eru þau barn síns tíma?) Þau eru ekki barn síns tíma en það þyrfti kannski að taka þau upp og stokka svolítið upp á nýtt. Það er erfitt að fara í gegnum þau, mikið af innskotsgreinum og þau eru ólæsileg. Ég held að það sé ekki gott að réttarfarslöggjöf sé óskýr þannig að borgararnir eigi litla möguleika á að átta sig á því hvað lögin í raun þýða.

Ég vík þá að frv. og vil fyrst koma inn á efni 1. gr. þess. Þar er lagt til, hæstv. forseti, að gera breytingar á aðgangi verjanda að gögnum máls þannig að lögreglu sé heimilt að ákveðnum skilyrðum uppfylltum að neita sakborningi um slíkan aðgang eða neita verjanda um slíkan aðgang --- reyndar stendur sakborningi í greinargerð með þessu ákvæði. Það sem mér þykir vert að gera athugasemd við og mjög vafasamt að gera, hæstv. forseti, er að hafa slíka takmörkun ótímabundna í lögum.

Ég vil einnig vekja athygli á því að í greinargerð, í athugasemdum við 1. gr., er þessi breyting mjög illa rökstudd. Um svo viðamikla breytingu segir einungis, með leyfi forseta:

,,Hér er lögð til breyting á aðgangi verjanda að gögnum máls þannig að lögreglu sé heimilt, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, að neita sakborningi um slíkan aðgang. Lögregla metur þetta með tilliti til rannsóknarhagsmuna hverju sinni og hefur hún til þess nokkurt svigrúm.``

Þetta er allt og sumt sem segir um þessa breytingu, virðulegi forseti. Eins og hæstv. dómsmrh. rakti áðan var þetta í fyrri lögum þannig að þetta var heimilt að gera í eina viku. Síðan var hægt að lengja þann frest upp í allt að því þrjár vikur og hefur Hæstiréttur margoft staðfest að það hafi verið eðlilegt. En þegar þessi grein í frv., eins og hún er lögð fyrir hið háa Alþingi, er skoðuð með tilliti til dómafordæma Mannréttindadómstóls Evrópu og mannréttindasáttmála Evrópu þá leyfi ég mér að efast um að slík ótímabundin takmörkun í lögum sé eðlileg.

Réttur sakbornings til þess að fá aðgang að sömu gögnum og ákæruvaldið leiðir af reglunni um jafnræði aðila fyrir dómi. Þegar mið er tekið af dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu þá leikur enginn vafi á því að það er heimilt að synja sakborningi eða verjanda hans tímabundið um aðgang að gögnum á rannsóknarstigi. Það hefur hins vegar ekki verið talið eðlilegt og ekki standast þessar grein að svo sé gert ótímabundið. Þess vegna hefði ég talið, hæstv. forseti, eðlilegra að hafa þarna á tímatakmörkun. Ég velti því fyrir mér hvort einhver brýn þörf sé á því að gera þessa breytingu. Ég mun a.m.k. fara fram á það í hv. allshn. að þetta ákvæði verði skoðað mjög kirfilega með tilliti til þess hvernig ákvæðið muni standast 3. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

Ég hef í sjálfu sér ekki miklar athugasemdir við 2. og 3. gr. lagafrv. Þar er annars vegar um það að ræða að sakborningi verði vikið úr þinghaldi meðan skýrsla vitnis er tekin telji dómari að nærvera sakbornings geti orðið vitninu sérstaklega til íþyngingar. Þar er því bætt við að að hið sama eigi við ef ætla má að öryggi vitnis geti stafað alvarleg ógn af því að sakborningur komist með nærveru sinni í þinghaldi að raun um persónuauðkenni hans. Með þessu er vitnum veitt ákveðin vernd. Ég held að það geti verið mjög skiljanlegar ástæður að baki slíkum breytingum. Auk þess gæti það hugsanlega haft áhrif á skýrslu vitnis ef svo ber undir, ef vitninu stafar ógn af sakborningi og nærveru hans. Ég geri í fljótu bragði ekki athugasemdir við þau ákvæði lagafrv.

[11:30]

Í 5. gr. er kannski verið að gera breytingar sem leiða af breyttri skipan eða breyttu rekstrarfyrirkomulagi fjarskiptafyrirtækja. Áður var talað um yfirvöld en núna er talað um síma- eða fjarskiptafyrirtæki. Það er eðlilegt í ljósi breytts rekstrarfyrirkomulags á fjarskiptafyrirtækjum og virðist eingöngu vera sjálfsögð breyting í kjölfar þess. En sú grein frv. sem ég hef mestar efasemdir um við fyrstu skoðun er 6. gr. Greinin gengur í raun og veru út á það að ef brýn hætta er á að bið eftir dómsúrskurði valdi sakarspjöllum við rannsókn máls er lagt til að handhafi ákæruvalds geti ákveðið að símhlustun og aðrar aðgerðir 86. gr. laga um meðferð opinberra mála hefjist án úrskurðar. Reyndar er gert að skilyrði að sá sem ákvörðun tekur leggi málið fyrir dómara innan sólarhrings frá ákvörðuninni.

Þetta hefur verið þannig að ekki hefur verið heimilt að leyfa hleranir nema að undangengnum dómsúrskurði og mér sýnist að því hafi verið breytt, það hafi verið smuga áður í lögunum til að gera þetta án undangengins dómsúrskurðar í tilteknum tilvikum. Árið 1999 er þessu hins vegar breytt og lagt til aftur að alltaf þurfi undangenginn dómsúrskurð áður en hleranir eru leyfðar.

