Lyfjalög

Föstudaginn 16. apríl 2004, kl. 15:49:18 (6563)

2004-04-16 15:49:18# 130. lþ. 100.2 fundur 880. mál: #A lyfjalög# (lyfjaverð og greiðsluþátttaka almannatrygginga) frv. 83/2004, JGunn (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 130. lþ.

[15:49]

Jón Gunnarsson (andsvar):

Frú forseti. Ég held að við hæstv. heilbrigðisráðherra séum fyllilega sammála um að gera þarf allt sem hægt er til að lækka heildarlyfjakostnað ríkisins og sjúklinganna sem lyfin nota. Ég er sammála honum alla vega við fyrstu sýn að það að sameina þessar nefndir í eina nefnd mun verða skilvirkara. Ég sé ekki að tíminn sé neitt naumur til að koma þeirri breytingu í gegn.

Við erum aftur á móti ósammála um hvort í frumvarpið séu ákvæði sem ná ekki þeim markmiðum sem frumvarpið þó lýsir yfir að þeim sé ætlað að ná. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra, ef það koma nú fram haldbær rök sem sýna fram á að það sem fram kemur í frumvarpinu nær ekki þeim tilgangi sem því er ætlað, hvort hann sé ekki sammála mér í því að við þurfum að gefa okkur þá tíma til að skoða þau rök og velta fyrir okkur hvernig þurfi að breyta frumvarpstextanum til þess að frumvarpið nái markmiðum sínum, verði það að lögum.

Já, við þurfum að lækka heildarlyfjakostnað. Já, við þurfum að auka sölu á samheitalyfjum. Og já, við þurfum að liðka fyrir samhliða innflutningi lyfja. Um þetta held ég að ríki enginn ágreiningur okkar á milli. Ágreiningurinn liggur í því hvort frumvarpið sem lagt er fram nær þessum þremur markmiðum sem ég hér var að fara yfir.

Hvað varðar lyfjaverð þá held ég að hvorugur okkar vilji skipta sjúklingum upp í þá sem geta greitt og fengið það sem læknir ávísar og hinna sem ekki geta greitt og þurfa að sætta sig við eitthvað lakara. Þann tíma vill sá sem hér stendur ekki sjá og trúir því ekki að hæstv. ráðherra vilji það heldur.