Veðurþjónusta

Föstudaginn 16. apríl 2004, kl. 12:53:01 (6523)

2004-04-16 12:53:01# 130. lþ. 98.18 fundur 784. mál: #A veðurþjónusta# frv., umhvrh.
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur, 130. lþ.

[12:53]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir þessar umræður. Mér virðist sem að almennt séu alþingismenn á því að þetta sé gott mál og menn vilji skoða það í nefnd, sem ég tel líka mjög eðlilegt. Þetta verður auðvitað sent til umsagnar og menn fá viðbrögð inn í umhvn.

Hér hafa borist spurningar varðandi 10. og 11. gr., sérstaklega að því sem lýtur að veðurþjónustu fyrir sjómenn. Ég bendi á að í 6. gr. er það skilgreint sem grunnþjónusta að veita öryggisþjónustu vegna veðurs í landi, í lofti og á legi. Ég á því ekki von á því að sérstakar breytingar séu í vændum á því sviði en það er auðvitað eðlilegt að nefndin skoði það betur.

Í 10. gr. er talað um að reka sérþjónustuna sem sjálfstæða einingu sem eigi að vera fjárhagslega aðskilin frá annarri starfsemi. Það er einmitt samkvæmt ábendingum frá Samkeppnisstofnun og Ríkisendurskoðun. Við erum að bregðast við þeim. Fyrir þessa sérþjónustu, sem ekki telst grunnþjónusta, á að rukka raungjald. En fyrir þær upplýsingar sem ekki þarf að sérvinna fyrir aðila sem vilja kaupa sérþjónustu er bara tekið svokallað afhendingargjald, mjög lágt gjald. Því má segja að allt sem veðurþjónustan er að framleiða verður í almannaeign eða ,,public domain``. Við erum að fikra okkur inn í þetta ameríska kerfi sem ég held að sé mjög gott fyrir íslenska þjóð og íslenska neytendur.