Hæstv. forseti. Ég hef fullan skilning á því að það geti verið mjög brýnt að grípa til slíkra aðgerða til þess að upplýsa mál og gera það mjög snögglega. En mér er sagt að þegar óskað er eftir dómsúrskurði fyrir slíkum aðgerðum sé biðin eftir slíkum úrskurði yfirleitt ekki lengri en sólarhringur, (Gripið fram í.) að það sé sólarhringsvakt til þess að verða við slíkum beiðnum. Þetta er það sem ég hef grafist fyrir um og kann vel að vera að einhver dæmi séu um annað, en þá hlýtur að vakna sú spurning hver neyðin sé sem skapist á þessum eina sólarhring.

Ég verð líka að segja, virðulegi forseti, að mér þykir rökstuðningurinn í greinargerð með þessu ákvæði vera svolítið undarlegur. Þar er sagt, með leyfi forseta:

,,Ástæður tillögunnar eru fyrst og fremst þær að reynsla undanfarinna ára og ný tækni í fjarskiptum með símum án beintenginga hefur leitt til fleiri símhlustana en áður.`` --- Og þá væntanlega af hálfu lögreglu og þeirra sem eru að reyna að upplýsa mál. --- ,,Þá hafa tíð skipti á símum og númerum hjá þeim sem sæta hlustun orðið til þess að réttarspjöll hafa orðið.``

Við megum aldrei gleyma því, virðulegur forseti, að þó að ný tækni hafi gert það kleift í ríkari mæli en áður að hlusta eða hlera símtöl þá er ekki þar með sagt að það sé endilega það rétta að gera það nema þá að undangengnum dómsúrskurði. Það er ákveðinn öryggisventill sem við höfum með dómsúrskurðinum. Mér finnst tæknibreytingin sem hefur leitt til þess að fleiri hlustanir hafa verið framkvæmdar en áður í raun og veru ekki vera rök fyrir því að heimila eigi þær í víðtækari mæli en áður án dómsúrskurðar, og sérstaklega ekki í ljósi þess, ef það er rétt sem mér hefur verið sagt, að það taki yfirleitt mjög skamman tíma að fá slíkan dómsúrskurð.

Ég vil líka, hæstv. forseti, máli mínu til stuðnings vísa í athugasemdir við 25. gr. frv. til laga, nr. 19/1991, um breyting á lögum um meðferð opinberra mála, og er einmitt breyting á ákvæðinu um hleranir. Eins og ég vitnaði til áðan var smuga á því áður að heimila hleranir án dómsúrskurðar en það var tekið fyrir það með þessari breytingu. Þar segir, með leyfi forseta, í athugasemdum við 25. gr. þar sem gerð var breyting á 1. mgr. 87. gr. laganna:

,,Lagt er til að sú breyting verði gerð á 1. mgr. 87. gr. laga um meðferð opinberra mála að lögregla og aðrir rannsóknaraðilar þurfi framvegis undantekningalaust að afla dómsúrskurðar til þess að hlera síma og önnur fjarskiptatæki og þar með taka upp símtöl og önnur fjarskipti í þágu rannsóknar opinbers máls án þess að þeir sem í hlut eiga viti af því, sbr. a-lið 86. gr. laganna. Samkvæmt gildandi lögum nægir samþykki umráðamanns og eiginlegs notanda síma eða fjarskiptatækis til þess að unnt sé að taka upp símtöl eða önnur fjarskipti í þágu rannsóknar. Þar eð aðgerðir sem þessar hafa í för sér mjög verulega skerðingu á friðhelgi einkalífs, sem m.a. er lýst friðheilagt í 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, er eðlilegt að dómsúrskurð þurfi jafnan til þeirra til þess að koma í veg fyrir að þær séu misnotaðar. Öðru máli gegnir hins vegar um það þegar einungis er aflað upplýsinga um símtöl við tiltekinn síma eða fjarskipti við tiltekið fjarskiptatæki, ...``

Virðulegi forseti. Ég hef fullan skilning á því að það geti verið brýn þörf hjá lögreglu eða ákæruvaldi til þess að grípa til aðgerða á borð við þessa. En ef biðin er ekki lengri en þetta, ef það er sólarhringsvakt, er að mínu mati mjög varhugavert að fara yfir þennan þröskuld vegna þess að við vitum auðvitað að í aðgerðum á borð við þessar, þó að ævinlega séu framkvæmdar í göfugum tilgangi, ég efast ekkert um það, felst hætta sem stafar af því að þær séu misnotaðar. Það er alltaf hætta og það er það sem við eigum að vernda borgarana fyrir með því að fela dómurum þetta mat og geti þeir gert það innan tiltölulega skamms tíma frá því að slík beiðni kemur fram þá spyr ég hver þörfin sé og hvað það sé sem kalli svo gríðarlega á að þessi breyting sé gerð og við förum þar með í raun og veru að ógna þessum þætti í friðhelgi einkalífs og bjóða kannski hættunni heim, þó að sem betur fer sé það væntanlega undantekning.

Vitnað er til þess í greinargerðinni að ástæðan fyrir breytingunni sé m.a. sú að þeir sem fremja slík brot sjái við hlerunum á símum með því að skipta oft um síma. Ég leyfi mér að efast um að það sé gert margsinnis á sólarhring en það kann að vera, maður þekkir kannski ekki það vel til í undirheimum glæpanna. En ég geld mjög mikinn varhuga við þessu, virðulegur forseti, og efast stórlega um að það sé tilefni til þess í því umhverfi sem við búum við í dag að veita þessa heimild, hleranir án undangengins dómsúrskurðar, og sérstaklega í ljósi þess skamma tíma sem dómstólar hafa getað brugðist við slíkum beiðnum.