Erfðafjárskattur

Föstudaginn 16. apríl 2004, kl. 13:59:50 (6538)

2004-04-16 13:59:50# 130. lþ. 99.1 fundur 924. mál: #A erfðafjárskattur# (lagaskil) frv. 15/2004, ÖS
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 130. lþ.

[13:59]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Það er óneitanlega svolítið skrýtið að við skulum standa í þeim sporum að þurfa að samþykkja breytingar á lögum sem við vorum að ljúka rétt fyrir páska. Ég hef svolitlar efasemdir um að nauðsynlegt hafi verið að ráðast í þessa breytingu en hún fellur víst undir það sem ég hafði aldrei vitað að væri til en heitir lagafylling. Það var upplýst af sérfræðingum sem komu til máls við nefndina.

Ég vil að það komi skýrt fram að við í Samf. og stjórnarandstöðunni styðjum þessa breytingu. Ég vil vekja athygli á því að við veittum afbrigði til að greiða fyrir samþykkt málsins.

Ég verð að segja, herra forseti, að ég hefði viljað að sami skilningur og við sýndum félögum okkar í meiri hlutanum, og birtist í þeirri atkvæðagreiðslu, hefði komið fram varðandi ákaflega smátt atriði sem við lögðum til að tekið yrði til skoðunar við þessa breytingu. Það varðar hlut barna sem missa foreldra sína og þurfa að sæta því að greiða erfðafjárskatt. Við töldum að við sérstakar aðstæður gætu komið upp erfiðleikar hjá börnum vegna þessa máls og vildum leita samstöðu um að finna leiðir til að framkvæmdarvaldið hefði heimild til að skjóta slíkum tilfellum fram hjá þessum lögum, þ.e. að í tilviki þessara barna yrði veittur frestur á greiðslu erfðafjárskatts.

Það liggur fyrir að hér væri um örfá tilvik að ræða og einungis þegar verulega slæmt ástand ríkti. Því miður koma svona tilvik upp og við höfum dæmi um það.

Skemmst er frá því að segja að við umræður í nefndinni var ekki skilningur á því að koma til móts við okkur varðandi þetta ákvæði með því að breyta lögum um erfðafjárskatt. Ég vil hins vegar að það komi fram að af hálfu einstakra nefndarmanna í meiri hlutanum var bent á leiðir til að tryggja hlut þeirra barna sem hér um ræðir með því að íhuga breytingar á öðrum lögum.

Í trausti þess að þessir nefndarmenn, hinn framsóknarvæni hluti nefndarinnar sem tók vel í þetta, legðu okkur sem höfðum áhuga á þessu máli lið og hjálpuðu við að ráðast í að skoða þessar breytingar og síðan að leggja þær fyrir hið háa Alþingi, lögðumst við ekki gegn afgreiðslu þessa máls og styðjum það.

Ég segi það aftur, herra forseti, að mikið skelfing vildi ég að hv. formaður nefndarinnar, Pétur H. Blöndal, hefði sama skilning á því að ganga til móts við minni hlutann í nefndinni eins og við höfum jafnan þegar á þarf að halda og um er að ræða réttlætismál.