Fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga

Föstudaginn 16. apríl 2004, kl. 14:43:04 (6549)

2004-04-16 14:43:04# 130. lþ. 100.94 fundur 485#B fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga# (umræður utan dagskrár), GÁS
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 130. lþ.

[14:43]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Frú forseti. Ég velti því fyrir mér undir ræðu hæstv. fjmrh. hvernig þeim liði, flokksbræðrum hans og -systrum í þessum sal og raunar úti um land allt, þegar hæstv. ráðherra hefur þvílík endaskipti á hlutunum að furðu sætir. Hann hélt því fram, horfði í augun á okkur og sagði sveitarfélögin yfirleitt alsæl með sitt, að sveitarfélögin hefðu sannarlega grætt peninga á tilfærslu grunnskólans forðum daga yfir til sín. Ég hugsaði mitt og velti því fyrir mér hvernig mönnum á borð við hv. þm. Gunnar Birgisson, formann bæjarráðs í Kópavogi, liði eða hv. þm. Ísólfi Gylfa Pálmasyni, sveitarstjóra á Flúðum, hv. þm. Guðlaugi Þ. Þórðarsyni og Drífu Hjartardóttur, hvort þau hafi sömu sögu að segja, hvort þau deili þessari reynslu með hæstv. fjmrh. Ég veit að þau gera það ekki þannig að hæstv. ráðherra hafði fullkomin endaskipti á hlutum.

Það er enginn að halda því fram að sveitarfélögin séu að leika einhver fórnarlömb eða þurfalinga, eins og hæstv. ráðherra lýsti því svo smekklega. Þvert á móti. Þau vilja yfirleitt, burt séð frá því hver ræður þar ríkjum í meiri hluta hverju sinni, standa ákveðið og fast á eigin fótum. Þau hafa ekki haft tök á því og ég rifja það upp að fyrir einum þremur árum var þáverandi tekjustofnanefnd á vettvangi og skilaði afurðum sínum hingað inn í þennan sal. Ég sat í þeirri nefnd, ég sagði þá og segi enn og aftur: Það var lítils háttar plástrun sem þá átti sér stað. Ég lýsti því þá og segi enn og aftur: Það stefndi í það ástand sem nú blasir við okkur.

Og enn er nefnd að störfum.

Það þarf að komast að kjarna þessa máls. Hér hafa menn vakið athygli á því að Alþingi Íslendinga setur sveitarfélögunum lagaramma sem þarf að uppfylla. Fráveitumál hafa verið nefnd. Hvernig eru skuldaskil í þeim efnum? Ríkissjóður græðir á því meira en nemur framlagi, þ.e. virðisaukinn af framkvæmdunum vegna fráveitumála sem er upp á 16 milljarða kr. skilar peningum í ríkissjóð en ekki á hinn veginn. Hér þarf að taka á málum með vitrænum og heildrænum hætti, eins og hv. framsögumaður þessarar umræðu segir stundum.