Fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga

Föstudaginn 16. apríl 2004, kl. 14:31:33 (6544)

2004-04-16 14:31:33# 130. lþ. 100.94 fundur 485#B fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga# (umræður utan dagskrár), JGunn
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 130. lþ.

[14:31]

Jón Gunnarsson:

Herra forseti. Það mátti helst skilja á hæstv. fjmrh. áðan að það væri bara óþurftarvæl í sveitarfélögunum að vera að kvarta yfir því að þau hefðu ekki peninga. Staðreyndin er samt sú að langflest sveitarfélög í landinu eiga í fjárhagserfiðleikum í dag og það þrátt fyrir að flest þeirra séu farin að fullnýta tekjustofna sína eins og mögulegt er. Þau hafa líka verið að hækka þjónustugjöld ýmiss konar, eins og leikskólagjöld og önnur þau gjöld sem koma inn í tekjur sveitarfélaganna. Að mínu viti og margra annarra verður ekki lengra gengið þar.

Til að bregðast við fjárhagsvanda hafa sveitarfélögin líka leyst upp eignir og eru að gera það í stórum stíl til þess að eiga einhvern möguleika á að sinna grunnþjónustu. Þau eru í meira mæli en áður farin að fela þriðja aðila að byggja yfir grunnþjónustu sína. Ríkið er einnig, eins og við þekkjum, alltaf að setja lög sem íþyngja fjárhag sveitarfélaganna og oft og tíðum er það gert án þess að það sé skoðað með hvaða hætti hægt sé að draga úr útgjöldum annars staðar eða auka tekjur þeirra.

Að mínu viti þurfum við að skoða hvernig tekjur sveitarfélaganna eru saman settar. Sveitarfélögin hafa einungis tekjur sem beint eru tengdar launatekjum og síðan fasteignaverðmæti í sveitarfélaginu. Ég held að sveitarfélögin þurfi breiðari tekjufót til að standa undir skyldum sínum og ég hefði áhuga á að heyra frá hæstv. fjmrh. hvort hann væri tilbúinn til að skoða það með jákvæðu hugarfari hvort sveitarfélögin í landinu fengju einhverja hlutdeild í veltutengdum sköttum eins og virðisaukaskatti því að ég held að það sé öllum ljóst sem skoða það í alvöru og skoða ástandið eins og það hefur þróast hjá sveitarfélögunum á undanförnum árum að núverandi tekjur standa einfaldlega ekki undir lögbundnum verkefnum eða grunnþjónustu sem sveitarfélögin eiga að sinna.

Stjórnsýslustigin í landinu eru tvö og það má ekki vera þannig til lengdar að annað þeirra sé of veikt til að sinna þeim skyldum sem á það eru lagðar.