Lyfjalög

Föstudaginn 16. apríl 2004, kl. 15:04:47 (6558)

2004-04-16 15:04:47# 130. lþ. 100.2 fundur 880. mál: #A lyfjalög# (lyfjaverð og greiðsluþátttaka almannatrygginga) frv. 83/2004, JGunn (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 130. lþ.

[15:04]

Jón Gunnarsson (andsvar):

Frú forseti. Lítið bar á svörum hjá hæstv. heilbrrh. og tel ég mig því knúinn til að fara aðeins yfir þetta aftur.

10. gr. frv. gerir ráð fyrir að tekið sé mið af lægsta verði, ef ég man rétt, lyfjanna í því landi sem á að flytja þau inn frá. Í viðtali við áðurnefndan Einar Magnússon, yfirlyfjafræðing heilbr.- og trmrn., í Viðskiptablaði Morgunblaðsins í gær segir hann, með leyfi forseta að: ,,hugsunin í frumvarpinu sé ekki sú að koma í veg fyrir samhliða innflutning lyfja. Hann segir að það hafi vakið athygli að þeir sem stundi samhliða innflutning lyfja hafi sótt um sama verð og er á þeim lyfjum sem eru fyrir, þó svo að lyfin komi frá ódýrari mörkuðum.``

Síðar í sömu grein segir hann að: ,,Hugsanlegt sé að svigrúmið muni því minnka varðandi samhliða innflutt lyf.``

Þar sem yfirlýst markmið frv. er að liðka fyrir samhliða innflutningi lyfja frá löndum þar sem lyfjaverð er lægra en okkur býðst á Íslandi hlýtur maður að velta því fyrir sér í fullri alvöru þegar yfirlyfjafræðingur heilbr.- og trmrn. segir að það geti samt verið að það sem standi í frv. verði til þess að minnka svigrúmið til að flytja inn samhliða lyf frá því sem nú er. Þarna er talað í suður og farið í norður, ef þetta er rétt, og því ekki óeðlilegt að spurt sé hvernig standi á þessu.