Veðurþjónusta

Föstudaginn 16. apríl 2004, kl. 13:07:08 (6531)

2004-04-16 13:07:08# 130. lþ. 98.18 fundur 784. mál: #A veðurþjónusta# frv., GAK
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur, 130. lþ.

[13:07]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Í frv. er lagt til að fara í ákveðnar kostnaðargreiningar og gjaldtökur.

Það hefur oft verið rætt um stöðu Landhelgisgæslunnar og rekstur hennar í þessum sölum. Landhelgisgæslunni eru iðulega falin alls konar verkefni sem eru að stórum hluta upplýsingar, þátttaka í upplýsingaöflun eða viðbrögðum án þess að nokkurn tíma sé gert ráð fyrir því að það kosti eitthvað og þurfi að greiða fyrir það.

Ef setja á upp það form að ákveðin þjónusta Veðurstofunnar skuli seld út á kostnaðarverði hlýtur sú spurning að vakna sem ég hef vikið að áður: Hvernig eru kostnaðargreiðslur fyrir þær upplýsingar sem Veðurstofan sækir til annarra? (Gripið fram í.) Þetta getur ekki alltaf verið á annan veginn. Ég held að það þurfi að fara að svara því og skoða mjög vandlega með hvaða hætti það er gert.

Ég vil einnig koma að því sem hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir vék að áðan varðandi hlýnun í heimshluta okkar, hlýnun sjávar og þar af leiðandi væntanlega minni hafísútbreiðslu. Hafrannsóknastofnun hefur fylgst með rannsóknum á útbreiðslu hlýsjávar og kaldsjávar hér við land og sjógerða, en allt eru þetta veðurfarslegar upplýsingar. Nútímarannsóknir í veðurfræði hafa sýnt fram á að hafið og breytingar á hafinu, straumum þess og hitaútbreiðslu er miklu meiri áhrifavaldur á veður og veðurhjúp jarðar en menn gerðu áður ráð fyrir. Menn eru að átta sig á því að breytingarnar í hafinu hafa síðar afgerandi áhrif á breytingar veðurfars í veröldinni.

Það er því að mörgu að hyggja á næstu árum, sérstaklega ef það reynist vera rétt sem vísindamenn spá, að hafið t.d. milli Íslands og Grænlands fari að verða íslaust meiri hluta árs og breytingar geti orðið verulegar. Allt mun þetta hafa áhrif á veðurfar hér á landi. Þar kemur því upp einn annar samstarfsflötur sem menn þurfa að taka mið af og er ástæða til að ræða mikið nánar en við gerum nú í 1. umr. en við fáum tækifæri til þess síðar. Ég held að það sé alveg rétt ábending sem hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir vék að áðan varðandi vöktun á breytilegu hitafari í lofthjúpi jarðar, sem er nátengt því sem mun verða á hafsvæðunum á norðurhveli jarðar. Þar er spáð miklu örari breytingum en menn hafa áður gert sér grein fyrir og að breytingarnar verði bæði fljótari og meiri en gert var ráð fyrir fyrir aðeins örfáum árum. Þess vegna er margt sem snýr að störfum Veðurstofunnar og það mun örugglega þurfa að koma inn öðruvísi vöktun, kostnaðarsamari vöktun og breytt eftirlit með breytingum á hafsvæðum okkar.