Fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga

Föstudaginn 16. apríl 2004, kl. 14:45:26 (6550)

2004-04-16 14:45:26# 130. lþ. 100.94 fundur 485#B fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga# (umræður utan dagskrár), BJJ
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 130. lþ.

[14:45]

Birkir J. Jónsson:

Hæstv. forseti. Það er mjög mikilvægt að traust ríki í fjárhagslegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga. Núverandi hæstv. félmrh. og fjmrh. hafa kappkostað að hafa sem best samskipti við sveitarfélögin í landinu og segja má að samskipti ríkis og sveitarfélaga frá árinu 1995 hafi verið með miklum ágætum. Mörg verkefni hafa verið flutt til sveitarfélaganna á umliðnum árum og okkur ber að halda áfram á þeirri braut að flytja verkefni yfir til sveitarfélaganna. Jafnframt verðum við að hafa í huga að fjármunir þurfa að fylgja þeim verkefnum sem sveitarfélögin taka yfir.

Hins vegar deili ég þeirri skoðun með mörgum alþingismönnum og sveitarstjórnarmönnum að eðlilegt sé að sveitarfélögin komi að kostnaðarmati við þau lagafrumvörp sem afgreidd eru á Alþingi og sveitarfélögin varða. Það er staðreynd að mörg þau frv. sem héðan eru afgreidd hafa bein áhrif á kostnað sveitarfélaga. Ég fagna því frumkvæði sem núverandi ríkisstjórn sýndi með því að nú koma sveitarfélögin að kostnaðarumsögn frv. sem koma frá félmrn. og umhvrn. Ég tel að við eigum að ganga lengra í þessum efnum þannig að sveitarfélögin hafi aðkomu að frv. allra ráðuneyta, frv. sem hafa bein áhrif á fjárhag viðkomandi sveitarfélaga. Ég tel að fullkomið traust í samskiptum ríkis og sveitarfélaga muni ekki ríkja fyrr en við komum á þeirri skipan mála.