Lyfjalög

Föstudaginn 16. apríl 2004, kl. 15:52:58 (6565)

2004-04-16 15:52:58# 130. lþ. 100.2 fundur 880. mál: #A lyfjalög# (lyfjaverð og greiðsluþátttaka almannatrygginga) frv. 83/2004, JGunn (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 130. lþ.

[15:52]

Jón Gunnarsson (andsvar):

Frú forseti. Í fyrra andsvari mínu gafst mér ekki tími til þess að fara í eitt atriði sem fram kom í seinni ræðu hæstv. heilbrigðisráðherra. Það varðar greiðsluþátttökuverðið og hámarksverðið og þá greiðsluþátttöku almannatrygginga í lyfjaverði eða hlut ríkisins í lyfjaverði og hlut sjúklings í lyfjaverðinu.

Ég lýsti því yfir í ræðu minni að mér sýndist að þarna gætum við að hluta til verið að taka upp svipað kerfi og nú gildir í tannlækningum, þar sem endurgreiðsluhlutfall ríkisins er í raun ekki það sem fram kemur í reglum ríkisins vegna þess að tvær gjaldskrár gilda í landinu. Annars vegar er það viðmiðunargjaldskrá Tryggingastofnunar og hins vegar eru það mismunandi gjaldskrár tannlækna eins og þær eru ákveðnar af hverjum og einum fyrir sig.

Það er rétt sem fram kemur hjá hæstv. ráðherra að tannlæknar eru frjálsir að sinni álagningu en lyfjaverð er miðlægt. En miðað við það að það takist að auka mjög innflutning á sambærilegum lyfjum eða samheitalyfjum og verðið verði misjafnt á frumlyfi og lyfi með svipaða verkan þá hlýtur þó að verða um talsvert mismunandi hámarksverð að ræða á þessum lyfjum. Samkvæmt því sem við lesum út úr frumvarpinu verður greiðsluþátttökuverðið þá í raun það sama á þessum lyfjaflokki eða þessum lyfjum sem eiga að vera sambærileg þannig að þeir sem þurfa einhverra hluta vegna, vegna aukaverkana eða einhvers annars, að fá ávísað lyfi sem er í sama flokki með svipaða verkun og á mun hærra verði en lægsta verði, munu þá þurfa að greiða mun stærri hlut heldur en gefið er út að greiðsluþátttaka ríkisins sé. Ég vona að hæstv. ráðherra staðfesti að það sé enginn misskilningur hjá mér í þessu.