Erfðafjárskattur

Föstudaginn 16. apríl 2004, kl. 13:55:58 (6537)

2004-04-16 13:55:58# 130. lþ. 99.1 fundur 924. mál: #A erfðafjárskattur# (lagaskil) frv. 15/2004, Frsm. meiri hluta PHB
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 130. lþ.

[13:55]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frv. til laga um breytingu á lögum nr. 14/2004, um erfðafjárskatt, sem er að finna á þskj. 1424 frá efh.- og viðskn.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Skúla Magnússon mag. jur., Steinunni Guðbjartsdóttur hdl. og Ingva Má Pálsson frá fjármálaráðuneyti.

Líkt og kemur fram í greinargerð með frumvarpinu er það lagt fram í þeim tilgangi að taka af allan vafa varðandi lagaskil milli yngri og eldri laga sem og til fyllingar á gildistökuákvæði laga nr. 14/2004.

Vandinn sem um er að ræða er sá að samkvæmt nýju lögunum skal erfðafjárskattur miðast við dánardægur þess sem fellur frá en ekki uppgjör þegar skiptum er lokið. Enn fremur er sagt að þeir sem heimild hafa til að sitja í óskiptu búi við gildistökuna skuli greiða skatt samkvæmt nýju lögunum og jafnframt falla gömlu lögin úr gildi.

Það getur komið upp, herra forseti, að maður falli frá fyrir gildistöku laganna, að ekki sé búið að gera upp búið og ekki til staðar heimild til að sitja í óskiptu búi, þá á að greiða skatt þegar kemur að skiptum, þegar búið er að skipta búinu. Það getur orðið eftir gildistöku nýju laganna. Þá á að gera upp samkvæmt gömlu lögunum sem verða fallin úr gildi. Menn eru að glíma við að leysa þetta vandamál. Það er talið að með gagnályktun geti menn ályktað að gömlu lögin gildi enda engum öðrum lögum til að dreifa. En til að taka af öll tvímæli og allan vafa þá er lögð til sú breyting sem í frv. felst, til að taka á vanda þeirra þar sem skiptum er ekki lokið og arfláti lést fyrir gildistöku laganna.

Í umræðu um málið í nefndinni kom fram athugasemd varðandi orðalag 3. málsl. 21. gr. laganna þar sem segir:

,,Lögin taka einnig til búskipta þeirra er hafa heimild til setu í óskiptu búi fari þau fram eftir gildistöku laganna.``

Nefndarmenn telja að í upphafi hefði verið betra að segja: ,,Lög þessi``, af því að lögin geta bæði verið eintala og fleirtala, þ.e. svo að skýrt sé að átt sé við lög nr. 214/2004. Nefndin telur ekki ástæðu til að gera neinar breytingar vegna þessa enda megi vera ljóst af lestri málsliðarins og samhengi við greinina í heild sinni að þar sé átt við lög nr. 14/2004 en ekki eldri lögin. Nefndin leggur til að frv. verði samþykkt óbreytt.

Gunnar Örlygsson sat fund nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er hann samþykkur áliti þessu.

Hv. þm. Össur Skarphéðinsson, Jóhanna Sigurðardóttir og Valdimar L. Friðriksson skrifa undir álit þetta með fyrirvara og áskilja sér rétt til að koma fram með og styðja brtt. við frv.

Undir nefndarálitið rita auk mín hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, Sigurður Kári Kristjánsson, Gunnar Birgisson, Dagný Jónsdóttir, Össur Skarphéðinsson, með fyrirvara, Jóhanna Sigurðardóttir, með fyrirvara, Valdimar L. Friðriksson, með fyrirvara, og Steingrímur J. Sigfússon.