Einkamálalög og þjóðlendulög

Föstudaginn 16. apríl 2004, kl. 12:15:15 (6515)

2004-04-16 12:15:15# 130. lþ. 98.17 fundur 872. mál: #A einkamálalög og þjóðlendulög# (gjafsókn) frv., dómsmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur, 130. lþ.

[12:15]

Dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breyting á lögum um meðferð einkamála, nr. 91/1991, og lögum um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta, nr. 58/1998. Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ákvæðum laga um meðferð einkamála um skilyrði gjafsóknar.

Gert er ráð fyrir að gjafsóknarheimildir byggi á því grundvallaratriði að efnalítið fólk geti leitað réttar síns fyrir dómstólum. Einnig verði á því byggt að nægilegt tilefni sé til málshöfðunar og að eðlilegt megi teljast að málsóknin sé kostuð af almannafé. Fellt verði brott ákvæði um að gjafsókn sé hægt að veita þegar úrlausn máls hefur svokallað almennt gildi, en það skilyrði hefur afar víðtæka skírskotun og þykir ekki forsvaranlegt að málshöfðun einstaklings af almannafé sé kostuð á grundvelli svo almenns ákvæðis.

Þá er í frumvarpinu lögð til breyting á reglugerðarheimild þannig að skýrt sé að dómsmrh. geti kveðið nánar á um skilyrði gjafsóknar í reglugerð.

Í athugasemdum um 2. gr. frv. eru rakin þau tilvik þar sem óeðlilegt getur talist að einstaklingi sé veitt gjafsókn í máli gegn öðrum ef málstilefnið er hæpið, svo sem ef mál er milli nákominna þar sem málsefnið er þess eðlis að ekki sé eðlilegt að reka það fyrir dómstólum.

Að gefnu tilefni skal tekið fram að frumvarpinu er ekki ætlað að breyta neinu varðandi gjafsókn í sifjamálum, séu hin almennu skilyrði gjafsóknar uppfyllt og á greinargerðin ekki við þau mál sérstaklega. Greinargerðin vísar t.d. til mála þar sem nákomnir aðilar sækja um gjafsókn vegna þrætumála og mála sem almennt yrðu talin næsta þarflaus.

Jafnframt er í frumvarpinu lögð til breyting á lögum um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda þjóðlendna og afrétta til að tryggja að eigendur jarða séu jafnsettir vegna þjóðlendulaga fyrir og eftir gildistöku laganna, verði þau samþykkt.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allshn. og 2. umr.