Lyfjalög

Föstudaginn 16. apríl 2004, kl. 15:38:48 (6562)

2004-04-16 15:38:48# 130. lþ. 100.2 fundur 880. mál: #A lyfjalög# (lyfjaverð og greiðsluþátttaka almannatrygginga) frv. 83/2004, heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 130. lþ.

[15:38]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Virðulegi forseti. Ég þakka þá umræðu sem farið hefur fram um frv. sem hér liggur fyrir.

Svo ég komi fyrst að tímasetningunni og umfjöllun um málið þá er meginþátturinn í þessu frv. að endurskipuleggja lyfjaverðsnefnd og greiðsluþátttökunefnd til að hafa betri yfirsýn yfir þessi mál, endurskipuleggja stjórnkerfið varðandi heildsöluna og smásöluna.

Hv. 10. þm. Suðurk., Jón Gunnarsson, taldi að hér væri verið að taka upp fyrirkomulag líkt og gildir með tannlækna. Svo er ekki. Á því er sá meginmunur að hér er verð\-ákvörðunin miðstýrð en álagning tannlækna er frjáls og alger grundvallarmunur á þessu.

Undanfarið hefur verið ráðist í ýmiss konar aðgerðir. Ég vitnaði í skýrslu Ríkisendurskoðunar sem bendir á margvíslegar aðgerðir í lyfjamálum sem gætu komið til góða til þess að lækka lyfjareikning landsmanna, bæði hins opinbera og einstaklinga í mörgu af því hefur verið unnið síðustu mánuði. Uppi eru áform um að fara í herferð á stofnunum, endurskipuleggja lyfjalista og lyfjanefndir á stofnunum til að lækka lyfjakostnað á heilbrigðisstofnunum. Sú vinna hefur verið í fullum gangi í allan vetur. Markmiðið er auðvitað að ná kostnaði niður. Eins hafa farið fram viðræður um að auka sölu samheitalyfja hér á landi. Það hefur komið fram að íslensk lyfjafyrirtæki hafa verið mjög gildandi í framleiðslu samheitalyfja. Við þurfum að koma því þannig fyrir að íslenskur markaður njóti þess einnig.

Hv. 10. þm. Reykv. s., Ágúst Ólafur Ágústsson, kom inn á mörg almenn atriði sem hann taldi að mundu spara lyfjakostnað. Ég er honum sammála um það sem hann kom inn á í því efni, m.a. varðandi þunglyndislyfin. Við notum meira af þeim en gengur og gerist í helstu viðmiðunarlöndum. Við þurfum að huga að hvers konar almennum aðgerðum sem gætu náð þessum kostnaði niður. Ég er honum sammála um að hreyfing, aukin sálfræðiþjónusta og fleiri slíkar aðgerðir gætu verið þáttur í þessu. Þetta frv. fjallar ekki um það en ég vil þó geta þess við þessa umræðu að við stefnum að því að auka þátttöku heilsugæslunnar í sálfræðiþjónustu, að fleiri heilsugæslustöðvar bjóði upp á slíka þjónustu. Að því hefur verið unnið.

Hér hefur verið komið inn á samkeppni apótekanna og afslætti og hvort upp komi vandamál með að sjúklingar njóti afsláttar þar. Það er vissulega ekkert vandamál. Ég vona að svo verði áfram og apótekin verði í samkeppni á þessu sviði. Ég tel ekkert mæla á móti því að það komi viðskiptavinum þeirra til góða. Ég geri mér grein fyrir því að því hefur verið haldið fram að verðákvarðanir lyfjaverðsnefndar, sem eru til umræðu núna, muni draga úr þessari samkeppni. Ég trúi ekki að engar leiðir verði eftir í apótekunum til hagræðingar nema að minnka afslætti til sjúklinga. Það er auðvitað ekkert á móti því að þeir njóti afsláttar. Ég hef aldrei haldið því fram að neitt mælti á móti því.

Varðandi starfsmenn nefndarinnar þá er að sjálfsögðu rétt að það er ekki við hæfi og ekki venjan að setja í lög að ákveðnir starfsmenn skuli starfa áfram í stofnun sem er að verða til. Ég dreg ekki fjöður yfir það að ætlan okkar er að sameina þessar nefndir. Við ætlum ekki að víkja þeim mönnum frá sem þar starfa. Þeir hafa unnið ágætt starf en við teljum að þessar nefndir verði sterkari sameinaðar. En við bindum það vissulega ekki í lög að þessir starfsmenn starfi áfram. Það er ekki venja og það er ekki ætlunin með þessu frv.

Ég vil undirstrika að samheitalyf eru í flestum tilfellum fyllilega sambærileg við frumlyf. Ef þau eru það ekki þá eru ákvæði um að samkvæmt læknisráði geti fólk fengið lyfjakort. Það er ætlunin. Það er gert til að varna því að þátttaka sjúklinga í lyfjakostnaði fari upp um mörg hundruð prósent eins og í dæmi sem hv. 10. þm. Suðurk. tiltók. Ég tel að það eigi ekki að vera hætta á því ef sótt er um lyfjakort í þeim tilfellum að læknir telur að það þurfi. Þetta ákvæði er ekki í frv. heldur reglugerðarákvæði um að miða greiðsluþátttöku við lægsta verð í ákveðnum flokkum tiltekinna lyfja.

Aðgerðir í lyfjamálum hafa verið margþættar undanfarið. Þær hafa snúið að heilbrigðisstofnunum inn á við. Þær hafa einnig snúið að reglugerðarákvæðum og þeim lagaákvæðum sem til umfjöllunar eru í þessu frv. Ég vona að þetta frv. fái afgreiðslu fyrir þinglok. Ég tel að ákvæði þess séu ekki það viðamikil að geyma þurfi þau til næsta þings. Hins vegar hef ég ákveðið að skipa nefnd til að fara í heildarendurskoðun lyfjalaga. Ég taldi þessi ákvæði frv. nauðsynleg núna, að þetta væri skref sem væri hægt að taka á þessu vori, skref sem styrkti stjórnsýsluna í þessum málaflokki. Það leiðir vonandi til lækkunar lyfjaverðs. Hins vegar eru í gangi aðgerðir til að lækka lyfjareikninginn, verðlagsákvarðanir lyfjaverðsnefndar í heildsölu og í smásölu og sú viðmiðun sem við höfum ætlað okkur að taka upp um næstu mánaðamót.

Ég endurtek að ég vonast til að þetta frv. fái framgang á Alþingi. Það verður að sjálfsögðu skoðað í heilbr.- og trn. Nefndin vinnur mál sín vandlega og ég veit að hún gerir það í þessu tilfelli. Ég tel að til þess sé svigrúm og þannig sé hægt að klára málið núna á vorþinginu.