Einkamálalög og þjóðlendulög

Föstudaginn 16. apríl 2004, kl. 12:17:19 (6516)

2004-04-16 12:17:19# 130. lþ. 98.17 fundur 872. mál: #A einkamálalög og þjóðlendulög# (gjafsókn) frv., KolH
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur, 130. lþ.

[12:17]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Málið sem hér um ræðir þarfnast auðvitað nákvæmrar skoðunar. Í því eru atriði sem mér virðast orka tvímælis. Þau er að finna í 1. gr. frv. og lúta að þeirri þrengingu sem í ákvæðinu felst varðandi möguleika fólks á gjafsókn sem greidd yrði af opinberu fé.

Mér þykja, virðulegur forseti, þær breytingar ekki nægilega vel rökstuddar í greinargerð með frv. Ég hefði viljað sjá nánari rökstuðning og tel að í þessu sambandi þurfi að skoða hver venjan er eða hvaða reglur eða lög gilda í nágrannalöndum okkar þannig að við getum séð hvort hér séu lög færð til samræmis við þau lönd sem við berum okkur saman við eða hvort hér búi eitthvað annað að baki.

Það kemur því miður ekki fram í umsögn fjmrn. með frv. hversu háar upphæðir er um að ræða. Það er ljóst að verði af þessum breytingum þá verði einhver fækkun á veitingu gjafsóknar og útgjöld vegna þeirra komi til með að aukast minna en verið hefur undanfarin ár.

Herra forseti. Þetta orðalag gefur til kynna að gjafsóknir hafi verið að aukast og kostnaður vegna þeirra. Ég tel að það sé fullkomlega eðlilegt við þessa umræðu að við fáum að heyra vangaveltur hæstv. ráðherra um hvers vegna slík aukning hefur átt sér stað og hvort leitað hafi verið eftir ástæðum þess eða verið skoðað hvers konar mál það eru sem fara í gjafsókn í auknum mæli. Er þá eitthvað óeðlilegt að slík mál sem hafa verulega almenna þýðingu fari þá leið?

Ég sé ekki annað en að gjafsókn hafi hingað til leitt af sér úrlausnir í málum sem hafa almenna þýðingu. Þannig hefur löggjafinn hugsað málið. Ég sé ekki að slík breyting komi til með að leiða til annars en að þeim málum fækki sem rekin verða fyrir dómstólum þar sem fólk er ekki fullkomlega öruggt í sinni sök um að það geti látið þá fjármuni af hendi rakna til málsins sem þarf. Um leið fáum við kannski ekki úrlausn í álitamálum sem hingað til hefur verið hægt að leita eftir.

Virðulegi forseti. Ég hef ákveðnar efasemdir um að þessi þrenging sé réttmæt eða eðlileg. Hitt er svo alveg eðlilegt, að ef af þessari þrengingu verður sé það tryggt að breytingin á lögum um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda og þjóðlendna og afrétta nái fram að ganga. Þar verður að sjálfsögðu að gæta jafnræðisreglu, þar sem endurskoðun á mörkum eignarlanda og ákvörðunum um þjóðlendur stendur yfir. Sú athugun er einungis farin af stað á takmörkuðu svæði og fyrirsjáanlega á eftir að skoða þau mál betur víða á landinu. Það er ljóst að þar verður að gæta jafnræðisreglu ef sú breyting sem hér er lögð til nær fram að ganga.

Að sjálfsögðu verður þetta skoðað vel í allshn. þingsins. Þar af leiðandi geri ég ráð fyrir að gögn um framkvæmd þessara mála hingað til verði lögð fram og geri ráð fyrir að farið verði ofan í saumana á því hvort um eðlilega og réttláta breytingu sé að ræða.