Fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga

Föstudaginn 16. apríl 2004, kl. 14:38:16 (6547)

2004-04-16 14:38:16# 130. lþ. 100.94 fundur 485#B fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga# (umræður utan dagskrár), SJS
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 130. lþ.

[14:38]

Steingrímur J. Sigfússon:

Frú forseti. Ég vil byrja á því að segja að mér finnst mjög miður að hæstv. félmrh., ráðherra málefna sveitarfélaganna, sem var í þingsalnum fyrir nokkrum mínútum við atkvæðagreiðslur skyldi þurfa að hverfa burt úr salnum þegar þessi umræða var að hefjast. (Gripið fram í: Rauk bara á dyr.) Þó að umræðunni sé að sönnu beint til fjmrh. hefði verið æskilegt að ráðherra málefna sveitarstjórna hefði a.m.k. setið hér, fylgst með umræðunni og sýnt málaflokknum þá virðingu.

Það þýðir ekkert fyrir hæstv. fjmrh. að halda ræður af því tagi sem hann gerði áðan. Þeir sem þekkja til málefna sveitarfélaganna í landinu og vita hvernig afkoma þeirra hefur þróast undanfarin ár falla ekki fyrir talnameðferð af því tagi sem hæstv. fjmrh. var með, að nefna tölur um aukningu á tekjuhlið sveitarfélaganna. Það verður að horfa á gjaldahliðina líka, hæstv. fjmrh. --- ætti ekki að þurfa að segja ráðherranum það --- og það verður að horfa á afkomuna. Hvernig hefur hún verið öll þessi ár sem ráðherrann nefndi, frá 1998 til og með árinu í ár? Vaxandi skuldir á hverju einasta ári. Sveitarfélögin í landinu í heild sinni gerðu upp með halla, og skuldir þeirra aukast ár frá ári. Það hefur að vísu heldur dregið úr skuldaaukningunni á árunum 2001 og 2002 en það sígur sennilega á ógæfuhliðina á nýjan leik nú. Svona er staðan og þetta verða menn að horfast í augu við. Síðan er sett af stað ferli af því tagi sem nú er í gangi og einhver tekjustofnanefnd, skipuð nefnd á nefnd ofan, en það kemur ekkert út úr þessu, aldrei. Hvenær á að koma eitthvað út úr þessu? Væri ekki nær að taka til í málefnum sveitarfélaganna fyrst og koma afkomu þeirra í lag áður en lagt er upp í nýjan leiðangur á einhverjum fljótandi forsendum um það að yfirtaka kannski mjög stóra og útgjaldafreka málaflokka sem munu taka meira til sín á komandi árum vegna breyttrar aldurssamsetningar í samfélaginu, þ.e. heilbrigðismál og umönnun aldraðra? Ég segi bara að þeir eru kjarkmiklir, þeir forustumenn sveitarfélaganna í landinu sem í ljósi reynslunnar og í ljósi samskipta við stjórnvöld leggja í einn leiðangur enn af þessu tagi á fljótandi forsendum um hina tekjulegu undirstöðu. Ekki þola sveitarfélögin í landinu mörg ár, hvað þá áratugi, með áframhaldandi skuldasöfnun. Svo mikið er víst.