Meðferð opinberra mála

Föstudaginn 16. apríl 2004, kl. 12:08:21 (6514)

2004-04-16 12:08:21# 130. lþ. 98.16 fundur 871. mál: #A meðferð opinberra mála# (rannsóknargögn, símhlerun o.fl.) frv. 86/2004, dómsmrh.
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur, 130. lþ.

[12:08]

Dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég þakka þessar góðu umræður og sérstaklega síðasta ræðumanni, hv. þm. Guðmundi Árna Stefánssyni, fyrir ræðu hans. Ég held að hann hafi nálgast viðfangsefnið á þeim forsendum sem eru nauðsynlegar þegar menn fjalla um þetta mál. Frumvarpið tekur að sjálfsögðu mið af þeim breytingum sem eru á þjóðfélagi okkar og þeim aðgerðum sem taldar eru nauðsynlegar til að standast þeim snúning sem reyna að brjóta lögin og fremja mismunandi alvarleg glæpaverk. Það er af þeim sökum sem frv. er lagt fram og þær breytingar sem hér eru til umræðu.

Ég skil líka mætavel, eins og hugur minn hefur verið í þessum málum, að hv. þingmenn staldri sérstaklega við 1. gr. frv. og 6. gr. frv. Það er eðlilegt að menn velti fyrir sér nauðsyn þess að setja þetta í lög og breyta ákvæðunum á þann veg sem lagt er til. En eftir að ég hafði farið í gegnum þetta og hlustað á þær skýringar sem ég fékk á málinu var ég sannfærður um nauðsyn þess að leggja frv. fram til umræðu í þinginu og meðferðar í hv. allshn. Ég tek undir með hv. þm. Guðmundi Árna Stefánssyni þegar hann segir að það sé mjög brýnt fyrir nefndina að fá til fundar við sig þá menn sem geta upplýst um þessi mál meira og betur en ég er fær um í ræðustól og kannski æskilegt að menn geri í þessum ræðustól. Hins vegar er eðlilegt að þingmenn fái upplýsingar innan veggja þingnefndarinnar og í umræðum í þingnefnd þar sem unnt er að kalla til sérfræðinga til að fara yfir þessa þætti. Sérstaklega held ég að það sé fróðlegt og gagnlegt fyrir hv. þingmenn og nefndarmenn að kynna sér það varðandi 6. gr. frv. þegar rætt er um símhlustunina og þær breytingar sem þar eru lagðar til.

Eins og hv. þingmenn hafa nefnt gera núverandi lagaákvæði mönnum kleift að hlusta og hlera ákveðin númer. Í frv. er vakið máls á því að það er kannski ekki ákveðið númer heldur ákveðinn einstaklingur sem skiptir um síma og fer það hratt yfir sviðið að það spilli, eins og segir í lagagreininni, með leyfi forseta:

,,Ef brýn hætta er á að bið eftir úrskurði valdi sakarspjöllum,`` --- Það eru mjög skýr skilyrði --- ,,getur handhafi ákæruvalds ákveðið að aðgerðir [...] hefjist án dómsúrskurðar.``

Það er rannsókn í gangi, það er ákveðið ferli sem er komið af stað og ef menn standa frammi fyrir því að brýn hætta sé á því að bið eftir úrskurði valdi sakarspjöllum er hægt að fara þessa leið innan þessara marka og fara svo til dómara innan sólarhrings. Síðan hefur dómarinn sérstaka tilkynningarskyldu til dómsmrh. sem veldur því, að mínu áliti, að þingið getur spurt um þetta. Dómsmrh. er ábyrgur gagnvart þinginu og það er opnuð leið til eftirlits með því að fela dómsmrh. þessa ábyrgð.

Það er líka hægt að hugsa sér að þetta yrði orðað með öðrum hætti, að ríkissaksóknari ætti að fá tilkynningarnar eða hvernig sem það yrði. Það eru álitamál sem nefndin getur að sjálfsögðu fjallað um og vafalaust mismunandi hugmyndir um þau, en aðalatriðið er að þetta sé sveigjanlegt. Eins og fram hefur komið er þetta kannski ekki spurning um sólarhringa eða klukkutíma, þetta er spurning um eitthvert ferli sem er í gangi og þá er brýn hætta á því að bið eftir úrskurði valdi sakarspjöllum. Þetta verður að vera forsendan, að brýn hætta sé á því að biðin eftir úrskurðinum valdi sakarspjöllum við rannsókn ákveðins máls. Þetta finnst mér nauðsynlegt að menn hafi í huga og einnig náttúrlega, eins og ég sagði, þessa nýju tækni sem er komin þar sem menn skipta um símkort og síma og haga sér á þann veg sem ég ætla ekki að fjalla um. Ég ætla ekki að vera með neina kennslustund í því hvaða aðferðum menn geta beitt í þessu.

Ég vil hins vegar taka undir með hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni þegar hann spyr: Er ekki öruggt að menn fylgi ákvæðum laga um meðferð opinberra mála varðandi þær tilkynningarskyldur sem menn hafa þegar símhlerun er og tilkynni mönnum að henni sé lokið? Í lagagreininni segir að þetta skuli gert og ég geng út frá því að menn fari að lögum í því efni og við það sé staðið. Ég hef engar forsendur til þess að segja annað. Það hafa ekki komið neinar kvartanir á mitt borð á þeim tíma sem ég hef borið ábyrgð á þessum málaflokkum um að menn telji að fram hjá þessum lagaákvæðum sé gengið. Í lögunum er hins vegar engin tilkynningarskylda til dómsmrh. varðandi þennan þátt eins og er sett inn í ákvæðið, sem sýnir að það er meira varnaglaákvæði í þessari grein en hinni, en ég tel að þetta hljóti alltaf að vera gert. Ef það er ekki gert er það náttúrlega dómstólanna og annarra að fara með það og ég tek undir með þingmanninum um nauðsyn þess að þessara atriða sé gætt.

Ég lýsi fullum skilningi á þeim sjónarmiðum sem hér hafa komið fram varðandi einstakar greinar frv. og skil að menn staldri sérstaklega við 1. og 6. gr., en ég tel að málið eigi að skýrast og upplýsast í allshn. og vona svo sannarlega að það nái fram að ganga.

Ég vil taka það fram að ég var í upphafi vikunnar á landsþingi Landssambands lögreglumanna, en því lauk í gær. Þar var samþykkt ályktun þar sem fullum stuðningi er lýst við þessar breytingar og ég varð var við það á þinginu og hef orðið var við það í samtölum við forustumenn Landssambands lögreglumanna að þeir leggja mikla áherslu á að frv. nái fram að ganga til þess að gera lögreglumönnum kleift að sinna störfum sínum, auðvitað innan þeirra marka sem lögin setja og með þeirri ábyrgð sem lögreglumenn bera. Eins og við vitum eru fáar stofnanir í þjóðfélaginu sem almenningur ber meira traust til en einmitt lögreglan. Það stafar af því að lögreglan fer fram af heiðarleika, festu og öryggi í störfum sínum og að sjálfsögðu mun hún gera það líka varðandi þá þætti sem við ræðum hér, verði þeir að lögum.