Lyfjalög

Föstudaginn 16. apríl 2004, kl. 15:57:03 (6567)

2004-04-16 15:57:03# 130. lþ. 100.2 fundur 880. mál: #A lyfjalög# (lyfjaverð og greiðsluþátttaka almannatrygginga) frv. 83/2004, GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 100. fundur, 130. lþ.

[15:57]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Hæstvirtur forseti. Við erum örugglega öll sammála um að æskilegt sé að ná niður lyfjakostnaði landsmanna eins og hæstv. heilbrigðisráðherra orðar það. Þar geri ég ráð fyrir að ráðherrann sé að tala um heildarkostnað landsmanna, það er ríkis og þjóðar og síðan sjúklinga.

Virðulegi forseti. Í Fréttablaðinu í gær var birt sérstök tafla sem sýnir verðbreytingu til sjúklinga, annars vegar til lífeyrisþega þar sem verðbreytingin í töflunni liggur í hækkun frá 300% upp í 600% og hins vegar til almennings þar sem hækkunin liggur frá um 80% og upp undir 200%.

Ég geri nú ráð fyrir því að hæstv. ráðherra hafi lesið þessa grein. Þar segja Samtök verslunar og þjónustu að kostnaði vegna vanda ríkisins sé velt yfir á sjúklingana. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. ráðherra við lok þessarar umræðu hvaða athugasemdir hann hafi við þessa frétt og þá töflu sem hér er birt. Eiga lyfjakortin að taka á þessum vanda, þ.e. ef sjúklingar geta ekki nýtt sér ódýrari lyf og þurfa á þessum lyfjum að halda sem munu hækka svo sem hér er greint frá? Þá er næsta spurning auðvitað sú hvort lyfjakortin muni dekka það og hvort þeir sjúklingar sem þurfa á þessum lyfjum að halda muni fá slík lyfjakort?