Veðurþjónusta

Föstudaginn 16. apríl 2004, kl. 13:03:10 (6530)

2004-04-16 13:03:10# 130. lþ. 98.18 fundur 784. mál: #A veðurþjónusta# frv., MÁ
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur, 130. lþ.

[13:03]

Mörður Árnason:

Forseti. Ég ætlaði ekki að skipta mér mikið af umræðunni vegna þess að mér finnst eðlilegt að við tökum til starfa með frv. í nefnd. Ég vil þó segja í tilefni af því sem hér hefur komið fram að ég les frv. svo að skilgreining grunnþjónustunnar sé áfram nokkuð víð. Ekki bara vegna þess að ég tel að ráðherrann eða nefndin sem þetta samdi sé þeirrar skoðunar eða hafi þær hugmyndir, heldur vegna þess að hér stendur beinlínis í skilgreiningargreininni um sérþjónustuna, sem á að aðskilja, að hún sé veðurþjónusta sem ekki fellur undir grunnþjónustu, sem hefur svo aðra skilgreiningu. Hér er átt við þjónustu við fyrirtæki, stofnanir eða einstaklinga sem felst í gagnaafhendingu, sérhæfðri vinnslu, ráðgjöf eða túlkun gagna. Hin almenna öryggisþjónusta, t.d. við sjómenn, bændur og aðra atvinnuvegi sem eiga sitt undir veðri og vindum meira en aðrir, ég sé ekki hvernig hægt er að lesa hana inn í 7. lið.

Eins er með hinar almennu grunnupplýsingar um veðurspár á Íslandi í einstökum landshlutum sem skipulegir geta kallast og eru inngrónir í Íslendingshuginn rétt eins og stafrófið eða landshlutaskiptingin, það getur ekki fallið undir þetta þannig að við getum áfram hringt í Veðurstofuna eða athugað á skjánum hvað segir í vedur.is um ýmsa slíka hluti. Hér er átt við sérhæfða þjónustu við ákveðna aðila sem þurfa á sérhæfðum upplýsingum að halda og ég geri ráð fyrir að þetta taki líka til veðurfrétta eða veðurþjónustu í einstökum fjölmiðlum sem eiga að geta borgað fyrir það eins og annað.

Ég vil segja um þjónustu Landhelgisgæslunnar, Siglingastofnunar o.s.frv. að samvinna þessara opinberu stofnana er sjálfsögð. En það kann vel að vera að það eigi að fara betur í gegnum það hvort það eigi að borga fyrir þá þjónustu á fjárlagaliðum Veðurstofunnar en ekki á öðrum fjárlagaliðum. Það er matsmál í hvert skipti og í samræmi við þær breytingar til betri opinbers rekstrar sem hafa verið í þessu landi og öðrum á síðustu 15--20 árum og menn hafa verið nokkuð sammála um. Ég sé ekki að það séu einhver viðtekin sjónarmið markaðsvæðingarinnar eins og hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir nefndi áðan.

Ég er ekki vanur að verja hæstv. umhvrh. eða það sem hún gerir. Í fyrsta lagi er hæstv. ráðherra ágætlega fær um það sjálf og í öðru lagi hefur mér líkað frekar tómlega við ýmislegt sem ég hef séð frá henni í vetur. En ég vil segja að þetta frv. er ágætt frv., grunnhugmynd þess er mjög skýr. Hún er sú að það sé ákveðin opinber þjónusta sem almannavaldið sér um og veitir. Almannavaldið sé hins vegar ekki að keppa við fyrirtæki eða einstaklinga í rekstri á markaði og þannig komum við þessu fyrir. Ég sé ekki betur en þennan skilning eigi að leggja í frv. Það eigi líka að leggja þann skilning í frv., eins og ég sagði áðan, að grunnþjónustan sé skilgreind nokkuð vítt og ég bið hæstv. umhvrh. að koma hér upp á eftir mér ef hún er ekki sammála þessu.