Erfðafjárskattur

Föstudaginn 16. apríl 2004, kl. 14:08:37 (6541)

2004-04-16 14:08:37# 130. lþ. 99.1 fundur 924. mál: #A erfðafjárskattur# (lagaskil) frv. 15/2004, ÖS
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 130. lþ.

[14:08]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Það er af virðingu fyrir þinginu og ekki síst virðulegum forseta að ég vil ekki fara með þau orð sem mér finnast hæfa ræðu hv. formanns efh.- og viðskn. Virðulegi forseti. Á ferli mínum í þinginu, sem er að verða 12--13 ár, hef ég aldrei kynnst verklagi nokkurs formanns nokkurrar nefndar eins og hv. þm. Péturs H. Blöndals. Ég hef aldrei kynnst því áður að menn legðu sig beinlínis í framkróka til þess að skapa úlfúð, skapa spennu og draga úr samvinnu milli meiri hluta og minni hluta í nokkurri nefnd eins og hv. þm. virðist beinlínis leggja sig fram um hvað eftir annað.

Í þessu tilviki, eins og hæstv. forseta er kunnugt um, erum við að skjóta byttu undir leka sem glöggir menn fundu á lögum þeim sem urðu að veruleika skömmu fyrir páska. Segja mætti að ef einhver einn maður bæri ábyrgð á því að nefndin, við rannsókn málsins, fann ekki þennan ágalla þá væri það hv. formaður Pétur H. Blöndal. Við í stjórnarandstöðunni --- ég ætti frekar að segja, við í Samf. --- höfðum ákveðnar skoðanir á því hvað ætti að ræða um í tengslum við breytinguna á þessum lögum. Okkur hefði verið í lófa lagið, í krafti þingstyrks okkar á hinu háa Alþingi, að koma í veg fyrir það og gera það hv. formanni til háðungar og vinnubrögðum hans að samþykkja ekki þessi afbrigði. Við hins vegar komum málefnalega að þessu máli. Það ríkti ákveðinn vafi á því að lögin eins og við samþykktum þau væru fullkomlega held.

Við í stjórnarandstöðunni tökum að okkur hluta þeirrar ábyrgðar sem því fylgir. Þess vegna samþykktum við þetta. Ég held að það sé ástæðulaust fyrir hv. þm. Pétur H. Blöndal að fara á límingunum eða missa taugakerfið úr sambandi, eins og mér fannst gerast í ræðu hans áðan eftir að hafa bersýnilega tapað, a.m.k. í huga sínum, þeirri rökræðu sem spannst um þetta sjálfsagða mál varðandi fátæk börn, og láta eins og hann lét.

Ég velti fyrir mér, herra forseti, hvers konar hjarta það er sem slær í brjósti hv. þm. Ég held að það sé úr steini. Hvað eftir annað hefur hv. þm. talað með þeim hætti að maður veltir því fyrir sér hverra hag hann ber fyrir brjósti. Ég ætla ekki að rifja upp þau orð sem hv. þm. hefur látið sér sæma að hafa uppi um hag þeirra sem örsnauðir eru í hópi aldraðra Íslendinga. Við munum það öll sem á þingi sitjum hvaða skýringar hv. þm. fann á því.

Nú er það svo, virðulegi forseti, að ég sem nefndarmaður í efh.- og viðskn. kom því með formlegum hætti í bréfi á framfæri við nefndina að tiltekin léttvæg atriði yrðu skoðuð. Ég gerði það vegna þess að ég þekki praktísk dæmi. Ég þekki dæmi úr reynsluheimi okkar síðustu mánuði þar sem svona atvik hefur komið upp. Ég veit að það eru fleiri þingmenn sem þekkja það. En hv. þm., formaður efh.- og viðskn., sýndi meðnefndarmönnum sínum ekki einu sinni þann sóma að láta þess getið að einn þingmanna í efh.- og viðskn. hefði óskað eftir umræðu um þetta mál.

Virðulegi forseti. Ég fór ekki fram á það að nefndin yrði sammála mér. Ég fór einungis fram á að málið yrði skoðað. Það kom fram hjá varaformanni efh.- og viðskn., Kristni H. Gunnarssyni, að hv. formaður nefndarinnar hefði ekki einu sinni sýnt þeim sem hér stendur þann sóma að láta vita að þessa hefði verið óskað. Ég vil að það komi sérstaklega fram að mér fannst varaformaður nefndarinnar taka ákaflega málefnalega á þessu. Hann tók upp þykkjuna fyrir mína hönd vegna þeirrar staðreyndar að hv. formaður efh.- og viðskn., sem bersýnilega kann ekki grundvallarvinnubrögð í mannlegum samskiptum í nefndarvinnu á hinu háa Alþingi, hafði látið vera að láta mig sem almennan þingmann njóta þess sjálfsagða réttar að tiltekin mál væru tekin til skoðunar við afgreiðslu frv. Sjálfur benti ég á að sú lausn sem ég hafði á þessu tiltekna máli væri ekki fullkomlega vatnsheld. Ég benti á að t.d. við þær aðstæður að systkinahópur verður skyndilega munaðarlaus og eitt systkinanna er komið yfir 18 ára aldur þá getur það krafist arfshlutar. Þetta skapar vandamál. Þá benti hv. varaformaður efh.- og viðskn. á ákveðna leið sem var meira en einnar messu virði að skoða. Það var þess vegna og af virðingu fyrir meiri hlutanum og lýðræðinu á þessu þingi sem ég og félagar mínir í Samf. stóðum að sjálfsögðu við þau orð að greiða fyrir því að þingið fengi tækifæri til að fjalla málefnalega um þessa breytingu á lögunum.

En hv. formaður efh.- og viðskn. sýndi okkur í minni hlutanum ekki þann sóma að fjalla samkvæmt formlegri ósk um þetta mál. Það þurfti félaga hans sem kunna mannasiði og virða hefðbundnar samskiptareglur í samvinnu þingmanna til að koma vitinu fyrir formanninn og fá a.m.k. lágmarksumfjöllun um málið. Það var ekki meira sem um var beðið. Enginn var að reyna að beita því afli sem Samf. sannarlega hefur í þessu tiltekna máli til að koma fram málamiðlun þar sem hrossakaup yrðu gerð til að við næðum þessu fram. Mönnum hefði verið í lófa lagið að freista einhvers slíks.

Ég ímynda mér að formaður Samf. hefði getað tekið upp símann og talað við vin sinn í fjmrn. og a.m.k. spurt hann hvort hann væri til í að íhuga það. En það gerði ég ekki vegna þess að ég vinn ekki þannig. Ég taldi fullkomlega eðlilegt að meiri hlutinn á þinginu fengi að ræða þetta frv. og eftir atvikum að fá það samþykkt og Samf. styður það.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa um þetta frekari orð en vil í lok máls míns segja það að reynsla mín af hv. þm. sem formanni efh.- og viðskn. er ekki góð. Því miður er þetta ekki fyrsta dæmið. Það er einfaldlega þannig í þinginu að menn reyna að vinna saman. Það gerum við í stjórnarandstöðunni og það hafa flestir í stjórnarliðinu líka gert. Mér finnst að hv. þm. Pétur H. Blöndal ætti að horfa svolítið til þess.