Lyfjalög

Föstudaginn 16. apríl 2004, kl. 15:01:47 (6556)

2004-04-16 15:01:47# 130. lþ. 100.2 fundur 880. mál: #A lyfjalög# (lyfjaverð og greiðsluþátttaka almannatrygginga) frv. 83/2004, JGunn (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 130. lþ.

[15:01]

Jón Gunnarsson (andsvar):

Frú forseti. Mörg atriði í frv. hæstv. ráðherra vekja athygli og það eiga örugglega eftir að verða talsverðar umræður um þau og hvort þær breytingar sem frv. gerir ráð fyrir komi til með að lækka lyfjaverð til neytenda eða ekki, þó ég þykist fullviss um að hæstv. ráðherra sé með það í huga. Ég hef lesið frv. með athygli og einnig hlustað á framsöguræðuna en ég get ómögulega áttað mig á einu atriði og það eru ákvæði um samhliða innflutning lyfja.

Það er yfirlýst í frv. að auka beri samhliða innflutning lyfja og vænta megi að þannig náist lyfjaverð niður. Þeir sem standa í samhliða innflutningi í dag telja hins vegar að ef frv. verður að lögum muni nánast verða ókleift að stunda samhliða innflutning þeirra lyfja sem þó er verið að flytja inn í dag og alls ekki verði um neina aukningu að ræða og innflytjendur tala um að frv. sé hreinlega sett til höfuðs þessum innflutningi. Því er ekki óeðlilegt að spurt sé hvað snýr upp og hvað niður í málinu, sérstaklega eftir að ég sá að í Morgunblaðinu í gær var haft eftir yfirlyfjafræðingi heilbr.- og trmrn. að hugsanlegt sé að svigrúmið muni minnka varðandi samhliða innflutt lyf ef frv. yrði óbreytt að lögum. Mér leikur því forvitni á að vita hvernig minnkað svigrúm til innflutnings, eins og fram kemur í máli yfirlyfjafræðings heilbr.- og trmrn., á samhliða innfluttum lyfjum á að auka innflutning þeirra og lækka verð? Ég fæ þetta, frú forseti, alls ekki til að passa saman.