Lyfjalög

Föstudaginn 16. apríl 2004, kl. 15:55:04 (6566)

2004-04-16 15:55:04# 130. lþ. 100.2 fundur 880. mál: #A lyfjalög# (lyfjaverð og greiðsluþátttaka almannatrygginga) frv. 83/2004, heilbrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 130. lþ.

[15:55]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Megintilgangurinn með þessum breytingum er að ná niður lyfjareikningnum, nýta sér það ef til eru lyf með sambærilega verkun á mun lægra verði. Þessi lyf eru til og það er einboðið að nýta sér það. Ég er eindregið þeirrar skoðunar. Hins vegar er ég jafneindregið þeirrar skoðunar að það verði að vera greið leið fyrir lækna að fá lyfjakort fyrir sjúklinginn vegna dýrari lyfja ef sjúklingurinn þarf á þeim að halda vegna aukaverkana. Við höfum verið með það til sérstakrar skoðunar að sú leið sé greið og auðveld og það þarf þá að ákveða greiðsluþátttöku í því lyfi. En það er alveg einboðið að nýta sér aðgang að ódýrari lyfjum og að greiðsluþátttakan sé þá miðuð við ódýrustu lyfin. Það lækkar lyfjareikning bæði Tryggingastofnunar og sjúklinganna sem þurfa að nýta sér þessi lyf.